Hjörleifur Guttormsson 18. nóvember 2005

Kollsteypa eða meðvituð leið út úr ógöngunum
Um metsölubók Jareds Diamond.

Bandaríski mannfræðingurinn Jared Diamond (f. 1938), prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles hefur vakið mikla athygli síðasta áratuginn sem höfundur bóka um þróun mannsins (Þriðji simpansinn) og örlög samfélaga fyrr á tíð (Fátækir og ríkir). Fyrir síðarnefndu bókina hlaut hann Pulitzer-verðlaunin 1998. Í ár, 2005, kom út eftir hann bók sem á ensku ber heitið Collapse sem þýða mætti með Kollsteypa, undirtitill: Hvernig samfélög halda velli eða tortímast (How Societies Choose to Fail or Succeed). Útgefandi er Viking, Penguin Group, New York, 703 bls. Ég rakst á þýska þýðingu bókarinnar í Berlín á dögunum, útgefandi S. Fischer, en einnig þarlendis er hún farin að skipa sér á metsölulista og viðtöl hafa birst við höfundinn í blöðum og tímaritum.
Bókin skiptist í fjóra þætti. Í þeim fyrsta er fjallað um Montana sem dæmi um þróun í fylki innan Bandaríkjanna sem þrátt fyrir strjálbýli líður fyrir margvísleg umhverfisvandamál: Eitraðan úrgang, skógeyðingu, uppblástur, mengun ferskvatns, veðurfarsbreytingar, úrtýmingu tegunda og ágengar innfluttar lífverur dýra og plantna. Annar þáttur bókarinnar er helgaður samfélögum sem liðið hafa undir lok fyrr á tíð, meðal annars á eyjum í Kyrrahafi og í indíánabyggðum Nýju Mexíkó (Anasazi). Lýst er útrás og landnámi norrænna manna (“víkinga”) á eyjum við norðanvert Atlandshaf og örlögum  þeirra á Grænlandi. Allítarleg frásögn er um Ísland og áhrif búsetunnar hér á landkosti. Síðan er tekið dæmi úr allt annarri átt, frá Nýju Gýneu þar sem höfundurinn byrjaði rannsóknir sínar sem námsmaður.  Í þriðja þætti bókarinnar eru til meðferðar nútímasamfélög í mismunandi heimshlutum, Rúanda, Dóminíkanska lýðveldinu og á Haíti, í Kína og Ástralíu og lesið í ólíka þróun á þessum svæðum og áhrif manna á umhverfið. Í síðasta hluta bókarinnar dregur höfundurinn saman lærdóma af afleiðingum búsetu víða um heim og margháttuðum mistökum í ákvörðunum sem leitt hafi til eyðingar umhverfis og náttúruauðlinda. Sérstakur kafli er helgaður fjölþjóðafyrirtækjum og vaxandi þætti þeirra í framvindunni. Í lokakafla bókarinnar fjallar Diamond um afdrifaríkustu umhverfisvandamál sem mannkynið nú stendur frammi fyrir, samspil þeirra og erfiða glímu framundan.

Tólf  afdrifaríkustu vandamálin

Alvarlegust umhverfismálin sem mannkynið standi frammi fyrir flokkar Diamond í tólf þætti. Ekki nægi að sigrast á meirihluta þessara viðfangsefna því að enginn þáttur megi verða útundan eigi að takast að bægja frá yfirvofandi háska og komast áffallalítið á braut sjálfbærrar þróunar. Um sé að ræða tímasprengjur og kveikjuþráðurinn sé stilltur á innan við 50 ár. Til að gefa hugmynd um þessa flokkun verða þessir þættir nefndir hér lauslega:

  • Eyðing búsvæða á landi og í sjó, ekki síst eyðing skóga, votlendis, kóralrifja og hafsbotns.
  • Skerðing náttúruauðlinda sem eru mikilvægar til fæðuöflunar manna, þar á meðal sjávarfang eins og fiskistofnar og skeldýr. Sjálfbær fiskirækt gæti verið vænleg til að létta álagið en mikið vantar á að beitt sér réttum aðferðum.
  • Eyðing tegunda lífvera eða mikil röskun á fjölda þeirra hefur í för með sér keðjuverkandi og oft mjög skaðleg áhrif, einnig þótt um smáar lífverur sé að ræða sem almennt er lítill gaumur gefinn.
  • Jarðvegseyðing af völdum uppblásturs og útskolunar næringarefna,  m.a. á ræktanlegu landi, en nýmyndun jarðvegs gerist afar hægt í samanburði við eyðinguna.
  • Hækkandi orkukostnaður samhliða því sem gengur á auðvinnanlegar olíu- og gaslindir og annað jarðefnaeldsneyti. Jafnframt ríki óvissa um vistvæna orkugjafa sem komið geti í stað jarðefnaeldsneytis.
  • Fyrirsjáanlegar skortur á ferskvatni á stórum og þéttbýlum svæðum og mikill kostnaður við að vinna vatn úr sjó og koma því til notenda fjarri ströndum.
  • Fyrirsjáanleg takmörk á nýtingu sólarljóss til ljóstillífunar, sem um miðja öldina fari að miklum meirihluta til fæðuöflunar og annarra beinna nota. Að sama skapi verði minna aflögu fyrir náttúruleg gróðursamfélög.
  • Mengun af völdum eiturefna frá efnaiðnaði og framleiðsla manngerðra efnasambanda sem reynst hafa skaðleg fyrir heilsu og heilbrigði manna.
  • Dreifing framandi tegunda, dýra og plantna, fyrir tilverknað manna en sumar þeirra valda miklu og ófyrirséðu tjóni á viðkomandi vistkerfum.
  •  Losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum, hlýnun og hækkun sjávarborðs, sem og tilkoma annarra efna sem raska lofthjúpnum.
  • Fólksfjölgun og óvissa um við hvaða mörk og hvenær hún komist í jafnvægi.
  • Umhverfisálag vegna jöfnunar lífskjara í átt að því sem nú gerist í iðnvæddum samfélögum. Nú noti íbúar Vesturlanda og Japans 32-falt meira af jarðefnaeldsneyti og öðrum náttúruauðlindum en íbúar þriðjaheimslanda.

Diamon varpar fram spurningunni: “Hvað mun gerast þegar það rennur upp fyrir miljörðum manna í þriðja heiminum að útilokað sé að þeir nái nokkurntíma núverandi  lífskjörum iðnríkjanna og að iðnríkin séu ekki reiðubúin til að að hverfa í þeirra þágu frá núverandi lífsmáta?” Og hann bætir við: “Lífið er fullt af sársaukafullum ákvörðunum um víxlverkanir, en engin mun reynast jafn erfið og að horfast í augu við að hvatning og aðstoð við að hækka lífskjör allra leiði til ofnýtingar á auðlindum jarðar og þannig í reynd til andstæðu þess sem að var stefnt.”

Meðvituð lausn eða sársaukafull “leiðrétting”

Í viðtölum segist höfundur bókarinnar Kollsteypu vera hóflega bjartýnn á að mannkyninu takist að komast hjá hruni siðmenningar viðlíka því sem lagði ýmis menningarsamfélög í rúst fyrr á tímum. Takist hins vegar ekki að komast án stóráfalla inn á braut sjálfbærrar þróunar verði vistræn vandamál Jarðar “leyst” á annan og sársaukafyllri hátt og það í tíð þeirra sem nú eru ungir að árum. Draga verði í efa að iðnríkjunum takist að einangra sig frá vandamálum meirihluta mannkyns sem býr við sult og seyru og halda uppi óbreyttum lífsháttum sínum. Vaxandi straumur fólks komi til með að flýja undan kollsteypum og bágum aðstæðum í þriðja heiminum og möguleikar einstakra svæða og heimshluta til að loka sig af fari síminnkandi í hnattvæddum heimi. Vandamál þriðja heimsins bitni með einum eða öðrum hætti fyrr en varir á velstæðum samfélögum Vesturlanda. Diamond bendir og á að maðurinn sé uppspretta þess vistræna vanda sem mannkynið standi frammi fyrir og því sé það undir okkur sjálfum komið að leita lausnar, m.a. með því að læra af sögunni og samfélögum fyrri tíðar. Vaxandi vitund almennings um víða veröld um eðli vistkreppunnar og aukinn styrkur umhverfisverndarsamtaka gefi tilefni til hóflegrar bjartsýni.
Gagnlegt er að kynnast viðhorfum þessa víðförula og fjölmenntaða vísindamanns og óskandi að útgefendur finnist sem komi riti hans fyrir almenningssjónir hérlendis.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim