Hjörleifur Guttormsson 16. ágúst 2005

 Matsáætlun Alcoa – athugasemdir

Undirritaður hefur skilað athugasemdum til Skipulagsstofnunar vegna tillögu Alcoa að matsáætlun, en áður hafði ég eins og fleiri brugðist við drögum fyrirtækisins að slíkri áætlun. Athugasemdirnar eru í 19 tölusettum liðum og aðgengilegar hér á heimsíðunni. Þar er m.a. lögð áhersla á bestu mengunarvarnir með vothreinsun miðað við staðbundnar aðstæður. Nokkrar athugasemdanna varða lagalega stöðu yfirstandandi framkvæmda, öryggisþætti álvers í Reyðarfirði og samfélagsleg áhrif. Verða hér tilfærðar áherslur mínar um þessi efni:

  • Lagaleg staða. Engin gild leyfi eru til staðar fyrir álver Alcoa í Reyðarfirði, andstætt því sem stendur í tillögu Alcoa að matsáætlun, hvorki framkvæmdaleyfi áður útgefin af Fjarðabyggð né starfsleyfi fyrir álver með allt að 322.000 t ársframleiðslu gefið út af Umhverfisstofnun 14. mars 2003. Staðhæfing í tölulið 2 undir yfirskriftinni “Starfsleyfi” þar sem segir: “Starfsleyfið gildir til ársins 2020” er röng. Ekkert lögbundið mat hefur farið fram á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og því eru forsendur fyrir áður útgefnum starfs- og framkvæmdaleyfum brostnar. Ber því að stöðva allar yfirstandandi framkvæmdir fyrir áformaða verksmiðju uns niðurstaða úr lögformlegu mati á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Á meðan það er ekki gert er það matsferli sem nú er hafið með undirbúningi að matsáætlun markleys
  • Önnur staðsetning álvers eða “Núll”-lausn, sbr. tölulið 3. Fátt sýnir betur þá stöðu, framkvæmdalega og réttarfarslega, sem fyrir liggur varðandi áformin um byggingu álvers í Fjarðabyggð. Lög gera ráð fyrir að matsaðilar hafi frjálsar hendur um að leggja mat á aðra staðsetningu en þá sem fyrirhuguð er af framkvæmdaraðila og að ekkert verði úr fyrirhugaðri framkvæmd. Nú þegar hafa verið bundnar háar fjárhæðir í verksmiðju og orkuframkvæmdum í þágu álvers sem engar heimildir eru fyrir. Frekari fjárfesting í slíkri verksmiðju á meðan mat fer fram á umhverfisáhrifum bætir gráu ofan á svart.
  • Auk “Núll”-lausnar þarf að meta áhrif þess að rekstrarforsendur verksmiðjunnar bresti á áætluðum starfstíma, annaðhvort vegna breytinga á alþjóðlegu rekstarumhverfi eða vegna þess að orkuafhending stöðvist um lengri eða skemmri tíma. Ekki þarf mikið út af að bera í alþjóðlegu umhverfi til að fjárfestar leiti annarra kosta um álframleiðslu, að ekki sé minnst á styrjaldarátök nær eða fjær sem áhrif hefðu á starfsemi verksmiðjunnar. Óvissan um rekstrarforsendur og öryggi Kárahnjúkavirkjunar hefur verið til umræðu og vísindamenn bent á hættur af náttúruhamförum fyrir rekstur virkjunarinnar, bæði vegna tilkomu Hálslóns, og af sökum eldsumbrota sem áhrif gætu haft á orkuframleiðslu virkjunarinnar. Ekki má miklu muna hvar eldur kemur upp undir Vatnajökli þannig að það valdi hamfarahlaupum til norðurs. Þar við bætist hætta af línurofi, þar sem varaafl er ekki til staðar. Stöðvun á rekstri álversins eftir gangsetningu hefði allt önnur og alvarlegri áhrif á fámennt samfélag á Austurlandi en á þéttbýlli svæðum þar sem margra kosta er völ í atvinnulegu tilliti.
  • Samfélagsleg áhrif. Sagt er í tölulið 5.3 að gerð hafi verið rannsókn á samfélagslegum áhrifum fyrirhugaðs álvers á sveitarfélög í nágrenninu. Undirritaður varar við að líta á rannsókn og skýrslu Nýsis sem unnin var fyrir Reyðarál hf (skýrsla í maí 2001: Mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði) sem marktæka. Margt af þeim ályktunum sem þar eru dregnar eru litaðar af óskhyggju, m.a. að því er varðar líklega þátttöku Íslendinga í framkvæmdum á byggingarstigi og við varanlegan rekstur álvers í Reyðarfirði. Gera verður ráð fyrir að eftir að rekstur verksmiðjunnar hefst kunni umtalsverður hluti af vinnuafli fyrirtækisins að verða sóttur erlendis frá þar eð innlent vinnuafl verði ekki fáanlegt. Slík staða myndi breyta mjög fyrri forsendum um áhrif og starfsrækslu fyrirtækisins (sbr. skýrslu Nýsis í maí 2001) en þær gerðu ekki ráð fyrir útlendu vinnuafli í teljandi mæli við rekstur verksmiðjunnar. Fyrir þarf að liggja í matsskýrslu með hvaða hætti brugðist verði við til að tryggja aðlögun og aðbúnað hugsanlega stórs hóps útlendinga eftir að starfsræksla hefst í verksmiðjunni. Skiptir sá þáttur ekki síst máli fyrir viðkomandi sveitarfélög.
  • Húsnæðismarkaður. Fjalla þarf um aðstæður og líklega þróun á húsnæðismarkaði til lengri tíma litið og hvort líkur séu á að Alcoa Fjarðarál þurfi að reisa og reka húsnæði fyrir starfsfólk verksmiðjunnar. Sé það ekki fyrirhugað þarf að gera grein fyrir hvernig leysa eigi húsnæðisþörf starfsfólks verksmiðjunnar. Ástæða er til að ætla að umtalsverður hluti starfsmanna verksmiðjunnar, bæði þeir er koma erlendis frá og frá öðrum landshlutum hérlendis, verði ekki reiðubúinn að fjárfesta í eigin húsnæði á Austurlandi.
  • Mengunarhætta vegna siglinga með hráefni og afurðir til og frá álverksmiðjunni. Brýnt er að metin verði áhætta og umhverfisáhrif sem tengst geta slíkum skipaflutningum og sem leitt gætu til mengunar sjávar og strandsvæða. Á slíka flutninga ber að líta sem hluta af rekstri álversins og gera þarf eiganda verksmiðjunnar ábyrgan fyrir hugsanlegum óhöppum. Risastór leiguskip eru að jafnaði notuð í slíkum flutningum og sum þeirra eru langt frá því að standast almennt viðurkenndar kröfur auk þess sem eftirlit með þeim er ófullnægjandi. Skip þessi ganga að jafnaði fyrir mjög þungri svartolíu og hafa að jafnaði mikið magn slíks eldsneytis um borð. Ekki er kunnugt um að hérlendis séu til dráttarskip sem fær séu um að draga risastór flutningaskip frá landi verði þau vélarvana. Tilvísuð reglugerð nr. 495/1998, sbr. tölulið 5.8, kom ekki fram við leit á Netinu undir Réttarheimildir þannig að óljóst er til hvers verið er að vísa.

Um önnur atriði vísast til athugasemda minna til Skipulagsstofnunar.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim