Hjörleifur Guttormsson 10. október 2005

Harðnandi vistkreppa

Stöðugt bætist í safn upplýsinga um alþjóðlegar og svæðisbundnar breytingar á umhverfinu af mannavöldum. Viðvörunarbjöllur um slæmar afleiðingar klingja hátt í eyrum þeirra sem hlusta en hinir eru langtum fleiri sem skella við skollaeyrum. Í síðarnefnda hópnum eru ríkisstjórnir og voldugar alþjóðastofnanir að ekki sé minnst á fjölþjóðafyrirtæki þar sem stundarhagnaður ræður för. Fjölgun íbúa jarðar sem nú stefnir í 50% hækkun höfðatölu fram til 2050 eykur stöðugt álag á umhverfið. Sívaxandi misskipting milli ríkra og fátækra blasir við innan þjóðríkja og milli iðnríkja og þróunarlanda. Leikreglur ríkjandi efnahagskerfis heimsins njörfa niður misskiptinguna og auka stöðugt álagið á náttúruauðlindir jarðar. Takist ekki að hægja á þessari þróun og snúa henni við á 21. öldinni blasir við hrun siðmenningar.
Hér verður minnst á nokkrar vísbendingar og aðvaranir sem fram hafa komið á þessu ári um þróun og horfur í umhverfismálum.

Þúsaldarmat á vistkerfum

Í mars 2005 undirrituðu 1300 vísindamenn frá 95 þjóðlöndum svonefnt þúsaldarmat á vistkerfum jarðar (Millennium Ecosystem Assessment), byggt á rannsóknum sem 22 vísindaakademíur áttu hlut að. Niðurstaðan er að tveir þriðju náttúrulegra vistkerfa sem úttektin tók til hafi rýrnað og látið verulega á sjá af mannavöldum. Álag á náttúruauðlindir (natural capital) sé slíkt að ekki sé hægt að ganga út frá því sem gefnu að vistkerfin nái að endurnýjast. Verst sé ástandið á svæðum með litla úrkomu. Markviss viðbrögð vanti til að draga úr þeim háska sem stafi m.a. af álagi vegna fæðuöflunar, ferskvatnsnotkunar og skógarhöggs. Um þriðjungur af yfirborði þurrlendis jarðar er nú ræktaður og ferskvatnsnotkun hefur tvöfaldast frá 1960. Allt að sexfalt meira vatn er nú geymt í uppistöðulónum en nemur samanlögðu rennsli í ám. Köfnunarefnis-og fosfórlosun í formi áburðar hefur tvöfaldast á sama tíma og leitt af sér mikinn þörungablóma í sjó og ferskvatni. Á sama tíma og íbúafjöldi jarðar tvöfaldaðist milli 1960 og 2000 sexfölduðust efnahagsumsvifin. Dreifing framandi lífvera milli svæða og heimshluta hefur víða haft mjög skaðvænleg áhrif. Grundvallarbreyting þarf að verða á umgengni við náttúruauðlindir og taka verður kostnaðinn af nýtingu þeirra með í dæmið við allar efnahagsákvarðanir segja talsmenn Þúsaldarmatsins. Sjá nánar http://www.millenniumassessment.org .


SÞ og slakur leiðtogafundur

Á 60. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og fundi leiðtoga flestra aðildarríkja 14.-15. september 2005 í tengslum við þingið var farið yfir Þúsaldarsamþykktina frá árinu 2000 og niðurstöður frá ýmsum alþjóðaráðstefnum um umhverfismál og sjálfbæra þróun. Þegar Kofi Annan fylgdi skýrslu SÞ um stöðu mála úr hlaði 21. mars 2005 lagði hann sérstaka áherslu á samþætta nálgun alþjóðasamfélagsins til lausnar, en varast beri að hvert ríki reyni að velja úr matseðlinum (à la carte) eftir eigin geðþótta. Umfjöllun þjóðarleiðtoganna varðaði m.a. loftslagsbreytingar, misskiptingu og fátækt, mannréttindi, hryðjuverkaógnir og heilbrigðismál og farsóttir svo nokkuð sé nefnt. Stór gjá blasir við milli orða og athafna þau fimm ár sem liðin eru frá aldamótum og trúverðugleiki alþjóðasamfélagsins hefur beðið hnekki. Reynt var að berja í þessa bresti með endurnýjun á fyrri yfirlýsingum og loforðum um fjárframlög og afléttingu skulda fátækustu ríkja heims. Samþykktir leiðtogafundarins í heild má lesa á veffanginu http://www.un.org/summit2005/ .

Ný skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu

Í september 2005 kynnti Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) skýrslu þar sem fram kemur að núverandi stefna Evrópuríkja nægi engan veginn til að koma í veg fyrir verulegt tjón á umhverfinu til lengri tíma litið. Sérstaklega séu horfur slæmar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og loftslagsbreytingar, ónóga innleiðslu nýrra orkugjafa, aukna mengun á sviði samganga og uppsöfnun úrgangs. Vaxandi ferðamannstraumur og vöxtur borga auki líka álag á umhverfið. Þá hefur Evrópusambandið nýverið samþykkt 6. aðgerðaáætlun sína í umhverfismálum til næstu 10 ára. Hún hefur þegar verið gagnrýnd fyrir ómarkviss stefnumið og ófullnægjandi aðgerðir og tímasetningar. Aðaláherslur eru á loftslag, heilbrigði og umhverfi, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra auðlindanýtingu. Áætlun þessi mun að líkindum falla undir EES-samninginn og þurfa þá staðfestingu íslenskra stjórnvalda. Sjá nánar á vef http://www.eea.eu.int/

Loftslagsbreytingar yfirgnæfa

Samnefnari í umhverfisumræðunni hvarvetna eru áhyggjur manna af loftslagsbreytingum af mannavöldum og það sem fylgja muni í kjölfarið. Níu af tíu síðustu árum skiluðu hæsta meðalhita á heimsvísu frá því mælingar hófust. Frávik í veðurfari með eindæma þurrkum á sumum svæðum, mikilli úrkomu á öðrum og kraftmeiri fellibyljum en lengi hafa þekkst eru af mörgum rakin til gróðurhúsaáhrifanna. Aðalmengunarvaldurinn Bandaríkin skjóta sér enn undan Kyótóbókuninni og hafa nýlega myndað þykjustubandalag um rannsóknir á loftslagsbreytingum með Ástralíu, Kína ofl. ríkjum. Jafnframt eru talsmenn kjarnorkuiðnaðar farnir að knýja á að nýju um ný kjarnorkuver. Íslendingar sem betluðu út mengunarkvóta fyrir stóriðju með “íslenska ákvæðinu” stefna í að verða í hópi þeirra þjóða sem losa mest af gróðurhúsalofti á mann þegar álverin sem nú eru í burðarliðnum verða komin í gang. Er ekki mál að linni og samfélag þjóðanna horfi til úrræða sem skila mannkyninu burt af þessu feigðarspori? Meginforsenda fyrir árangri er gjörbreytt efnahagsstefna með jöfnuði lífskjara og samdrætti í ofurneyslu og sóun náttúruauðlinda.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim