Hjörleifur Guttormsson 14. júní 2005

Alcoa veifar röngu tré

Laugardaginn 11. júní 2005 sendi Alcoa fjölmiðlum yfirlýsingu sem fyrirtækið sagði tilkomna vegna ummæla minna daginn áður í kjölfar dóms Hæstaréttar. Af því tilefni hef ég tekið saman eftirfarandi grein sem Morgunblaðið birti í dag, 14. júní.

Samanburður Alcoa út í hött

Alcoa Fjarðarál sf kýs að bera saman heildarlosun frá áformaðri verksmiðju Norsk Hydro annarsvegar og Alcoa-verksmiðjunni hinsvegar án tillits til skaðlegrar mengunar frá álverunum. Í töflu frá fyrirtækinu sem fylgdi staðhæfingunni um minni heildarlosun er m. a. tíundað að Norsk Hydro hefði losað 9500 tonn af brennisteinstvíoxíði í frárennsli til sjávar. Það hefði gerst með vothreinsun, en Alcoa hefur hingað til hafnað að bæta vothreinsun við þurrhreinsun í verksmiðju sinni. Losun brennisteinstvíoxíðs í sjó veldur ekki skaðlegri mengun, ekki frekar en ef sett væri matarsalt í hafið. Þess vegna er vothreinsun góð og gild lausn, jafnhliða því sem bæta má inn hreinsunarþrepi til að ná mengandi efnum úr frárennsli (PAH, þungmálmar ofl.). Öðru máli gegnir þegar brennisteinssambönd eru losuð út í andrúmsloftið eins og Alcoa hyggst gera, reyndar ferfalt meira að heildarmagni en Norsk Hydro og 26-falt meira á hvert framleitt tonn af áli. Heildarlosun á loftbornu flúoríði er jafnframt um 50% meiri hjá Alcoa og nær helmingi meiri miðað við hvert framleitt áltonn.
Samanburður á losun mengandi efna frá verksmiðjunum kemur fram í eftirfarandi töflu, sem undirritaður lagði fyrir Héraðsdóm og Hæstarétt.

 

Samanburður á útblæstri frá álveri Norsk Hydro (420 þús. árstonn) með og án
rafskautaverksmiðju og álveri Alcoa (322 þús. árstonn)

Losun í tonnum á ári

  HF Rykb.
flúor
SO2 PAH Svifryk C02- x1000 PFC sem
CO2 ígildi
- x1000
NOx
Álver Norsk Hydro 54,6 50,4 190 0,022 25,6 626,1 58 13
Rafskaut N. Hydro 0,4 0,43 638 1,95 3,7 84 - 120
Samtals N.Hydro 55 50,83 828 1,972 29,3 710,1 58 133
Álver Alcoa 78,8 27,5 3864 0,167 38,4 530,5 34,42 27


Losun álveranna pr. framleitt tonn af áli

HF
g
Rykb.flúor
g
SO2
kg
PAH
g
Svifryk
g
C02
tonn
PFC- CO2 ígildi
kg
NOx
g
Álver Norsk Hydro
130
120
0,45
0,05
61
1,49
138
31
Álver Alcoa
245
85
12
0,52
119
1,65
107
84

 

Heimildir:
Fyrir álver Norsk Hydro (420 þús. árstonn + rafskautaverksmiðja): Úrskurður Skipulagsstofnunar 31. ág. 2001, tafla 9, bls. 89
Fyrir álver Alcoa (322 þús. árstonn): Ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. des. 2002, tafla 2, bls. 4
Losun Alcoa á SO2 er miðuð við útgefið starfsleyfi

Hæstiréttur um tækni og losun

Í forsendum dóms Hæstiréttur segir m .a. eftirfarandi:

“Þá var því lýst hér að framan að nota átti að einhverju leyti aðra tækni við framleiðslu í álveri Alcoa á Íslandi ehf. og taka átti með allt öðrum hætti á mengandi útblæstri frá verksmiðjunni, sem að auki var verulega ólík að útliti. Var því ekki unnt að líta á þetta sem sömu framkvæmd og umhverfismat hafði áður verið fengið um.”

Um losun flúoríðs frá Alcoa-verksmiðjunni segir Hæstiréttur m. a.:

Í gögnum málsins kemur fram að eftir að endanlegir loftdreifingarútreikningar lágu fyrir treysti framkvæmdaraðili sér ekki til að ná auglýstum umhverfismörkum fyrir flúoríð og í starfsleyfi Umhverfisstofnunar voru þau hækkuð verulega með samþykki Skipulagsstofnunar, en án þess að það væri sérstaklega auglýst eða vakin á því athygli þeirra sem athugasemdir höfðu gert við fyrirhugaðar framkvæmdir.”

Hér eru á ferðinni gallhörð efnisatriði en ekki formið eitt eins og ráðherra og Alcoa reyna að halda fram.

Veðurskilyrðin í Reyðarfirði

Á báðum dómsstigum var vakin athygli á niðurstöðum í skýrslu Veðurstofu Íslands (útgefin í september 2003) um athuganir í Reyðarfirði fram til maí 2003, þar sem m.a. kemur fram eftirfarandi:

“Í þessu sambandi er þess að geta að hringrás haf- og landgolu á sér greinilega stað innanfjarðar á Reyðarfirði. Sama loftið gæti því borist tvisvar eða jafnvel þrisvar yfir álverið og Búðareyri á sama degi. Gæti það valdið aukinni skammtíma mengun á Búðareyri, þótt veruleg þynning verði á mengunarefnum á hinni löngu hringrás loftsins innan fjarðarins.
Einnig er bent á að hægir vestlægir vindar munu oft blása yfir álbræðsluna síðla nætur að sumarlagi, en snúast í austlæga innlögn snemma morguns. Getur mengað loft þá borist aftur yfir verksmiðjuna og síðar yfir Búðareyri. Með hækkandi sól hitnar loftið næst jörðu og verður óstöðugt. Getur þá stöku sinnum orðið svæling (fumigation) þegar hluti mengaðs lofts berst niður til jarðar.
Hættulegri varðandi skammtíma mengun eru þó sennilega miklir hægviðriskaflar með breytilegri vindátt. Sama loftið gæti þá stöku sinnum borist margsinnis yfir álverið og svo yfir Búðareyri.”

Í kjölfar umrædds tímabils fylgdi staðviðrasumarið 2003, en mælingagildi á þeim tíma voru ekki tekin með í niðurstöður. Haustið 2003 voru svo athugunarstöðvar teknar niður!

Umrædd yfirlýsing Alcoa ber vott um að einhver hafi sagt fyrirtækinu að betra sé að veifa röngu tré en engu. Væri ekki nær að taka til við að undirbúa aðgerðir sem til þess séu fallnar að draga úr heilsuspillandi mengun og skaðlegum áhrifum frá Alcoa-verksmiðjunni á náttúru Reyðarfjarðar?


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim