Hjörleifur Guttormsson 20. febrúar 2005

Jakob Björnsson og Kárahnjúka-jarðfræði
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2005

Ég þakka Jakobi Björnssyni fyrir að minna á aðvaranir sem ég setti fram í grein í Morgunblaðinu 30. desember sl. um ótraustar undirstöður Kárahnjúkavirkjunar. Í grein sinni í Morgunblaðinu hinn 15. febrúar bítur Jakob í skjaldarrendur, bregður mér um að ala á ótta og reynir síðan að drepa málinu á dreif. Í grein sinni segir hann m.a.:

"Mér vitanlega hafa allar þessar athugasemdir jarðfræðinganna hlotið gagngera skoðun verkfræðilegra jarðfræðinga, sem hafa tekið tillit til þeirra við lokahönnun og framkvæmd virkjunarinnar eftir því sem þeir hafa talið efni vera til." [Leturbr. HG]

Jakob fellur í þá gryfju að gera ekki greinarmun á almennum jarðfræðilegum aðstæðum á svæðinu sem Kárahnjúkastíflurnar þrjár og Hálslón hvíla á og verkfræðilegri hönnun mannvirkjanna. Hið fyrra er meginatriði og forsenda þess hvort ráðlegt gæti talist að setja þessi ógnarmannvirki og tröllaukinn vatnsgeymi niður á þessum stað. Í ljós hefur komið að undirstöðurnar eru ótraustar og jarðfræðilegar forrannsóknir voru í skötulíki. Mörg misgengi eru á svæðinu, sum tengd jarðhita og því ótvírætt virk. Sum þessara misgengja eru undir sjálfum stíflunum eins og fram hefur komið og hafa þegar valdið miklum erfiðleikum og töfum. Þessar aðstæður virðast hafa komið Landsvirkjun, sem treysti á guð og lukkuna, í opna skjöldu. En í stað þess að staldra við og endurmeta framkvæmdina og þá gífurlegu áhættu sem við blasir er haldið áfram með bundið fyrir bæði augu og treyst á "verkfræðilega jarðfræðinga" til að berja í brestina.

Umsjónarmaður virkjunarframkvæmdanna Sigurður Arnalds sagði í viðtali á RÚV 12. janúar sl.:

"Það eru mörk á því hvað skynsamlegt er að fjárfesta í rannsóknum og þær kosta líka stórfé og tíma og menn verða einfaldlega þá að byggja á reynslu og snilld jarðfræðinganna og trúa þeirra niðurstöðum."

Eins og Jakob er Sigurður hér að tala um verkfræðilega jarðfræðinga, mennina sem eiga að berja í brestina eftir á. Þetta er vægast sagt skelfileg staða og meira lagt undir en menn hafa nokkurt leyfi til að gera, ef ekki formlega þá siðferðilega. Almenningur og íslenskt þjóðarbú er panturinn sem þetta glæfraspil hvílir á.

Ríkisstjórn Íslands með núverandi forsætisráðherra í fararbroddi ber auðvitað meginábyrgð á þeim eftirrekstri og hraða sem einkenndi allan undirbúning Kárahnjúkavirkjunar. Handafli var beitt til að skrúfa fyrir aðvaranir jarðfræðinga sem annarra á undirbúningsstigi. Það leysir hins vegar ekki aðra sem tekið hafa þátt í þessum ljóta leik frá ábyrgð, meirihluta ríkisstjórnar og Samfylkingar á Alþingi, meirihluta borgarfulltrúa í Reykjavík með þáverandi borgarstjóra í fararbroddi og auðsveipa embættismenn og sérfræðinga sem spiluðu undir. Það er leitt að sjá Jakob Björnsson í þeim hópi, en hann hefur sjálfviljugur kosið sér það hlutskipti.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim