Hjörleifur Guttormsson 28. febrúar 2004

Orkumál, verðlagning og tilskipun ESB
Upprifjun á afstöðu fyrir fimm árum

Undanfarið hafa risið hér umræður um afleiðingar af breytingum á raforkulögum sem rekja má til tilskipunar Evrópusambandsins um aðgreiningu á raforkuframleiðslu og flutningi raforku sem lið í markaðsvæðingu orkubúskaparins. Þykir nú sýnt að breytingin leiði til umtalsverðrar hækkunar á raforkuverði. Afstaða til þessa mála var tekin fyrir um fjórum árum á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES) þar sem íslensk stjórnvöld féllust á tilskipunina. Það getur verið fróðlegt fyrir menn að kynna sér orðaskipti mín og þáverandi iðnaðarráðherra Finns Ingólfssonar á Alþingi 26. febrúar 1999 um þetta efni. Þau fóru fram í stuttum svörum og andsvörum þegar rætt var lítið stjórnarfrumvarp um breytingu á orkulögum (61. grein).
Þennan síðasta vetur minn á Alþingi var ég í þingflokki óháðra sem starfaði þennan vetur í aðdraganda að stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Úr umræðum á Alþingi 26. febrúar 1999

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég býst við að hæstv. ráðherra sem fagnaði því að samstaða væri okkar á milli um málið [þ.e. tillöguna á dagskrá um breytingu á orkulögum] viti að ég er ekki að búa til ágreining að jafnaði í málum heldur fer það eftir efni máls. Vissulega er það rétt að okkur hæstv. ráðherra hefur greint á um og greinir á um mjög veigamikla hluti í sambandi við orkumálin. Það er líka gott þegar leiðir liggja saman.
Ég vildi aðeins bæta því við vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið og vegna þess sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um breytingar í orkumálum okkar varðandi samkeppni sem tengist reglugerð eða tilskipun Evrópusambandsins frá 1996 --- hún hefur verið til athugunar síðan en ekki hefur enn þá verið fallist á hana innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í hinni sameiginlegu nefnd --- að þar er um mjög stórt mál að ræða. Till. til þál. sem hæstv. ráðherra lagði fyrir þingið á síðasta vetri tengdist málinu. Hún var ekki afgreidd. Þetta er í raun mjög gott dæmi um það hversu langsótt það er á vissum sviðum að ætla okkur að þurfa að kópíera tilskipanir frá Evrópusambandinu sem er með sinn stóra og samtengda markað en við hér langt úti í hafi með einangrað kerfi og lítinn markað miðað við það sem við berum þetta saman við. Ég er ánægður með að menn hafa farið sér hægt í sambandi við þessa tilskipun. Við í þingflokki óháðra höfum lagt til að við frestum því einfaldlega að innleiða hana. Ég veit ekki hvað kemur að lokum út úr hinni sameiginlegu nefnd, EES-nefnd, sem svo er kölluð. En ég held að menn þurfi að gæta sín mjög á því að fara ekki út í ófæru að þessu leyti. Ég er opinn fyrir því að skoða möguleika okkar til þess að bæta orkubúskap okkar út frá þjóðhagslegum forsendum en við eigum að varast það að kópíera fyrirmæli sem eru vaxin upp úr allt öðru samhengi.

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að við eigum að varast það að kópíera það sem manni virðist falla vel að aðstæðum annars staðar beint yfir til okkar enda hafa verið skýrir fyrirvarar alla tíð af hálfu stjórnvalda á Íslandi gagnvart þessari tilskipun um innri markað á sviði raforku.

Hún tók gildi núna 19. febrúar 1999 en ekki á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, það er hárrétt. Hún hefur ekki enn þá verið tekin til umfjöllunar í sameiginlegu nefndinni. Við settum strax skýra fyrirvara um að við mundum, ef hún tæki til alls svæðisins, a.m.k. ekki taka hana upp fyrr en 19. febrúar 2001 þegar síðasta Evrópusambandsríkið, Grikkland, hyggst taka hana upp hjá sér. Við erum enn þá með þessa skýru fyrirvara um litla hagkerfið, einangraða orkukerfið og þar fram eftir götunum.

Ég held hins vegar að nokkrir þættir í þessari tilskipun geti fallið ágætlega að okkar aðstæðum. Ég held að skynsamlegt sé fyrir okkur að greina skýrt á milli í vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku þannig að það sé skýrt hvernig kostnaður á einstaka þætti fellur. Það gefst okkur tækifæri til að gera. En um leið og við gerum þetta eigum við á okkar eigin forsendum að setja upp okkar eigið fyrirkomulag og út á það gengur sú vinna sem nú er í gangi í iðnrn. Ég ætlaði mér að geta lagt fyrir þingið frv. til nýrra raforkulaga. Það mun því miður ekki takast. Ég ætlaði í næstu viku að kynna það fyrir hagsmunaaðilum. Það dregst um eina viku en áður en til kasta þingsins kemur --- nú kann að fara að svo verði alls ekki --- en meðan ég er í iðnrn. þá hef ég hugsað mér að nota vorið til að kynna það fyrir hagsmunaaðilum, sveitarfélögum, fyrirtækjum sem starfa á þessu sviði og hinu pólitíska baklandi þingsins um það hvað þar er á ferðinni.

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að sjálfsagt er að líta á þessa möguleika sem varða þessa megindrætti um að aðskilja í rauninni framleiðsluna frá flutningnum. Margt er í því samhengi sem auðvitað þarf athugunar við, þ.e. hvernig því verði skynsamlega fyrir komið. Það sem mestu varðar í mínum huga er að það loki ekki á eða geri ekki erfiðara fyrir en ella að jafna raforkuverðið á innanlandsmarkaðnum hjá notendum þar sem við þurfum að sækja á en ekki að tapa stöðunni. Það er grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga.

Ég held að það sé líka spennandi að skoða hvernig ætti að taka umhverfissjónarmið inn í breytt fyrirkomulag og spurninguna í sambandi við framleiðsluna um að taka inn nýja þætti sem grunnþætti m.a. við mat á verðlagningu. Það er náttúrlega ekkert ráðrúm til þess að reifa það frekar hér. Við höfum kannski ekki sömu aðstæður og aðrir sem framleiða raforku með jarðefnaeldsneyti eða á slíkan hátt að taka upp græna skatta með beinum hætti í sambandi við raforkuframleiðsluna, og þó. Það sem þarf að gerast hér er að við förum að meta til verðs það sem fer til spillis við beislun okkar eigin orkulinda og taka það skýrt með inn í kostnaðinn. Það er eitt af því sem tengist umhverfissviðinu og þessum nýju viðhorfum.

[Tilvitnanir samkvæmt Alþingistíðindum]


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim