Hjörleifur Guttormsson 1. júlí 2005

Kárahnjúkavirkjun – stærstu mistök síðari tíma?

Greinin birtist áður í Kímblaðinu, 12. árg. 2005

 

Þrjú ár eru liðin frá því að lög voru sett sem heimila byggingu Kárahnjúkavirkjunar og framkvæmdir hafa nú staðið yfir í tvö ár. Framkvæmdir við álver Alcoa á Reyðarfirði hófust sl. haust og Landsvirkjun hefur skuldbundið sig til að sjá fyrirtækinu fyrir orku vorið 2007. Eigi að standa við það þarf að byrja að safna vatni í Hálslón veturinn 2006-2007. Næstu tvö ár munu einkennast af gífurlegu álagi á íslenskt efnahagskerfi og vinnumarkað af völdum þessara samþættu stóriðjuframkæmda. Í þessu greinarkorni verður stiklað á nokkrum atriðum sem varða fortíð og hugsanleg framtíðaráhrif þessa umdeildasta máls síðustu áratuga hérlendis sem minnir nú á sig dag hvern.

 

Rannsóknir og verndaraðgerðir

Sá sem þetta skrifar hefur frá því 1972 haft allnáin kynni af  því svæði sem Kárahnjúkavirkjun tekur til. Þá um haustið kom ég fyrst að Hafrahvammagljúfri og í Grágæsadal og Kverkfjöll. Þessi einstæða náttúrusmíð var þá enn fáum kunn utan heimafólki eins og fleiri svæði norðan Vatnajökuls sem nú eru á allra vörum. Nokkrum árum seinna hafði ég umsjón með náttúrufarskönnun á svæði Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal.[1] Myndir sem birtast með greininni eru teknar á árunum 1977-1980. Til könnunarinnar var stofnað að tilhlutan samstarfsnefndar Náttúruverndarráðs og iðnaðarráðuneytisins (SINO) sem komið var á fót árið 1972 að frumkvæði Náttúruverndarráðs og var hún einskonar forleikur að mati á umhverfisáhrifum sem lög voru fyrst sett um tveimur áratugum síðar.

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) sem stofnuð voru árið 1970 hafa látið sig miklu varða hálendið norðan Vatnajökuls og ýtt á eftir um rannsóknir og verndaraðgerðir. Tvö svæði á þessum slóðum voru friðlýst af Náttúruverndarráði á áttunda áratugnum, Hvannalindir 1973 og Kringilsárrani 1975. Á opinbera náttúruminjaskrá voru tekin 1978 Eyjabakkasvæðið, Hafrahvammagljúfur og Kverkfjöll ásamt Krepputungu en síðar Snæfell og Vesturöræfi og Fagridalur og Grágæsadalur. Öllu þessu svæði er lýst í árbók Ferðafélags Íslands 1987.[2]

Unnið er áfram að undirbúningi Vatnajökulsþjóðgarðs og vaxandi áhugi er á stofnun hans nú sex árum eftir að Alþingi féllst á tillögu mína þar að lútandi.[3] Ríkisstjórnin samþykkti 25. janúar 2005 umboð til umhverfisráðherra að vinna að því að  fella landsvæði norðan Vatnajökuls að meðtalinni Jökulsá á Fjöllum og helstu þverám  inn í þjóðgarðinn í samráði við heimamenn og hagsmunaaðila.[4]

 

 

Átök um landnotkun og stóriðju

Ferlið sem leiddi til núverandi stöðu stóriðjumála á Austurlandi hófst í ágústlok 1997 með tilkynningu Halldórs Ásgrímssonar, þá utanríkisráðherra og 1. þingmanns Austurlands, þess efnis að samningar væru vel á veg komnir milli íslenskra stjórnvalda og Norsk Hydro um byggingu allt að 400 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði.[5] Engin teljandi umræða eða kynning á þessari hugmynd hafði þá átt sér stað eystra og hún kom því eins og þruma yfir Austfirðinga sem aðra. Engin teljandi umræða eða þrýstingur á stóriðju hafði þá verið í fjórðungnum frá 1990 og ekki gert ráð fyrir neinum slíkum iðnaði í aðalskipulagi Reyðarfjarðar sem samþykkt var 1992. Margir fögnuðu þó þessari óvæntu yfirlýsingu ráðherrans en undirritaður var í hópi þeirra sem vöruðu strax við, meðal annars vegna yfirþyrmandi stærðar fyrirhugaðrar verksmiðju og þeirra stórvirkjana sem hún kallaði á. Staðarvalsnefnd um iðnrekstur sem starfaði á vegum iðnaðarráðuneytisins á áttunda áratugnum hafði komist að þeirri niðurstöðu að sökum félagslegra aðstæðna og fámennis hentaði Reyðarfjörður ekki fyrir iðnfyrirtæki eins og álver sem þyrfti á mörg hundruð manna vinnuafli að halda.[6] Í upphafi var látið í veðri vaka að upphafsáfangi yrði langtum minni verksmiðja sem sniðin væri að orku frá Jökulsá í Fljótsdal (Fljótsdalsvirkjun).[7] Þau áform stóðu hins vegar ekki lengi og tæpu ári síðar var Kárahnjúkavirkjun  kynnt til sögunnar.[8] Áframhaldandi deilur um umhverfisþætti málsins urðu hins vegar ásamt fleiru til þess að í mars 2002 kippti Norsk Hydro að sér hendinni og Alcoa kom nánast eins og hendi væri veifað í þess stað.[9] Lítið sem ekkert hefur komið fram opinberlega um hvað gerðist að tjaldabaki í þessum sviptingum en vafalaust hefur lágt raforkuverð og ókeypis losun gróðurhúsalofts ráðið miklu um áhuga Alcoa.

 

 Kárahnjúkavirkjun fær falleinkunn

Mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar var um margt sögulegt. Landsvirkjun efndi til víðtækra rannsókna á umhverfisáhrifum virkjunarinnar til að undirbyggja matsskýrslu[10] en tíminn sem til rannsóknanna var varið var að margra mati alltof stuttur. Rannsóknirnar leiddu hins vegar í ljós stórfellda náttúrfarsröskun á fjölmörgum sviðum ef í virkjunina yrði ráðist. Þetta viðurkenndi framkvæmdaraðilinn en setti hinsvegar í lok skýrslunnar fram eftirfarandi ósk:

 

,Niðurstaða Landsvirkjunar er að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir. Framkvæmdaraðili óskar því eftir því að fallist verði á framkvæmdina. (bls. 162)

 

Þessu til rökstuðnings sagði ennfremur í  skýrslunni:

 

Í hnotskurn þarf ákvörðun um hvort Kárahnjúkavirkjun sé réttlætanleg í þjóðhagslegu tilliti að byggjast á mati á því hvort samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur vegi þyngra en náttúrufarsleg umhverfisáhrif.

 

Þessum málatilbúnaði andmælti undirritaður eindregið ásamt fjölmörgum öðrum atriðum í matsskýrslunni. Benti ég á í athugasemdum til Skipulagsstofnunar 14. júní 2001[11] að þessi málsmeðferð gengi í berhögg við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, bæði markmið (1. gr.) og skilgreiningu laganna á umhverfi (3. gr. j.) og hvað felast eigi í mati á því. Með sömu nálgun væri auðsæilega hægt að réttlæta hvaða náttúruspjöll sem er með skírskotun til efnahagslegs ávinnings, Gullfoss, Geysir, Dettifoss og Þjórsárver ekki undanskilin. Skipulagsstofnun felldi 1. ágúst 2001 þann úrskurð að Kárahnjúkavirkjun ylli verulegum umhverfisáhrifum og hafnaði með því virkjuninni. Hins vegar féllst stofnunin ekki á ofangreinda túlkun mína á lögunum. Það gerði hins vegar umhverfisráðuneytið í úrskurði sínum 20. desember 2001. Þar segir ráðuneytið m.a.:

 

Með vísun til fyrirmæla 75. gr. stjórnarskrárinnar er það álit ráðuneytisins að ekki sé unnt að skýra hugtakið samfélag í j-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 [lög um mat á umhverfisáhrifum] svo rúmt að það taki til arðsemi framkvæmdar sem slíkrar. Þar af leiðandi er það atriði ekki eitt þeirra, sem líta ber til þegar umhverfisáhrif framkvæmdar eru metin ... [og einnig] ...  leikur vafi á því hvort mat á umhverfisáhrifum taki jafnframt til mats á þjóðhagslegum áhrifum. Undir það síðarnefnda fellur t.d. að meta hvaða áhrif fyrirhuguð framkvæmd muni hafa á hagvöxt, atvinnustig og efnahagslega velsæld á landsvísu. (bls. 114)

 

Þessi viðurkenning ráðuneytisins á að ég hefði túlkað lögin rétt hefði augljóslega átt að leiða enn frekar en ella til að ráðherra staðfesti niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Svo fór þó ekki. Ráðuneytið efndi strax haustið 2001 til nýs matsferlis á eigin vegum, tók við frekari gögnum frá Landsvirkjun og kórónaði sköpunarverkið 20. desember 2001 með því að snúa við niðurstöðu Skipulagsstofnunar og fallast á Kárahnjúkavirkjun með tilteknum skilyrðum, m. a. varðandi umfang virkjunarinnar, áfoksvarnir, viðbrögð við neyðarástandi, vöktun og rannsóknir. Við blasir að með þessu var af hálfu umhverfisráðherra kveðinn upp þröngur pólitískur úrskurður fjarri því að vera hlutlægur eða byggður á efnislegum rökum.

 

 

 

Staðan nú þremur árum síðar

Staðan í stóriðjuframkvæmdunum eystra hefur smám saman verið að taka á sig allt aðra og dekkri mynd en talsmenn þeirra og ábyrgðaraðilar drógu upp fyrirfram. Samið var við ítalska verktakafyrirtækið Impregilo í ársbyrjun 2003 um að byggja Kárahnjúkastíflu og bora aðrennslisgöng virkjunarinnar. Komið hefur í ljós að um undirboð var að ræða, byggt á lágmarkstöxtum og ófullnægjandi aðbúnaði starfsmanna. Viðurkennt hefur verið af talsmanni Landsvirkjunar að staðhæfingar um að með mótvægisaðgerðum verði komið í veg fyrir áfok frá Hálslóni væru óraunsæjar. Margt er á huldu um það hvernig fylgt verði eftir skilyrðum í úrskurði umhverfisráðherra, m.a. vegna vöktunar og um frekari rannsóknir til reyna að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna framkvæmdanna.

Þá liggur nú fyrir að jarðfræðilegum undirbúningsrannsóknum vegna virkjunarinnar var stórlega áfátt. Staðhæft var í matsskýrslu  Landsvirkjunar að bergið á stíflustæðunum þremur hentaði vel sem grunnur fyrir þær og að hinir ýmsu bergtæknilegu eiginleikar hefðu verið rannsakaðir.[12] Allt annað hefur komið í ljós eftir að framkvæmdirnar hófust. Misgengi eru á stíflustæðunum og jarðhiti þeim tengdur útbeiddari en áður var talið. Hér er á ótraustum grunni ráðist í kostnaðarsömustu framkvæmd Íslandssögunnar.[13] Sá hluti Austfirðinga sem lét blindast af flugeldasýningum við upphaf framkvæmda er smám saman að átta sig á að stóriðjan felur ekki í sér neina allsherjarlausn. Félagsleg áhrif  framkvæmdanna vísa nú þegar í aðra átt en fram var haldið í álitsgerðum vegna mats á umhverfisáhrifum[14], sbr. könnun frá haustinu 2004.[15]

 

Óhófleg áhætta á mörgum sviðum

Sú efnahagslega áhætta sem tekin er með Kárahnjúkavirkjun og risaálveri á Reyðarfirði er umfram skynsamleg mörk, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að allt gangi samkvæmt upphaflegum áætlunum. Náttúrufarsröskunin er þegar byrjuð að koma í ljós en mun birtast mönnum mun skýrar á næstunni. Hér er í fyrsta sinn verið að veita saman tveimur stórum jökulfljótum. Raflínur milli Fljótsdals og Reyðarfjarðar eru hluti af framkvæmdinni og munu setja mark sitt á dali og heiðar. Bæði náttúrufarsröskunin og félagsleg áhrif þessarar dýrkeyptu tilraunar koma fyrst endanlega í ljós eftir áratugi, jafnvel aldir. Á meðan vofa yfir tæknilegir brestir í mannvirkjum sem nú er verið að reisa innan eldstöðvakerfis þar sem megineldstöð í Kverkfjöllum er meðal gerenda. Í ljósi allra þessara þátt bendir margt til að svara verði játandi spurningunni sem sett er fram í fyrirsögn þessarar greinar.

           

Hjörleifur Guttormsson

 

 

 

 



[1] Náttúrufarskönnun á virkjunarsvæði Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal. Skýrsla um rannsóknir unnar á vegum Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað fyrir Orkustofnun og Rafmagnsveitur ríkisins. Hjörleifur Guttormsson (ritstjórn), Einar Þórarinsson, Kristbjörn Egilsson, Erling Ólafsson, Hákon Aðalsteinsson. OS81002/VOD02, Reykjavík 1981.

[2] Hjörleifur Guttormsson: Norð-Austurland – hálendi og eyðibyggðir. Árbók Ferðafélags Íslands 1987.

[3] Tillaga til þingsályktunar um þjóðgarða á miðhálendinu. Flutningsmaður Hjörleifur Guttormsson. 16. mál á 123. löggjafarþingi 1998.

[4] Fréttatikynning 25. janúar 2005 á vef umhverfisráðuneytis.

[5] Ræða Halldórs Ásgrímssonar á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi á Fáskrúðsfirði 29. ágúst 1997.

[6] Staðarval fyrir orkufrekan iðnað. Forval. Staðarvalsnefnd um iðnrekstur. Iðnaðarráðuneyti. Mars 1983.

[7] Hallormsstaðayfirlýsing ríkisstjórnarinnar, Norsk Hydro og Landsvirkjunar 29. júní 1999.

[8] Fallið var frá Fljótsdalsvirkjun í mars 2000, meðal annars vegna mikillar andstöðu almennings við uppistöðulón á Eyjabökkum.  Í kjölfarið var undirrituð ný yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium AS í Noregi, dótturfyrirtækis Norsk Hydro, um Noral-verkefnið 24. maí 2000 af fyrrnefndum aðilum og Hæfi, hf., og Reyðaráli, hf., þar sem umfang og tímaáætlun verkefnisins var endurskoðuð

[9] Hinn 23. mars 2002 var gefin út sameiginleg yfirlýsing aðstandenda Noral-verkefnisins um byggingu álvers á Austurlandi þar sem Norsk Hydro dró sig út úr verkefninu.  Þann 19. apríl 2002 var síðan tilkynnt að fulltrúar bandaríska álfyrirtækisins Alcoa hefðu komið til landsins og þann 23. maí 2002 tilkynnti iðnaðarráðuneytið að náðst hefði samkomulag við Alcoa um viðræður um byggingu álvers sem keypti orku frá Kárahnjúkavirkjun.  Hinn 19. júlí 2002 undirrituðu fulltrúar ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Alcoa viljayfirlýsingu um framhald viðræðna um mat og hugsanlega framkvæmd á stóriðjuverkefni vegna byggingar álvers í Reyðarfirði. 

[10] Kárahnjúkavirkjun. Allt að 750 MW. Mat á umhverfisáhrifum. Skýrsla í maí 2001.

[11] Heimasíða www.eldhorn.is/hjorleifur . Umhverfismál. Mat á umhverfisáhrifum. (drög 12. júní 2001)

[12] Kárahnjúkavirkjun. Allt að 750 MW. Mat á umhverfisáhrifum. Skýrsla í maí 2001, s. 31.

[13] Hjörleifur Guttormsson: Hversu traustar eru undirstöður Kárahnjúkastíflu og  Hálslóns? Morgunblaðið     30. desember 2004. Sjá einnig heimasíðu www.eldhorn.is/hjorleifur Af vettvangi dagsins.  - Viðtal RÚV við Jóhannes Geir Sigurgeirsson  23. febrúar 2005. - Frétt og viðtal Morgunblaðsins við Friðrik Sófusson forstjóra Landsvirkjunar 25. febrúar 2005.

[14] Kárahnjúkavirkjun. Mat á samfélagsáhrifum. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Landsvirkjun Mars 2001.  – Mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers á Reyðarfirði. Nýsir hf. Umsjón Athygli. Reyðarál hf., maí 2001.

[15] Kjartan Ólafsson: Könnun meðal fólks á Austur- og Norðausturlandi haustið 2004. Byggðarannsóknastofnun Íslands. Erindi flutt á Fáskrúðsfirði 3. febrúar 2005.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim