Hjörleifur Guttormsson 21. maí 2004

Stækkun ESB og áróðurinn fyrir aðild

Í byrjun maí 2004 gerðist sögulegur atburður með fjölgun aðildarríkja Evrópusambandsins um heilan tug, úr 15 í 25. Mikil hátíðarhöld settu svip á fréttir á þessum tímamótum en minna hefur borið á hlutlægri umræðu um áhrif þessarar útfærslu á ESB sjálft og alþjóðamál. Ríkisútvarpið talaði af þessu tilefni við tvo talsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu, Eirík Bergmann og Úlfar Hauksson, sem voru í hátíðarskapi. Morgunblaðið skrifaði leiðara undir fyrirsögninni “Evrópa sameinuð á ný”. Að mati þeirra sem þannig tala endar Evrópa við landamæri Rússlands en fari svo að Tyrkland verði tekið í klúbbinn verður Írak á landamærum ESB í suðaustri

Þunglamalegra stjórnkerfi

Stækkun ESB mun hafa margvísleg og líklega djúpstæð áhrif á framtíð sambandsins. Þessi mikla fjölgun aðildarríkja hefur í för með sér meiri áhrif nýju meðlimanna en svarar til fólksfjölda landanna, sem flest eru smáríki, Pólland þeirra langfjölmennast með 38 miljónir íbúa. Helstu stofanir Evrópusambandsins eru ráðherraráðið, framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið og Evrópudómstóllinn. Hlutfallslega verður mest breyting á framkvæmdastjórninni, þar sem kommisörum fjölgar úr 20 í 30. Almennt séð blasir við að stofnanir ESB verða mun þyngri í vöfum og þótti þó mörgum nóg um áður en til stækkunar kom. Líkur eru vaxandi á að stærstu ríkin sem fyrir eru grípi til sinna ráða með auknu óformlegu samráði og ákvörðunum á kostnað fámennari ríkja og að hrossakaup færist í vöxt. Afleiðing þunglamalegs stjórnkerfis verður jafnframt að þrýst verður á að draga úr áhrifum þjóðríkja og stofnana þeirra og hraða samruna í átt til ríkisheildar. Það mun hins vegar mæta andstöðu úr gagnstæðri átt og stækkunin gæti þannig leitt til vaxandi spennu og dregið úr áhrifamætti ESB inn á við og út á við.

Hægri kröftum vex fiskur um hrygg

Pólitíska staðan í nýju aðildarríkjunum sem áður tilheyrðu Sovétblokkinni einkennist af nýfrjálshyggju og skiptir þá litlu hvort við völd eru flokkar sem kenna sig við hægri stefnu eða sósíaldemókratisma. Víst er að óttinn við áhrif Rússa og meintir öryggishagsmunir hafa ráðið miklu um afstöðu almennings í nýju aðildarríkjunum.
Margir úr gömlu valdaflokkunum frá því fyrir 1990 keppast nú við að lofsyngja markaðslausnir. Flokkar græningja sem litið hafa dagsins ljós í mörgum þessara landa munu eiga erfitt með að komast yfir þröskulda, m. a. til að ná kjöri á Evrópuþingið. Verkalýðshreyfing er afar máttlítil í þessum ríkjum og þannig fátt um mótvægi við óheftar markaðslausnir. Það vakti athygli þegar forystumenn í flestum þessara nýju ríkja komu Bush og Írakstefnu hans til hjálpar í fyrra með sérstakri stuðningsyfirlýsingu þvert á afstöðu Frakka og Þjóðverja til árásarinnar á Írak. Þannig má búast við að stækkunin geri ESB erfiðara fyrir að fóta sig í umdeildum alþjóðamálum og leiði einnig til vaxandi spennu innan NATÓ þar sem flest sömu ríki hafa fengið inngöngu. Möguleikar Svía og fleiri Norðurlanda sem eru aðilar að ESB til að verja félagsleg kerfi sín og sporna við nýfrjálshyggjunni innan stofnana sambandsins geta versnað til muna í kjölfar stækkunarinnar.

Umhverfisvernd undir högg að sækja

Enn aukin sókn frjálshyggju og markaðslausna innan ESB leiðir óhjákvæmilega af sér lakari stöðu umhverfisverndar í sambandinu. Nýju aðildarríkin munu undantekningalítið leggjast gegn íþyngjandi ákvæðum fyrir atvinnurekstur og opinbera sjóði í þágu umhverfismála og líklegt er að hið sama verði uppi á teningnum varðandi félagsmál og öryggisnet á því sviði. Forystuöfl í nýju aðildarríkjunum horfa ekki síst til möguleika á að laða til sín fjármagn vestan að í krafti lágra launa og lítilla krafna til útgjalda í þágu umhverfisverndar. Þetta er síðan líklegt til að smita út frá sér í ESB í heild bæði beint og óbeint. Það sama mun einnig verða uppi á teningnum í alþjóðastofnunum þar sem Evrópusambandið hefur sumpart haft jákvæð áhrif í samanburði við Bandaríkin, svo sem í Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO, Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Vaxandi bil ríkra og fátækra

Afleiðing harðnandi markaðsstefnu og samþjöppun fjármagns á færri hendur innan ESB leiðir óhjákvæmilega af sér að bilið mun fara vaxandi milli ríkra og snauðra. Möguleikar þeirra þjóðfélagshópa sem eiga í vök að verjast rýrna til muna þegar við yfirþjóðlegar stofnanir og fjarlægt vald er að eiga og stofnanir í þjóðríkjunum munu eiga erfiðara með að bregðast við félagslegri spennu og átökum. Mikið atvinnuleysi hefur verið viðloðandi í flestum ESB-ríkjum til þessa og nú bætast í hópinn lönd með langtum hærra hlutfall atvinnuleysingja. Tálvon margra í þessum ríkjum um að geta leitað atvinnu í Vestur-Evópu er nú formlega fyrir bí næstu sjö árin þar sem flest gömlu ESB-ríkjanna hafa líkt og EES-löndin Ísland og Noregur sett hömlur á aðgengi erlends vinnuafls næstu sjö ár. Fyrir jafnrétti kynja og stöðu kvenna munu harðar markaðslausnir Evrópusambandsins boða slæm tíðindi og var ekki á bætandi. Samningar nýju ESB-ríkanna um aðild þýddu að skrifað var upp á reglur sem veikja enn frekar stöðu þeirra lakast settu frá því sem áður var og ríkisútgjöldum eru skýr takmörk sett. Í Póllandi einu saman lifa 10% þjóðarinnar undir skilgreindum fátæktarmörkum og í Eystrasaltsríkjum eins og Lettlandi er staðan enn verri.

Ísland og áróðurinn fyrir ESB-aðild

Sú mynd sem dregin hefur verið upp af Evrópusambandinu hérlendis í tengslum við útfærslu þess er einhliða og langt frá veruleikanum. Öðrum þræði er hún lituð af viðhorfum aftan úr kaldastríðinu þar sem mælikvarðarnir voru svart og hvítt. Af hálfu Samfylkingarinnar, samtaka iðnrekenda og annarra þeirra sem keppa að aðild Íslands að Evrópusambandinu er forðast að ræða hlutlægt um hvað í henni felst. Fræðsla um innviði þessarar 400 miljón manna samsteypu, stofnanir hennar og grundvallarreglur er í lágmarki. Andstæðingar aðildar hafa heldur ekki haldið uppi sem skyldi umræðu um ESB né skýrt ástæðurnar fyrir afstöðu sinni. Stofnun Heimssýnar á vegum andstæðinga aðildar var vissulega jákvætt skref en kemur ekki í veg fyrir að stjórnmálaflokkar sem andstæðir eru aðild ræði málin og skýri afstöðu sína fyrir alþjóð. Þótt meginmarkmið andstæðinga aðildar sé hið sama eru ástæðurnar að baki oft af ólíkum toga, eins og fara má nærri um þegar í hlut eiga forysta Sjálfsstæðisflokksins annars vegar og Vinstri grænir hins vegar. Afstaða forystu Framsóknarflokksins er svo kafli út af fyrir sig en fáir fara í grafgötur um hvert stefnt er þar á bæ.

Ítrekað skal hér í lokin að Íslendingar eiga að kappkosta góð samskipti við Evrópusambandið á sem flestum sviðum. Afstaðan til aðildar Íslands að ESB þarf hins vegar að mótast af víðtæku og heildstæðu mati jafnt á sambandinu sjálfu sem og íslenskum hagsmunum til langs tíma litið.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim