Hjörleifur Guttormsson 17. júní 2004

Hugleiðingar á þjóðhátíð

Um íslenska lýðveldið

Þá er lýðveldið okkar orðið sextugt og þeim fækkar sem muna 17. júní 1944. Sá sem þetta ritar fagnaði þeim degi heima á Hallormsstað og hlýddi þá átta ára gamall á hátíðardagskrá frá Þingvöllum í útsendingu Ríkisútvarpsins. Nú á afmælinu er deilt um stjórnarskrána sem þá var samþykkt og hlutverk forsetaembættisins. Heldur er það innantóm umræða og ekki séð að hún verði leidd til lykta á næstunni. Þeir sem fremstir ganga í báðum fylkingum virðast mér ekki hafa mikinn hug á efnislegri úrlausn. - Umræðan um synjunarvald forsetans skyggir á miklu stærri og veigameiri mál er varða framtíð Íslands: Umgengnina við landið, samskiptin við umheiminn, stöðu Íslendinga meðal þjóða.

Um Evrópusambandið

Stjórnarskrá er rædd víðar en á Íslandi. Á næstu dögum takast ráðamenn ríkja í Evrópusambandinu á um fyrstu stjórnskrá þessa ríkjasambands. Þar eru væringjar ekki síður en hérlendis, enda mikið lagt undir. Meginspurningin stendur þar um frekari samruna og þróun ríkja Evrópusambandsins í átt að ríkisheild. Íslendingar geta þakkað sínum sæla fyrir að vera ekki beinir þátttakendur í þeim átökum. Þó varða þau okkur m. e. vegna ásóknar sumra hérlendis að koma þjóð okkar inn í Evrópusambandið. Með slíku skrefi værum við að fórna miklu af því sem ávannst í sjálfstæðismálum á öldinni sem leið og að leggja upp í ferð sem enginn veit hvar muni enda. Framtíðarskipan mála í Evrópusambandinu hefur sjaldan verið í jafnmikilli ósvissu og nú frá því það var stofnað með Rómarsáttmálann sem grundvöll í ársbyrjun 1958. Stjórnarskráin væntanlega verður borin undir þjóðaratkvæði í allmörgum ESB-ríkjum og úrslitin geta orðið söguleg. Aðild átta nýrra ríkja úr austanverðri álfunni eykur enn á óvissuna og ekki er útilokað að sambandið sundrist er fram líða stundir.

Um ógnvænlegrar blikur

Þegar lýðveldi okkar var stofnað sá fyrir endann á heimsstyrjöld sem kostað hafði miljónatugi lífið. Á eftir fylgdi kalt stríð með ógnarjafnvægi sem menn vonuðu að heyrði sögunni til. En nýjar og enn alvarlegri blikur hrannast upp sem hætt er við að setji svip sinn á 21. öldina nema samfélagi þjóðanna takist að bægja þeim frá. Þær miklu breytingar sem mannkynið hefur þegar valdið á umhverfi jarðar virðast aðeins lítill forsmekkur af því sem framundan er. Loftslagsbreytingar af mannavöldum gerast nú hraðar en flesta gat grunað fyrir hálfum öðrum áratug þegar lagður var grunnur að alþjóðasáttmála til varnar. Afleiðingarnar munu að óbreyttu raska högum þjóða og jarðarinnar í heild svo mjög að jafnvel skelfingar heimsstyrjalda liðinnar aldar blikna í samanburði. Glíman við þennan vanda kallar á að breytt sé undirstöðum heimsbúskaparins og ríkjandi krafna um efnisleg gæði í stíl Vesturlanda. Sjálfbær þróun er langt frá því í sjónmáli. Við þetta bætast þau hörmulegu átök sem við blasa í Írak og ofurveldið Bandaríkin ber meginábyrgð á. Lýðveldið okkar sextuga stendur því miður ekki réttu megin í þeim hildarleik og landsmenn þurfa að skoða sinn gang á því sviði sem öðrum er mestu varða í samtímanum.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim