Hjörleifur Guttormsson 16. apríl 2004

Ábyrgð Íslands og hryðjuverkaógnin

Mikil er skömm Íslands um þessar mundir. Ríkisstjórn lands okkar hefur gert Íslendinga ábyrga fyrir þeim hörmungum sem yfir Írak ganga í kjölfar árásarstríðs Bandaríkjanna og Breta. Innrásin var ólöglegt athæfi að alþjóðalögum, gerð í trássi við Sameinuðu þjóðirnar. Æðstu ráðamenn lands okkar, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, gerðu Ísland hins vegar að ábekingi að innrásinni með því að lýsa yfir fyrirvaralausu fylgi við hana. Um leið gerðu þeir Ísland og Íslendinga samábyrga með innrásarríkjunum og afleiðingum hernámsins. Þau óhæfuverk sem hernámsliðið vinnur í Írak dag hvern eru þannig á ábyrgð Íslendinga sem þjóðar og breytir þá engu að íslenska ríkisstjórnin hafði ekki tök á að senda herlið á vettvang.

Þúsundir óbreyttra írakskra borgara liggja í valnum, þjóðargersemar hafa verið eyðilagðar, ránshendi farið um söfn og heimsminjum aftan úr forneskju tortímt. Helstu náttúruauðlindir Íraka eru bakgrunnur þessarar herfarar, sem knúin er fram af stærstu olíuhringum Bandaríkjanna sem nú hafa undirtökin í stjórnkerfi þessa heimsveldis með Dick Cheney varaforseta sem ódulbúinn fulltrúa sinn.

Í páskavikunni murkuðu bandarískar hersveitir lífið úr 700 manns í Fallujah, að meirihluta til konur og börn að því virtar fréttastofur staðhæfa. Alþjóðleg mannréttindasamtök með höfuðstöðvar vestanhafs hafa krafist rannsóknar á þessum atburðum en tala fyrir daufum eyrum. Æ fleiri spyrja sig hvar upphafs þeirra hryðjuverkaógna sem nú eru helsta umræðuefni á Vesturlöndum sé að leita og hverjir falli undir hugtakið hryðjuverkamenn. Eru þeir sem ráða yfir herjum og ráðast á önnur þjóðríki í trássi við alþjóðalög þar undanskildir? Og hver er hlutur þeirra ríkja og valdsmanna sem veita Bandaríkjunum og Bretum stuðning til óhæfuverkanna?

Undirrót þess ástands sem nú ríkir í alþjóðamálum og tengt er hryðjuverkum liggur á Vesturlöndum. Á meðan menn ekki horfast í augu við það á ástandið aðeins eftir að versna. Þeir sem ráku Palestínumenn af landi sínu fyrir rösklega hálfri öld og halda heilli þjóð fyrir botni Miðjarðarhafs í herkví eiga stóran hlut að máli, einnig við Íslendingar. Það er skelfilegt til þess að vita að á sama tíma og forseti Bandaríkjanna slær einhliða striki hugmyndir um friðarferli milli Ísraels og Palestínu skuli íslenskir ráðamenn hjúfra sig fastar en nokkru sinni fyrr upp að valdsmönnunum í Washington.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim