Hjörleifur Guttormsson 16. febrúar 2005

Gróðurhúsaáhrifin sérstök ógnun við Norðurslóðir

Ömurleg frammistaða íslenskra stjórnvalda

Kyótóbókunin er frá og með 16. febrúar gengin í gildi. Þótt hún feli í sér aðeins hænufet á þeirri braut að stöðva og síðan draga úr losun gróðuhúsalofttegunda af mannavöldum er gildistakan fagnaðarefni. Viðfangsefnið hleypur ekki frá okkur, glíman við áframhaldandi stórfellda mengun andrúmsloftsins heldur áfram. Samningaviðræður um næsta skref sem taka verður við af Kyótóbókuninni frá og með 2012 eiga að hefjast á yfirstandandi ári. Ísland betlaði út sérstaka meðhöndlun í Kýótó, fékk heimild til 10% aukningar í stað þess að vera í hópi þeirra sem gert er að skera niður gróðurhúsamengun. Að auki stókst hérlendum stjórnvöldum að verða sér úti um heimild til að losa 1,6 miljónir tonna árlega frá stóriðju og eru nú önnum kafin við að úthluta þeirri heimild ókeypis til álfyrirtækja. Það sem meira er, forsætisráðherra Íslands hefur boðað að áfram verði reynt að feta þessa braut og betla út svipaða sérmeðferð í komandi samningaferli. Gegn slíkri ósvinnu þurfa allir hugsandi menn að rísa.

Bandaríkin verða að sjá að sér

Kýótóbókunin er sameiginlegur sigur fyrir alþjóðasamfélagið. Með henni viðurkenna flestar þjóðir heims vandann sem við blasir og lýsa sig viljugar til að taka þátt í glímunni við hann. En græðgi og skammtímahugsun er ásækin og birtist í dapurlegastri mynd í ákvörðun Bandaríkjanna að skerast úr leik. Þar er á ferðinni ríki sem leggur langmest til mengunar lofthjúpsins en hefur öll efni til að snúa af þeirri braut. En pólitískan vilja vantar. Bæði Bandaríkjaforseti og meirihluti Bandaríkjaþings hafna því að vinna með alþjóðasamfélaginu að lausn vandans. Því er brýnt viðfangefni að þrengja að bandarískum stjórnvöldum með öllum tiltækum ráðum og knýja þau til þátttöku í glímunni við mestu umhverfisógn okkar tíma. Sama á við um Ástralíu sem stendur utan við bókunina.

Þróunarríkin þurfa að lúta takmörkunum frá 2012

Þróunarríkin voru fyrirfram undanþegin að taka þátt í niðurskurði losunar á tímabilinu fram til 2012. Það lá fyrir með samþykkt á ársfundi aðildarríkja loftslagssamningsins í Berlín 1995. Þau eru samt sem áður aðilar að Kyótóbókuninni og hafa langflest staðfest hana, þar á meðal Kína og Indland. Ljóst er hins vegar að eitt brýnasta verkefnið í komandi samningaviðræðum um næsta skuldbindandi skref er að fá þau þróunarríki sem harðast ganga fram í iðnvæðingu til að undirgangast takmarkanir. Ísland getur ekki lagt til orð í þá veru á vettvangi loftslagssamningsins ef stefna hérlendra stjórnvalda verður sú sem forsætisráðherra boðar að Ísland eigi öðru sinni að leita eftir stórfelldum undanþágum sér til handa.

Óstöðugt og viðkvæmt umhverfi Norðurslóða

Síðastliðið haust kom fram á vegum Norðurskautsráðsins að loftslagsbreytingar væru mun örari og válegri fyrir Norðurslóðir en flesta aðra heimshluta. Í ljósi þess er framganga íslenskra stjórnvalda enn gagnrýniverðari en ella. Einnig skýtur skökku við að ýmsir hérlendis hamast við að reikna út meintan ábata af loftslagsbreytingunum fyrir land okkar og aðstæður á Norðurslóðum. Menn veifa í því sambandi hlýnun hérlendis sem jákvæðum þætti og telja sér m.a. trú um stóraukna ræktunarmöguleika í krafti hennar. Sama er að segja þegar rætt er um að siglingaleiðir í Norður-Íshafi opnist og menn geti hérlendis farið að búa sig undir að eiga hlut að fragtflutingum á nýjum skipaleiðum. Þetta eru í besta falli barnaleg hugarfóstur og óskhyggja. Fari svo að meðallofthiti hækki til muna hérlendis, er af mörgum fræðimönnum talið líklegt að það eigi öðru fremur við um vetrarmánuði en sumarhiti geti haldist nálægt því sem nú gerist. En það er líka allt önnur hlið á þessu máli.

Golfstraumurinn kann að fjara út

Í heilan áratug hefur af hálfu vísindamannahópsins sem starfar í tengslum við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (Intergovernmental Panel on Climate Change – IPCC) verið bent á þann möguleika að gjörbreyttar aðstæður kunni að skapast við Norður-Atlantshaf í kjölfar hækkunar meðalhita á heimsvísu. Þá er haft í huga að aukið ferskvatnsstreymi af norðlægum slóðum suður í Atlantshaf geti veikt og jafnvel stöðvað Golfstrauminn þannig að úr áhrifum hans á Evrópu norðanverða dragi til mikilla muna stig af stigi. Á alþjóðlegri loftslagsráðstefnu sem haldin var nýverið í Bretlandi að tilhluta breskra stjórnvalda voru áhyggjur vegna þessa mun meira áberandi en áður. Bandarískir vísindamenn sem þar töluðu sögðu líkurnar á slíkum viðsnúningi nú langtum meiri en áður var talið. Mike Schlesinger frá háskólanum í Illinois sagði að 3°C hækkun meðalhita á þessari öld myndi auka líkurnar um 45% á stöðvun Golfstraumsins í aldarlok og allt að 70% að slíkt gerist fyrir árið 2200. Sums staðar við Norður-Atlantshaf gæti slík þróun leitt til 10°C lækkunar meðalhita, á vesturströnd Bretlandseyja um nálægt 5°C. Slíkar vísbendingar með allri sinni óvissu, hvort sem menn telja líkur á hlýnun eða kólnun á okkar slóðum, sýna alvöru þess viðfangsefnis, sem Kyótóbókunin hefur sett á dagskrá heimsbyggðarinnar.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim