Hjörleifur Guttormsson | 15. desember 2005 |
Rafrænar sjúkraskrár og persónuvernd Varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson
alþingismaður, skrifar grein í Morgunblaðið 7.
desember sl. sem ber heitið “Rafræn sjúkraskrá verði
að veruleika”. Þar knýr þingmaðurinn
fast á um að veitt verði fjármagn, 1-2 milljarðar
króna, til að gera rafræna sjúkraskrá “ ... í þágu
heilbrigðiskerfisins, jafnt á sjúkrastofnunum sem og á heilsugæslustöðvum
og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum.
Sömuleiðis þarf að tryggja samtengingu rafrænna
kerfa í heilbrigðiskerfinu í heild sinni.” Skýran lagaramma vantar Færsla á rafrænum heilsufarsupplýsingum var mikið rædd á Alþingi og manna á meðal fyrir nokkrum árum í aðdraganda þess að sett voru lög um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði í höndum Íslenskrar erfðagreiningar. Sú lagasetning mætti mikilli andstöðu og framkvæmdin gufaði upp án þess heilbrigðisyfirvöld hafi gert hreint fyrir sínum dyrum um þá kynjasögu. Líkur benda til að gagnagrunnsmálið hafi truflað stórlega eðlilega skoðun á kostum og göllum rafrænna sjúkraskráa og þannig reynst hermdargjöf. Opinber umræða hefur verið sáralítil upp á síðkastið um þessi efni og engin um grundvallarþætti. Undirritaður bar fyrir 6 árum fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um meðferð upplýsinga úr sjúkraskrám og gagnagrunn á heilbrigðissviði (502. mál á 123. löggjafarþingi). Leiddu svör ráðherra í ljós margháttaða bresti í málsmeðferð og gloppur í lögum um mikilsverða þætti. Fyrir um tveimur árum svaraði heilbrigðisráðherra fyrirspurn frá Rannveigu Guðmundsdóttur þingmanni (486. mál á 130. löggjafarþingi) um hvað liði gerð rafrænna sjúkraskráa. Svaraði ráðherra því til að gera mætti ráð fyrir að mikilvæg skref í málinu yrðu stigin á næstu tveimur til þremur árum. Lokaorð ráðherrans í um ræðu um fyrirspurnina voru: “Svo er aftur annað mál að við þurfum að gæta að persónuverndinni. Ég kem kannski að því síðar.” Síðan hefur ríkt þögn um málið á Alþingi! Umræðuna upp úr skúmaskotum Gerð rafrænna sjúkraskráa mun nú á ný vera til umræðu á vegum foráðamanna heilbrigðisstofnana og tæknifyrirtækja og heilbrigðisráðherra boðar frumvörp um málið á yfirstandandi þingi. Engin grein hefur hins vegar verið gerð fyrir því opinberlega á hvaða grunni eigi að byggja þá vinnu. Sporin frá lagasetningunni um miðlægan gagnagrunn hræða þar sem stjórnvöld skelltu fram frumvarpi seint á þingi og kröfðust afgreiðslu á fáum vikum. Forsenda atrennu að þessu máli nú ætti að vera að ná sem víðtækustu sammæli um persónuverndarþátt málsins og taka af tvímæli um lagaleg álitamál og öryggiskröfur. Tæknileg úrvinnsla á að lúta niðurstöðu úr þessum þáttum í stað þess að menn láti stjórnast af meira og minna úreltum hugbúnaði og kerfum. Ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna og aðgengi að rafrænum sjúkraskráruplýsingum þarf að vera ljós áður lengra er haldið sem og nýting þeirra og varsla. Fyrst þegar opin umræða hefur farið fram um þessi efni og leikreglur verið mótaðar er tilefni til að “spýta í lófana” og ausa út milljörðum sem varaformaður Samfylkingarinnar kallar eftir af kappi en lítilli forsjá. Hjörleifur Guttormsson |