Hjörleifur Guttormsson | 18. nóvember 2005 |
Kollsteypa eða meðvituð leið út úr ógöngunum Bandaríski mannfræðingurinn Jared Diamond (f. 1938),
prófessor við Kaliforníuháskóla í Los
Angeles hefur vakið mikla athygli síðasta áratuginn
sem höfundur bóka um þróun mannsins (Þriðji
simpansinn) og örlög samfélaga fyrr á tíð (Fátækir
og ríkir). Fyrir síðarnefndu bókina hlaut hann
Pulitzer-verðlaunin 1998. Í ár, 2005, kom út
eftir hann bók sem á ensku ber heitið Collapse sem þýða
mætti með Kollsteypa, undirtitill: Hvernig samfélög
halda velli eða tortímast (How Societies Choose to Fail or
Succeed). Útgefandi er Viking, Penguin Group, New York, 703 bls. Ég
rakst á þýska þýðingu bókarinnar í Berlín á dögunum, útgefandi
S. Fischer, en einnig þarlendis er hún farin að skipa
sér á metsölulista og viðtöl hafa birst
við höfundinn í blöðum og tímaritum. Tólf afdrifaríkustu vandamálin Alvarlegust umhverfismálin sem mannkynið standi frammi fyrir flokkar Diamond í tólf þætti. Ekki nægi að sigrast á meirihluta þessara viðfangsefna því að enginn þáttur megi verða útundan eigi að takast að bægja frá yfirvofandi háska og komast áffallalítið á braut sjálfbærrar þróunar. Um sé að ræða tímasprengjur og kveikjuþráðurinn sé stilltur á innan við 50 ár. Til að gefa hugmynd um þessa flokkun verða þessir þættir nefndir hér lauslega:
Diamon varpar fram spurningunni: “Hvað mun gerast þegar það rennur upp fyrir miljörðum manna í þriðja heiminum að útilokað sé að þeir nái nokkurntíma núverandi lífskjörum iðnríkjanna og að iðnríkin séu ekki reiðubúin til að að hverfa í þeirra þágu frá núverandi lífsmáta?” Og hann bætir við: “Lífið er fullt af sársaukafullum ákvörðunum um víxlverkanir, en engin mun reynast jafn erfið og að horfast í augu við að hvatning og aðstoð við að hækka lífskjör allra leiði til ofnýtingar á auðlindum jarðar og þannig í reynd til andstæðu þess sem að var stefnt.” Meðvituð lausn eða sársaukafull “leiðrétting”
Í viðtölum segist höfundur bókarinnar Kollsteypu
vera hóflega bjartýnn á að mannkyninu takist
að komast hjá hruni siðmenningar viðlíka því sem
lagði ýmis menningarsamfélög í rúst
fyrr á tímum. Takist hins vegar ekki að komast án
stóráfalla inn á braut sjálfbærrar þróunar
verði vistræn vandamál Jarðar “leyst” á annan
og sársaukafyllri hátt og það í tíð þeirra
sem nú eru ungir að árum. Draga verði í efa
að iðnríkjunum takist að einangra sig frá vandamálum
meirihluta mannkyns sem býr við sult og seyru og halda uppi óbreyttum
lífsháttum sínum. Vaxandi straumur fólks
komi til með að flýja undan kollsteypum og bágum
aðstæðum í þriðja heiminum og möguleikar
einstakra svæða og heimshluta til að loka sig af fari
síminnkandi í hnattvæddum heimi. Vandamál þriðja
heimsins bitni með einum eða öðrum hætti fyrr
en varir á velstæðum samfélögum Vesturlanda.
Diamond bendir og á að maðurinn sé uppspretta þess
vistræna vanda sem mannkynið standi frammi fyrir og því sé það undir
okkur sjálfum komið að leita lausnar, m.a. með því að læra
af sögunni og samfélögum fyrri tíðar. Vaxandi
vitund almennings um víða veröld um eðli vistkreppunnar
og aukinn styrkur umhverfisverndarsamtaka gefi tilefni til hóflegrar
bjartsýni. Hjörleifur Guttormsson |