Hjörleifur Guttormsson 9. júlí 2005

 

 

Margt athugavert við drög Alcoa að matsáætlun

 

Undirritaður hefur tekið saman athugasemdir við drög Alcoa Fjarðaráls að matsáætlun sem er fyrsta skref í að meta umhverfisáhrif af enn stærra álveri í Reyðarfirði en áður var gert ráð fyrir. Í drögunum kemur fram að auka eigi ársframleiðslu Alcoa-verksmiðjunnar úr áður ráðgerðum 322 þúsund tonnum í 346 þúsund tonn.

 

Athugasemdirnar eru settar fram í 18 tölusettum liðum (smellið hér til að sjá þær í heild) og verður hér getið helstu áhersluatriða.:

 

  1. Form og framsetning. Áhersla er lögð á að gögn í matsferlinu (matsáætlun og matsskýrsla) verði sett fram skýrt og heildstætt. Varað er við áróðurskenndum klisjum og fullyrðingum sem víða gætir í framkomnum drögum. Andmælt er staðhæfingum um að starfsleyfi sé í gildi fyrir þeim framkvæmdum sem nú eiga sér stað í Reyðarfirði. Forsendur áður útgefins starfs- og framkvæmdaleyfis brustu með dómi Hæstaréttar 9. júní 2005.
  2. Mengunarvarnir. Bent er á að framkæmdaraðila beri að taka tillit til staðbundinna aðstæðna í Reyðarfirði við val og uppsetningu á mengunarvarnabúnaði. Vothreinsun í framhaldi af þurrhreinsun útblásturs dregur stórlega úr losun brennisteins- og einnig flúorsambanda í andrúmsloftið og varðar það bæði heilsu fólks og gróðurvernd. Vitnað er til yfirlýsinga Alcoa  frá í nóvember 2002 þess efnis að verði vothreinsun komið upp við verksmiðjuna yrði jafnframt sett upp sérstök hreinsun á PAH-efnum úr frárennsli til sjávar.
  3. Áhætta af ofanflóðum og hafís. Vísað er til áhættu og truflana sem steðjað geti að rekstri álvers í Reyðarfirði af völdum hafíss og ofanflóða. Hvorugum þessara þátta hefur verið gefinn nægur gaumur til þessa.
  4. Mengunarhætta vegna siglinga með hráefni og afurðir. Vakin er athygli á hættu á mengunarslysum vegna slíkra flutninga með svartolíuknúðum risaskipum í misjöfnu ástandi. Líta ber á slíka flutninga sem hluta af álverinu og gera verður eigendur þess ábyrga fyrir tjóni sem af slíkri mengun getur hlotist til tjóns fyrir lífríki sjávar og stranda.
  5. Samfélagsleg áhrif. Vísað er til allsendis ófullnægjandi rannsókna til þessa á samfélagslegum áhrifum risaálvers í Reyðarfirði. Úr því þarf að bæta í því umhverfismati sem nú er í undirbúningi. M. a. er rétt að gera ráð fyrir að umtalsverður hluti af vinnuafli verksmiðjunnar komi erlendis frá. Tryggja ber af hálfu verksmiðjunnar og sveitarfélaga á svæðinu viðunandi aðbúnað og skilyrði til aðlögunar fyrir það fólk, ef til kemur. Einnig er lögð áhersla á að í matsferlinu verði fjallað um aðstæður og líklega þróun á húsnæðismarkaði á áhrifasvæði verksmiðjunnar. Ætla má að hluti af nauðsynlegu starfsfólki verksmiðjunnar kjósi ekki að fjárfesta í eigin húsnæði austanlands. Margvíslegur annar vandi getur steðjað að rekstri álvers á fámennum vinnumarkaði eins og hér um ræðir.
  6. Áhrif á annað atvinnulíf og jaðarsvæði. Þegar er farið að gæta verulegra áhrifa af stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi á fyrirtæki og rekstur sem fyrir var á svæðinu. Sum þessara áhrifa hafa þegar valdið fækkun fyrirtækja og veikingu jaðarsvæða og búast má við langtum stórfelldari ruðningsáhrifum í atvinnulífi. Brýnt er að meta slík áhrif og afleiðingar þeirra áður en lengra er haldið með framkvæmdir.
  7. Náttúruspjöll kennd við sjálfbærni. Andmælt er framsetningu í drögum að matsáætlun þess efnis að álverið nýti “hreinar orkulindir”. Afla á orku til verksmiðjunnar með Kárahnjúkavirkjun sem ásamt raflínulögnum veldur mestu náttúruspjöllum Íslandssögunnar. Mikla kokhreysti þarf til að kenna slík hervirki við “sjálfbærni” eins og gert er í nýlega útgefinni skýrslu Landsvirkjunar og Alcoa (apríl 2005).

 

Frestur til að skila inn skriflegum athugasemdum við drög Alcoa að matsáætlun rennur út 11. júlí 2005.

 

Hjörleifur Guttormsson


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim