Hjörleifur Guttormsson 20. mars 2004

Ári eftir glæpsamlega innrás

Blekkingarnar afhjúpaðar

Innrás Bandaríkanna og Bretlands í Írak fyrir ári hefur reynst mesta búmerang á alþjóðavettvangi um langt skeið. Ljóst var um leið og innrásin var gerð að hún væri brot á alþjóðalögum og í henni fælist ein alvaralegasta atlaga að Sameinuðu þjóðunum frá upphafi samtakanna. Síðan hefur komið í ljós að meginréttlæting innrásarinnar, gereyðingarvopnaeign Íraka, og meint hætta sem heimsfriði átti að stafa af Saddam Hussein var heilaspuni ef ekki kaldrifjaðar lygar. Engar hliðstæður eru finnanlegar eftir síðari heimsstyrjöld fyrir svo ósvífnum blekkingum í aðdraganda stríðs. Nægir þar að minna á staðhæfingar Colin Powels í Öryggisráðinu stuttu fyrir innrásina og ræðu Blairs í breska þinginu um svipað leyti þar sem hann fullyrti að Sadam Hussein þyrfti aðeins 45 mínútur til að gera gereyðingarvopn sín virk gagnvart nágrönnum sínum og Evrópu.

“Hryðjuverkaógnin” skálkaskjól

Skýrar vísbendingar eru um að Bandaríkin undir forystu Bush stefndu að innrás í Írak strax eftir að hann tók við völdum og það löngu fyrir 11. september 2001. Tilgangurinn var fyrst og fremst að ná tökum á olíuauðlindum landsins og styrkja hernaðarlega stöðu Bandaríkjanna á Persaflóasvæðinu. Fjöldi sérfróðra manna um málefni Íraks og Austurlanda bentu á það í aðdraganda stríðsins að engin tengsl væru milli stjórnar Saddams Husseins og Al Kaída. Bush og Blair létu slíkt sem vind um eyru þjóta og sögðu þvert á móti að árásin á Írak væri liður í að draga úr hryðjuverkaógninni. Nú má öllum vera ljóst að einnig þetta var skálkaskjól og þeir höfðu á röngu að standa. Hryðuverkaógnin hefur magnast en ekki minnkað í kjölfar innrásarinnar. Sjálf innrásin og það stjórnleysi sem nú ríkir í Írak í kjölfar hernámsins hefur skapað þar jarðveg fyrir hryðjuverkasamtök og magnað upp andúð á Bandaríkjunum og þeim gildum sem þeir í orði kveðnu þykjast standa fyrir.

Lýðræðisblæjan gagnsæja

Stjórnvöld í Washington og Lundúnum reyndu að gefa stríðsundirbúningi sínum og innrásinni það yfirbragð að frelsa þyrfti Íraka undan oki einræðisherrans skelfilega og koma ætti á lýðræði í landinu að vestrænni fyrirmynd. Jafnvel gamlir haukar á borð við Henry Kissinger bentu þá þegar á að slíkar fyrirætlanir gengju þvert gegn aðþjóðalögum og viðteknum venjum um samskipti ríkja eins og þau hafa þróast allt frá lokum Þrjátíu ára stríðsins um miðja 17. öld. Stuðningur Bandaríkjanna við einræðisstjórnir víða um heim síðustu hálfa öld gerir í raun yfirvarp þeirra og tal um lýðræði að markleysu. Sjálfir voru Bandaríkjamenn dyggir stuðningsmenn Saddams Husseins á 9. áratugnum og héldu opinberlega hlífiskildi yfir Rauðu kmerunum í Kambódíu á meðan þeir töldu það henta sínum hagsmunum. Allir þekkja aðild þeirra að valdaráni Pinocet í Chile 1973. Það er átakanlegt að sjá íslenska stjórnmálamenn eins og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra réttlæta innrásina í Írak út á nauðsyn þess að skipta um ríkisstjórn í landinu.

Dýrkeypt herför og röng stefna

Herförin gegn Írak hefur þegar reynst gífurlega dýrkeypt í mannslífum talið, svo ekki sé minnst á efnahagslegar afleiðingar og fjárhagsleg útgjöld sem hvergi sér fyrir endann á. Hernámið hefur valdið samfélagslegri upplausn í landinu þar sem stjórnleysi, mannskæð átök og og gripdeildir eru daglegt brauð. Atvinnulífið er í enn bágara ástandi en fyrir var og kjör þorra fólks lakari en undir einræðisstjórn Saddam Husseins. Sú samstaða og samhygð sem myndaðist víða um heim í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 er jafnframt að engu orðin og megin ástæðan er herförin gegn Írak og tortryggni í garð Bandaríkjastjórnar. Æ fleiri á Vesturlöndum eru að komast á þá skoðun að málstök Bandaríkjastjórnar gegn hryðjuverkum séu alröng og geri aðeins illt verra. Hernaður eins og beitt hefur verið í Afganistan og enn frekar í Írak geri aðeins illt verra. Á meðan Bandaríkin greiða herkostnað Ísraelsstjórnar í átökum hennar við Palestínumenn sé þess ekki að vænta að dragi úr stuðningi Múslima við hermdarverk.

Íslensk stjórnvöld samábyrg

Með stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrás Bandaríkjanna og Breta í Írak hafa þau gerst samábyrg fyrir stefnu Bush og Blair. Líkt og hægristjórn Aznars á Spáni skeyttu Halldór og Davíð engu um almenningsálitið hérlendis sem augljóslega var því andvígt fyrir ári að Ísland væri sett á “lista hinna staðföstu”. Síðan hafa formenn stjórnarflokkanna margítrekað stuðning sinn við stefnu Bandaríkjastjórnar og skeyta engu þótt spilaborgin sem réttlæta átti innrásina sé hrunin til grunna. Engum dylst að bein tengsl eru á milli opinberrar afstöðu íslenskra stjórnvalda til Írakstríðsins og viðleitni þeirra að framlengja veru í Bandaríkjahers á Miðnesheiði. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa nýlega látið í ljós þá von sína að endurteknar yfirlýsingar um “staðfestu” Íslands í kjölfar gjörbreyttrar stefnu Spánarstjórnar geti orðið lóð á vogarskál í viðræðum um framtíð herstöðvarinnar í Keflavík. Um afstöðu forystu Framsóknarflokksins þarf enginn að efast eftir það sem á undan er gengið. Eftir er að sjá hvaða innistæða er fyrir þessari stefnu hjá íslenskum almenningi á sama tíma og Bush og Blair sökkva dýpa og dýpra í fenið í Írak


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim