Hjörleifur Guttormsson 24. september 2004

Gróðurhúsaáhrif og aðgerðaleysið hérlendis

Í um þriðjung aldar hefur það blasað við að vaxandi mengun lofthjúpsins með gróðurhúsalofttegundum komi til með að ógna vistkerfum og mannlífi á gjörvallri jörðinni. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þessari vá birtust á Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992 þar sem rammasamningurinn um loftslagsbreytingar var lagður fram til undirritunar. Með honum var vandamálið viðurkennt og ríki heims hvött til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Ísland staðfesti samninginn árið 1994. Kyótóbókunin við þennan samning var gerð árið 1997 og fól í sér skuldbindandi markmið um að draga úr losun iðnríkja á þessum lofttegundum fram til áranna 2008-2012. Örfá ríki fengu heimild til aukningar, Ísland þeirra mest eða um 10%. Það nægði hins vegar ekki íslenskum ráðamönnum sem á næstu árum lögðu allt undir til að fá stóriðju hérlendis undanþegna frá þessari viðmiðun og höfðu sitt fram með “íslenska ákvæðinu” svonefnda árið 2002. Enn hefur Kyótóbókunin ekki komið til framkvæmda, fyrst og fremst vegna andstöðu Bandaríkjanna, en staðfesting af hálfu Rússlands myndi þó duga til og er ef til vill skammt undan.

Kyótóbókunin aðeins upphaf

Kyótóbókunin er aðeins byrjunin á langtum stórfelldari niðurskurði sem koma verður til framkvæmda á næstu áratugum eigi ekki illa að fara. Stöðugt hækkandi meðalhiti á jörðinni undanfarin ár og vaxandi sviptingar í veðurfari eru loks farin að setja mark sitt á stjórnmálaumræðu víða um lönd. Á þingi Frjálslynda flokksins (Liberal democrats) í Bretlandi nýlega töluðu menn um loftslagsbreytingar sem stærstu ógnina sem steðji að mannkyni, hryðjuverk ekki undanskilin. Tony Blair sem sýnt hefur skilning í orði en ekki tekist að standa við fyrirheitin um niðurskurð boðar nú hertar aðgerðir. Kínverjar hafa nýverið birt skýrslu um áhrif hlýnunar á jökla í háfjöllum Kína og Tíbet, sem horfið gætu með öllu fyrir lok þessarar aldar. Íslenskir ráðamenn sofa hins vegar værum svefni í skjóli “íslenska ákvæðisins” og nota það til að veita erlendum álrisum ókeypis aðgang að landinu til að menga og spilla náttúru þess.

Ráðherrar í hlutverki Bakkabræðra

Lítið sem ekkert er í reynd gert af stjórnvöldum hérlendis til þess að koma böndum á gífurlega losun gróðurhúsalofttegunda, sem þrátt fyrir vatnsafl og jarðvarma er síst minni á mann á Íslandi en meðaltalið innan Evrópusambandsins. Eftir undirritun loftslagssamningsins hafa íslenskir ráðamenn hagað sér eins og Bakkabræður, lagt af sjóflutninga með ströndum fram en fært þungaflutninga yfir á vegakerfið. Í fiskveiðum og landbúnaði er lítil viðleitni uppi til orkusparnaðar og fræðsla um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra er í molum af opinberri hálfu. Allt snýst hér um gullkálfinn, að ýta undir neyslukapphlaupið, lifa af daginn og kjörtímabilið og eftirláta næstu kynslóð að glíma við afleiðingarnar. Brátt hefjast hins vegar á alþjóðvettvangi samningaviðræður um næsta skuldbindandi skref til að draga úr mengun lofthjúpsins. Þá er ósennilegt að Íslendingar plati alþjóðasamfélagið öðru sinni út á fámenni og smæð. Væri úr vegi að fara að svipast um eftir ríkisstjórn og ráðherrum sem hafa hugmynd um hvað felst í hugtakinu sjálfbær þróun?


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim