Hjörleifur Guttormsson 18. janúar 2004

Viðbrögð við dómi um Alcoa-verksmiðjuna

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar sl. sem kveður á um að álver Alcoa á Reyðarfirði skuli sæta sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum hefur eðlilega fallið í misjafnan jarðveg. Við stefnendur erum að vonum ánægðir með þessa uppskeru þótt ekki höfum við fengið allt okkar fram. Stjórnvöld leyna ekki vonbrigðum sínum og Siv segist afar undrandi. Framkvæmdaraðilinn er sleginn og segir Alcoa íhuga að fara nú þegar að huga að undirbúningi á matsskýrslu til vonar og vara á meðan beðið er niðurstöðu Hæstaréttar. Það eru skynsamleg viðbrögð af Alcoa hálfu. Hugmyndir um að láta dóminn sem vind um eyru þjóta í trausti þess að enginn geri kröfu um að honum verði framfylgt eru að sama skapi óskynsamlegar. Á sama hátt eru óraunsæjar vangaveltur um að sniðganga megi dóminn, starfsleyfi og framkvæmdaleyfi verði ekki afturkölluð eftir að framkvæmdir eru hafnar við verksmiðjuna. Forsendur þessara leyfa eru brostnar og ósennilegt að Alcoa vilji setja sig í það ljós að keyra þvert gegn alþjóðlega viðurkenndum leikreglum. Ljóst er að bandalag stjórnvalda og Alcoa mun leggja sig í líma að fá dómnum hnekkt af Hæstarétti. Niðurstöðu þaðan er að vænta snemmsumars.

Mikill ávinningur að dómnum

Hver svo sem verða úrslit málsins fyrir Hæstarétti hefur mikið áunnist með héraðsdómnum. Óvönduð vinnubrögð stjórnvalda hafa verið afhjúpuð og sviðsljósið beinist að þeirri áhættu sem verið er að taka með mengun frá verksmiðjunni þar sem ekki á að beita bestu fáanlegri tækni. Leyfisveitendur munu væntanlega hugsa sig um tvisvar áður en þeir reyna öðru sinni “að stytta sér leið” eins og var yfirskrift leiðara Morgunblaðsins 14. janúar um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómurinn mun þannig hafa áhrif til bóta á réttarþróun hérlendis í umhverfismálum. Skýrst hefur fyrir náttúruverndarfólki að dómstólaleiðin er ekki lokuð til ávinnings ef gildum rökum er fram haldið. Jafnframt verða ljósari en áður agnúar á löggjöf og lagaumhverfi sem auðveldar réttsýnum alþingismönnum að vinna að úrbótum. Þetta á bæði við um tap og vinning í einstökum dómsmálum. Dropinn holar steininn á þessu sviði sem öðrum, því fyrr sem málstaðurinn er betri sem unnið er fyrir.

Mörg orð hrjóta í hita leiks

Ég og lögmaður minn Atli Gíslason höfum fengið fjölmargar hlýjar kveðjur og hvatningu, bæði frá fólki sem við þekkjum persónulega en einnig frá mörgum úr þjóðdjúpinu, fólki okkur ókunnugu sem bregst við og vill sýna samstöðu. Allt er það hvetjandi og þakkarvert. En andstæðingar láta líka í sér heyra sem vænta má og einnig þeirra viðbrögð segja sögu sem vert er að gaumgæfa. Úr heimabyggð hafa mér þannig borist viðbrögð og kveðjur sem enduróma óöryggi, pirring og vanþekkingu á eðli máls. Sveitarstjóri Fjarðabyggðar sendir frá sér merki sem afhjúpa slakan málstað. Frá öðrum koma skeyti út úr tölvunni þar sem mér er borið á brýn að meta mannlíf í heimabyggð lítils. “Persónulega finnst mér framganga þín vera meira í ætt við “samfélagshryðjuverk” á austfirðingum” segir mér kunnugur bréfritari ættaður frá Norðfirði. “En þér er kannski alveg sama þó allt leggist hér af, þá geturðu gengið hér um allt og étið og tínt fjallagrös”, segir Reyðfirðingur. Þessi fléttutegund sem hélt lífinu í mörgum Íslendingi fyrrum hefur orðið að sérstökum þyrni í augum stóriðjuaðdáenda! Við sem horfum til margra átta látum hins vegar ekki einsýni tækni- og gróðahyggju hrekja okkur af leið.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim