Hjörleifur Guttormsson 28. október 2004

Kosningar sem litlu munu breyta

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2. nóvember næstkomandi upptaka fréttatíma og stjórmálaumræðu á Vesturlöndum í öfugu hlutfalli við þýðingu þeirra fyrir stefnu Bandaríkjanna, að minnsta kosti í alþjóðamálum. Grundvallarmunur er lítill sem enginn á flokkunum að baki frambjóðendanna Bush og Kerrys sem báðir eru langt til hægri á mælikvarða evrópskra stjórnmála. Þriðji frambjóðandinn, Nader, hefur allt aðra sýn til mála en stendur utan valdakjarnanna í bandarískum stjórnmálum og hefur lítil sem engin færi á að kynna sín sjónarmið fyrir kjósendum. Hið óbeina kosningakerfi gegnum kjörmenn veldur því að frambjóðandi sem hlýtur meirihluta atkvæða er ekki öruggur með að ná kjöri eins og gerðist þegar Al Gore varð af forsetaembættinu árið 2000 þrátt fyrir fleiri atkvæði en Bush. Óvíst er að úrslitin verði ljós strax eftir kjördag, allt eins víst að vikur og mánuðir líði áður niðurstaða liggi fyrir og verði fyrst útkljáð fyrir dómstólum.

Sama afstaða til Palestínu og Írak

Þótt kosningabaráttan sé hávaðasöm og fjárausturinn gengdarlaus ber flestum utanaðkomandi stjórnmálaskýrendum saman um að Kerry á forsetastóli muni litlu breyta varðandi utanríkistefnu Bandaríkjanna. Afstaða frambjóðandans Kerrys til Ísraels og Palestínu er í engu frábrugðin stefnu Bush stjórnarinnar. Þetta mál er í raun prófsteinn á hvort Kerry sem forseti myndi einhverju breyta í stefnu Bandaríkjanna gagnvart Arabaheiminum. Sem þingmaður studdi Kerry hið ólögmæta árásarstríð gegn Írak og lýsir því nú yfir í kosningabaráttunni að hann stefni þar að sigri á sömu forsendum og Bush. Einnig frambjóðandinn Kerry er andsnúinn því að Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn fái lögsögu yfir Bandaríkjamönnum á sama tíma og þarlend yfirvöld fara með meinta hryðjuverkamenn verr en hunda.

Íran hugsanlega næsta skotmarkið

Engum dylst að Bandaríkin eru að búa sig undir að beita Íran hörðu vegna stefnu stjórnarinnar í Teheran í kjarnorkumálum. Sú afstaða stjórnvalda vestra tengist líkunum á að Ísraelsstjórn kunni fyrr en varir að gera árásir á kjarnorkuver Írana vegna öryggishagsmuna sinna. Hvor keppinautanna sem fer með völd í Hvíta húsinu næstu fjögur ár mun gera þá kröfu til Evrópuríkja að þau leggist á sveifina gegn Íran. Hætt er við að hugmyndir manna um að Kerry á fosetastóli muni draga í land þegar kemur að fyrirbyggjandi árásum á önnur ríki reynist tálsýn. Talsmaður þýskra sósíaldemókrata í utanríkismálum, Karsten Voigt, segir við Der Spiegel nýkominn frá Bandaríkjunum nú viku fyrir kosningarnar, að þótt Bush og Kerry komi ólíkt fyrir í ræðustól sé munurinn á þeim ekki mikill þegar litið er á einstök stefnuatriði.

Ekki minnst á loftslagsbreytingar

Umhverfismál eru gleymd og grafin í kosningabaráttunni vestra nema hjá utangarðsmanninum Nader. Bandaríkin hafa sætt harðri gagnrýni á alþjóðvettvangi vegna afstöðu sinnar til Kyótóbókunarinnar. Ríkið sem leggur til þriðjung af mengun lofthjúpsins með gróðurhúsalofttegundum neitar að taka þátt í að draga úr mestu umhverfisógn okkar tíma. Demókratar og frambjóðandinn Kerry eyða ekki frekar en Bush orði að þessari ógn sem Bandaríkin eiga drýgstan hlut að, - ekki síður en því víti sem heimurinn er að breytast í vegna hermdarverka og örvæntingar fólks meðal fátækra og undirokaðra þjóða


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim