Hjörleifur Guttormsson 24. september 2004

Staksteinar og stóriðja á Austurlandi

Höfundur Staksteina Morgunblaðsins leggur laugardaginn 18. september sl. út af ágætri grein Ásdísar Thoroddsen kvikmyndagerðarmanns um stóriðjumál sem birtist í blaðinu daginn áður undir fyrirsögninni “Spyrjið okkur”. Þar bendir hún á að stjórnvöld vinni að því að gera stóriðju að “rétthugsun” sem útiloki sjálfkrafa önnur sjónarmið og segir jafnframt að landslýður hafi aldrei verið spurður að því hvort stóriðja sé það sem hann vill. Þessu andmælir höfundur Staksteina og telur “ ... að sjaldan hafi afstaða fólks verið jafn skýr og í þessu umdeilda máli.” Til áréttingar er í Staksteinum vísað til þrýstings af hálfu forsvarsmanna Austfirðinga á stóriðjuframkvæmdirnar og að þær hafi verið eitt helsta mál alþingiskosninganna 2003. Hafa ber í huga að í Morgunblaðinu hefur nýlega verið áréttað að í Staksteinum komi fram viðhorf ritstjórnar blaðsins.

Ákvörðun innsigluð fyrir kosningar

Við greinarstúf þennan er margt að athuga. Stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi voru undirbúnar og ákveðnar af hálfu stjórnvalda, þar á meðal af Alþingi, á kjörtímabilinu 1999-2003 og aldrei um þær kosið á meðan á þeirri málafylgju stóð. Framkvæmdir voru hafnar við Kárahnjúkavirkjun fyrir kosningar til þess sérstaklega að undirstrika að ekki yrði aftur snúið. Síðan snerist kosningabarátta af hálfu ríkisstjórnarflokkanna öðru fremur um hátíðleg loforð um skattalækkanir á í hönd farandi kjörtímabili. – Það kemur á óvart að Morgunblaðið sem um árabil hefur hvatt til beinna kosninga um einstök stórmál til að breikka grunn lýðræðis í landinu skuli nú skjóta skildi fyrir þau afleitu vinnubrögð sem beitt var í þessu stórmáli.

Meirihluti hlynntur þjóðaratkvæði

Á Alþingi var háður ójafn leikur þar sem aðeins þingflokkur Vinstri-grænna stóð heill og óskiptur gegn stóriðjuframkvæmdunum. Af hálfu þingflokksins var flutt tillaga um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið en hvorki þingmeirihluti né forseti lýðveldisins hlustuðu á það ákall. Í Gallup-könnun var snemma árs 2003 spurt um afstöðu fólks til að vísa mikilvægustu málum í þjóðaratkvæðagreiðslu og lýstu um 80% svarenda sig því fylgjandi en aðeins 15% andvíg. Í sömu könnun sögðust 64% svarenda sig vera hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun en 30% andvíg. Á þann vilja sem þetta endurspeglaði var því miður ekki hlustað af meirihluta þingsins.

Ekki leitað svara frá almenningi

Ekkert er hægt að staðhæfa með vissu um raunverulega afstöðu þjóðarinnar til umræddra framkvæmda, ekki heldur um afstöðu Austfirðinga á heildina litið. Slíkt uppgjör fór aldrei fram. Ekki dreg ég í efa að framkvæmdirnar nutu mikils stuðnings miðsvæðis á Austurlandi, einkum á Héraði og í Fjarðabyggð, en einnig þar var hörð andstaða gegn þeim. Álengdar stóðu síðan margir enda ekki árennilegt fyrir fólk á þessu svæði að viðra efasemdir í andrúmslofti hótana og múgæsingar sem hér ríkti og svífur enn yfir vötnum. Austurland er hins vegar stærra en nefnd byggðarlög og augljóst að stuðningur við stóriðjuna fór ört minnkandi meðal almennings lengra frá vettvangi, m. a. á Suðurfjörðum og í Hornafirði. Staksteinahöfundur segir að andstöðu við stóriðjuframkvæmdirnar hafi verið líkt við pólitískt sjálfsmorð í Norðausturkjördæmi fyrir kosningar. Það reyndist þó ekki nær sanni en svo að Vinstrihreyfingin grænt framboð fékk þar kjörna tvo þingmenn og ófá atkvæði, einnig miðsvæðis hér austanlands.

Himinhrópandi bolabrögð

Bolabrögðin sem beitt var af hálfu stjórnvalda og framkvæmdaaðila til að knýja fram úrslit í þessu umdeilda stórmáli fyrir kosningar eru kafli út af fyrir sig. Á þessi vinnubrögð er m. a. varpað ljósi í málshöfðun sem undirritaður stendur að varðandi álverið á Reyðarfirði og brátt kemur til kasta Héraðsdóms Reykjavíkur.

Vegna óbreyttrar stefnu ríkisstjórnarinnar eru stóriðjumálin brennandi nú sem fyrr og því fyllsta ástæða til að ræða málsmeðferð í aðdraganda framkvæmdanna hér eystra og reyna að læra af þeim miklu mistökum sem gerð hafa verið og sem minna nú á sig dag hvern.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim