Hjörleifur Guttormsson | 22. október 2004 |
Framtíð kynslóðanna í okkar höndum Í endurskoðaðri stefnuyfirlýsingu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem landsfundur flokksins nú fjallar um er sjálfbær þróun og umhverfisvernd í forgrunni. Í henni segir m.a. að VG vilji “vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins. ... Lífskjör og velferð núlifandi kynslóða mega ekki byggja á því að náttúrugæðum sé spillt og gengið sé á rétt þeirra sem á eftir koma.” Í heilsteyptri umhverfisverndarstefnu felst “... að skammtímahagsmunir, neysluhyggja og gróðafíkn víki fyrir verndun umhverfis og varðveislu náttúrugæða.” Þessi stefnumið eru vegvísir til framtíðar. Dekkra í álinn en á liðinni öld Tegundin maður er skrítin skepna og á erfitt með að fóta sig. Margt bendir til að átök 20. aldarinnar reynist barnaleikur einn hjá því sem framundan er. Því veldur fjármagn í höndum fárra, síharðnandi samkeppni um gróða, ofurtækni í hernaði og andsvör kennd við hryðjuverk svo og sívaxandi rányrkja og sólund náttúrugæða. Afleiðing þessa er mengun af mannavöldum sem þegar hefur raskað hitastigi og veðurkerfum. Áhrif loftslagsbreytinganna eiga eftir að minna á sig af vaxandi þunga og færa flest úr skorðum í umhverfi okkar. Ná verður lífvænlegu jafnvægi Lífsgæði og lífshamingja eru afstæð hugtök og einstaklingsbundin. Ekkert efnahagskerfi veitir tryggingu fyrir slíku, síst af öllu kerfi sem magnar upp misrétti og misskiptingu á öllum sviðum og ógnar lífsskilyrðum á jörðinni. Framundan er glíman við að ná lífvænlegu jafnvægi milli manns og náttúru, þess umhverfis sem við erum hluti af. Það gerist ekki án átaka og aðhalds þar sem endurmeta þarf öll gildi og setja nýjar viðmiðanir og takmörk. Með núverandi siglingu næra iðnríkin það krabbamein sem stöðugt stækkar og færist óðfluga yfir á þróunarríkin svokölluðu. Ef allir jarðarbúar byggju við lífshætti eins og nú tíðkast á Vesturlöndum þyrfti ekki færri en fimm plánetur eins og Jörðina til að standa undir þeim búskaparháttum. Það er ekki aðeins olían sem gengur til þurrðar á þessari öld, ferskvatn er þegar af skornum skammti víða og verður takmörkuð auðlind á æ stærri svæðum. Regnaskógasvæðin, lungu jarðar, minnka ár frá ári. Minna má líka á það vafasama afrek Íslendinga að eyða meirihluta votlendis á fáeinum áratugum. Afleiðing þess er m.a. að nú losna ár hvert úr læðingi miljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum, sem ella væru bundin í jarðvegi.
Umhverfisvandinn, Vesturlönd og þróunarríkin Kína sem enn telst í hópi þróunarríkja státar þessi árin af nærri 10% árlegum hagvexti samhliða gífurlegri og sívaxandi mengun frá kolabrennslu og vaxandi olíunotkun. Framreikningar á slíkum hagvexti í Kína með sínar 1300 miljónir manna sýnir betur en mörg orð hvert stefnir ef þróunarríkin, þar á meðal Indland, feta sömu slóð og Vesturlönd. Með sama áframhaldi er talið að Kínverjar muni þurfa um 100 miljónir olíutunna (barrels) á dag eftir aldarfjórðung en það er meira magn en öll núverandi heimsframleiðsla. Hagvöxturinn í Kína og Indlandi sýnir okkur skýrar en mörg orð að núverandi efnahagskerfi heimsins byggt á jarðefnaeldsneyti, einkabílum og sólund efnislegra gæða leiðir rakleiðis í strand á örfáum áratugum. Þó gera þessar miljarðaþjóðir ekki annað en feta slóð sem Vesturlönd hafa þegar markað. VG hluti af vaxandi umhverfishreyfingu Hjörleifur Guttormsson |