Hjörleifur Guttormsson 7. september 2005

Loftslagsbreytingar, náttúruvá og skammsýni

Draumur breytist í martröð

Loftslagsbreytingar af mannavöldum minna óþyrmilega á sig á fjölmörgum sviðum þessi misserin. Eitt af því er aukin tíðni og meiri kraftur fellibylja sem af vísindamönnum eru rakin til hækkandi meðalhita. Hörmungarnar sem yfir New Orleans hafa dunið ættu að verða áminning fyrir heimsbyggðina um að taka sig á og draga með róttækum hætti úr losun gróðurhúsalofts. Í því efni beinast augu heimsins að Bandaríkjunum. Stjórnin í Washington hefur til þessa neitað að horfast í augu við geigvænlegar afleiðingar loftslagsbreytinganna. Hvergi er mengunin af brennslu jarðefnaeldsneytis jafn mikil og þar í landi og ráðstafanir til að draga úr henni munu koma við kviku á bandarísku efnahagslífi og sjálfan bandaríska drauminn. Haldi Bush forseti óbreyttri stefnu gagnvart Kyótó-ferlinu og því sem taka á við af því eftir 2012 verður áfellisdómurinn hins vegar þungur.

Andvaraleysið dýrkeypt

Loftslagsbreytingarnar með allri sinni óvissu snerta skipulagsmál byggðar og annarra mannvirkja. Í því efni reynir á framsýni í ljósi bestu þekkingar og að menn vinni með náttúruöflunum en ekki þvert gegn þeim. Blind trú á tækni og getu mannsins til að bjóða náttúrunni birginn hefur víða reynst dýrkeypt. Hér á landi birtist andvaraleysið okkur á mörgum sviðum. Snjóflóð hafa gert mikinn usla og kostað tugi mannslífa á þéttbýlisstöðum. Það er fyrst á síðasta áratug sem ráðamenn hafa fengist til að taka þá náttúruvá alvarlega. Eldvirkni er annar nærtækur þáttur og þar eru margir slegnir blindu eins og komið hefur í ljós í smáu og stóru, m.a.við Kárahnjúka og í hugmyndunum um að grafa jarðgöng til Vestmannaeyja.

Óráðshjalið að byggja á haf út

Sjávarflóð hafa oft gert usla við Íslandsstrendur. Spáð er verulegri hækkun sjávarborðs á næstu áratugum sem reiknast gæti í metrum næstu 1-2 aldirnar. Aukin tíðni djúpra lægða við landið samhliða slíkri þróun kallar á framsýnar ákvarðanir í skipulagsmálum. Í þessu samhengi sæta furðu þær hugmyndir sem viðraðar hafa verið um að færa byggð í Reykjavík út á sund og eyjar í Kollafirði. Af sama toga er óráðstal um að flytja Reykjavíkurflugvöll út á Löngusker. Eðlilegt er líka að setja spurningarmerki við þá stefnu að flytja stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu á haf út þvert á firði og annes. Það er að minnsta kosti ráðlegt að reikna fyrirfram kostnaðinn af slíku miðað við hækkandi sjávarborð næstu aldir.

Það er auðvelt að auðvelt að benda í bjálkann í auga Bush Bandaríkjaforseta þessa dagana. Hyggilegt væri jafnhliða að skoða flísarnar í augum ráðamanna ríkis og sveitarfélaga á Íslandi þegar loftslagsmál og skipulagsákvarðanir eru annars vegar.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim