Hjörleifur Guttormsson 24. nóvember 2004

Loftslagsmálin og stefna ríkisstjórnar Íslands

Ísland er komið í sérflokk meðal Norðurlanda og flestra Evrópuríkja sem dragbítur í umhverfismálum. Stóriðjustefnan er orðin að trúarbrögðum á stjórnarheimilinu, vaxtarbroddurinn í atvinnumálum sem allt annað á að víkja fyrir. Ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun og risaálver á Reyðarfirði er minnisvarði síðasta kjörtímabils en áhrif þeirra ákvarðana eru ekki komin fram nema að litlu leyti. Yfirstandandi kjörtímabil er ekki hálfnað en þó ljóst að þeir sem hér ráða ferðinni ætla að þramma áfram sömu stóriðjubrautina án nokkurrar tillitssemi við náttúru landsins og í trássi við alþjóðasáttmála. Ríkisstjórnin, nú undir forystu Framsóknarflokksins, er í aðalhlutverki við að draga hingað fjölþjóðafyrirtæki í áliðnaði og ýta undir sveitarfélög um allt land að kyrja stóriðjusönginn. Umhverfisráðherrar sömu stjórnar hafa kosið sér hlutskipti gólftuskunnar og virðast glaðar ganga í skítverkin.

Loftslagsbreytingar og “íslenska ákvæðið”

Kyótóbókunin frá 1997 gerði ráð fyrir að Ísland mætti bæta við 10% í losun gróðurhúsalofttegunda umfram heildarlosun á viðmiðunarárinu 1990. Önnur iðnríki tóku hinsvegar á sig niðurskurð sem nema skal að meðaltali um 5%. Þetta nægði ekki íslenskum stjórnvöldum. Í stað þess að láta sitja við 10% aukningu þegar aðrar þjóðir skæru niður í losun var að frumkvæði Íslands laumað inn athugasemd um að skoða skyldi sérstaklega stöðu lítilla hagkerfa. Leiddi það að lokum til “íslenska ákvæðisins” sem var skraddarasaumað fyrir stóriðjustefnuna. Samkvæmt því fékk Ísland sérstaka heimild til að auka mengun frá stóriðju hérlendis sem nemur allt að 1,6 miljón tonnum koltvísýrings á ársgrundvelli fram til 2012. Það er um helmingur árlegrar heildarlosunar hérlendis og kemur til viðbótar við 10% heimildina. Ekkert iðnríki fékk viðlíka afgreiðslu samkvæmt Kyótóbókuninni. Öllum kröftum íslensku utanríkisþjórnustunnar var beitt til að knýja fram þessa samþykkt og dagljóst að íslensk stjórnvöld myndu ella skerast úr leik í loftslagsmálum líkt og Bandaríkin nú hafa gert. Kjölfestan í stuðningi við “íslenska ákvæðið” á mótunarstigi kom raunar frá Bandaríkjunum en einnig frá Noregi, enda Norsk Hydro á þeim tíma að leita samninga um risaálver á Reyðarfirði. Í krafti þessa ákvæðis dunar nú stóriðjudansinn hérlendis jafnhliða því sem erlend auðfélög fá hér óskeypis mengunarheimildir út á nafn Íslands.

Hömlulaus ósvífni og tvískinnungur

Framganga íslenskra ráðamanna í loftslagsmálum með forsætisráðherra í fararbroddi er fordæmalaus hvað varðar tvískinnung og ósvífni. Ekki á að láta við það sitja að auka hér mengun um 50% í skjóli tímabundinna sérákvæða heldur boðar nú forsætisráðherra endurnýjaða umsókn um viðbót og framhald á undanþágum eftir 2012 í þeim samningaviðræðum sem nú eru að hefjast. Þær viðræður munu almennt snúast um stór skref iðnríkja í niðurskurði á mengun lofthjúpsins og þátttöku þróunarríkja í skuldbindandi takmörkunum. Inn í þá viðleitni alþjóðasamfélagsins er nú boðað að komi rödd Íslands sem heimti aukningu mengunarheimilda ofan á þau sérkjör sem fyrir eru. Þetta gerist á sama tíma og íslensk stjórnvöld með forystu í Norðurskautsráðinu leggja fram skýrslu á þeim vettvangi þar sem dregin er upp dökk mynd af ástandinu og heitið á aðildarríkin að bregðast við með aðgerðum til að draga úr mengun! Staðan hvað Ísland varðar er nú þannig að þegar búið er að fullnýta mengunarheimildir samkvæmt “íslenska ákvæðinu” verðum við komin í hóp ríkja með langmestu losun gróðurhúsalofttegunda á mann í heiminum, fast upp að hliðinni á Ástralíu og Kanada og skammt í að við náum Bandaríkjunum á þessu sviði. En íslenski forsætisráðherrann vil gera enn betur og boðar nú herta sókn eftir mengunarheimildum.

Týnd er æra töpuð sál ... ?

Ísland hefur lengi stært sig af því að vera land hins óspillta, með hreint land og óspjallað af fylgifiskum iðnvæðingar. Ferðaþjónustan sem atvinnuvegur gerir út á þessa ímynd hreinleika, tært loft og óspillt víðerni. Því mun ýmsum hafa brugðið þegar yfirvöld lýstu fyrir skemmstu yfir hættuástandi á höfuðborgarsvæðinu vegna loftmengunar. Viðkvæmum einstaklingum og lasburða var sagt að halda sig innan dyra þann daginn. Útlendir blaðamenn sem hingað leggja leið sína, boðnir eða óboðnir, eru líka farnir að átta sig á að eitthvað stangist á í orðum og athöfnum Íslendinga. Blaðamaður franska stórblaðsins Le Monde sagði á dögunum eftir Íslandsferð í viðtali við franska ríkisútvarpið: “Og allt þetta sýnir að Íslendingar, sem ávallt leggja áherslu á að kynna og sýna náttúruna, eru svo bara tilbúnir til að selja hana á gjafverði.” Það kemur í ljós á næstu misserum, hvort þessi einkunn á við um meirihluta þjóðarinnar.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim