Hjörleifur Guttormsson 12. ágúst 2005

Ný bók í burðarliðnum:

Hallormsstaður í Skógum

Rit með þessu heiti er væntanlegt á markað í haust frá Eddu-útgáfu. Í því er fjallað um sögu og náttúru staðarins og um Hallormsstaðaskóg. Í ár er öld liðin frá því skógurinn var friðaður. Menn geta nú gerst áskrifendur að bókinni fyrir aðeins 4200 krónur og fengið um leið nöfn sín rituð í sérstaka heillaóskaskrá. Beiðni um áskrift má sendi í tölvupósti á Kristinn Richardsson eða í síma 522 2067 (sjá auglýsingu).

Undirritaður hefur annast ritstjórn verksins og er höfundur þess ásamt Sigurði Blöndal og ekki færri en sjö meðhöfundum. Þetta er fjölskrúðugt rit bæði að efni og búningi, skipt í átta kafla og prýða það yfir 500 ljósmyndir frá ýmsum tímum og fjöldi korta og uppdrátta sem Guðmundur Ó. Ingvarsson hefur útfært. Þótt höfundar séu margir er efnið samþætt sem ein heild. Bókin verður í allstóru broti og á fjórða hundrað blaðsíður.

Í bókinni er dregin upp heildstæð mynd af náttúru skógarins og nánasta umhverfi hans og greint frá forvitnilegum rannsóknum á svæðinu síðustu hálfa öld. Auk lýsingar á landi og náttúrufari byggðarlagsins Skóga birtist lendendum splunkunýtt jarðfræðikort og fleiri uppdrættir með skýringum eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing. Guðný Zoëga fornleifafræðingur hefur nýverið skráð fornminjar á svæðinu, og koma hér margar þeirra á óvart.

Sigurður Blöndal leiðir menn gegnum sögu skógræktar á staðnum í heila öld og segir frá nýju landnámi á berangri utan skógarins síðustu áratugi. Hann á einnig hlut að skemmtilegri frásögn um uppbyggingu skóla á staðnum ásamt Sigrúnu Hrafnsdóttur og Sif Vígþórsdóttur. Þá er og greint frá Hallormsstað sem ferðamannastað og sögulegu samkomuhaldi í Atlavík.

Að rannsóknum á forsögu Hallormsstaðar hafa öðrum fremur komið Loftur Guttormsson sagnfræðingur og Gunnar Guttormsson vélfræðingur, og eru þar báðir á heimavelli. Prestar sem þjónuðu staðnum fram undir lok 19. aldar koma við sögu, þeirra á meðal Hjálmar Guðmundsson og Sigurður Gunnarsson, landsþekktir menn á sinni tíð og sá fyrrnefndi þjóðsagnapersóna. Konur eiga einnig drjúgan hlut í sögu staðarins, þeirra á meðal mæðgurnar Elísabet Sigurðardóttir og Sigrún Pálsdóttir Blöndal.

Menningarviðburðir hafa verið tíðir í Trjásafni staðarins síðasta áratuginn og hefur haft um þá forustu Þór Þorfinnsson skógarvörður. Fjöldi skálda og listamanna stíga fram í máli og myndum í lokakafla bókarinnar.

Laugardaginn 15. október næstkomandi verður efnt til menningarsamkomu á Hallormsstað um það leyti sem bókin kemur út. Liður í samkomunni verður fræðslufundur (seminar) um staðinn og efni ritsins, þar sem ýmsir höfunda flytja fróðleiksefni. Síðan verður komið saman í Trjásafni og minnst og fagnað aldarfriðun Hallormsstaðaskógar.

Nú er tækifæri til að tryggja sér áskrift að þessu riti, fræðast um eina af gersemum lands okkar og styðja um leið við framtak höfunda og útgáfu.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim