Hjörleifur Guttormsson 22. október 2004

Framtíð kynslóðanna í okkar höndum
Stefnuyfirlýsing VG vísar veginn.

Í endurskoðaðri stefnuyfirlýsingu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem landsfundur flokksins nú fjallar um er sjálfbær þróun og umhverfisvernd í forgrunni. Í henni segir m.a. að VG vilji “vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins. ... Lífskjör og velferð núlifandi kynslóða mega ekki byggja á því að náttúrugæðum sé spillt og gengið sé á rétt þeirra sem á eftir koma.” Í heilsteyptri umhverfisverndarstefnu felst “... að skammtímahagsmunir, neysluhyggja og gróðafíkn víki fyrir verndun umhverfis og varðveislu náttúrugæða.” Þessi stefnumið eru vegvísir til framtíðar.

Dekkra í álinn en á liðinni öld
Að baki er 20. öldin, öld öfganna, með átökum alræðiskerfa, ríkissósíalisma og kapítalisma. – Í byjun 21. aldarinnar drottnar kapítalisminn að heita má óskorað í heimsbúskapnum með meira svigrúm en nokkru sinni fyrr í krafti svonefndrar hnattvæðingar. Hnattvæðing er ekki ný af nálinni en altækari nú en á blómaskeiði nýlendustefnunnar fyrir einni öld. Inntakið er óbreytt hjá flestum valdhöfum iðnvæddra ríkja: Að drottna yfir hráefni og auðlindum sem víðast, umfram allt olíunni sem knýr gangverk hagkerfis Vesturlanda. Vegna olíuhagsmuna réðust Bandaríkin og fylgiríki þeirra á Írak og vegna olíuhagsmuna halda Bandaríkin hlífiskildi yfir og dæla fjármagni í vasa spilltra einræðisstjórna.

Tegundin maður er skrítin skepna og á erfitt með að fóta sig. Margt bendir til að átök 20. aldarinnar reynist barnaleikur einn hjá því sem framundan er. Því veldur fjármagn í höndum fárra, síharðnandi samkeppni um gróða, ofurtækni í hernaði og andsvör kennd við hryðjuverk svo og sívaxandi rányrkja og sólund náttúrugæða. Afleiðing þessa er mengun af mannavöldum sem þegar hefur raskað hitastigi og veðurkerfum. Áhrif loftslagsbreytinganna eiga eftir að minna á sig af vaxandi þunga og færa flest úr skorðum í umhverfi okkar.

Ná verður lífvænlegu jafnvægi
Krafan um sjálfbæra þróun er svar við öllum þessum blikum, en af fáum tekin alvarlega enn sem komið er. Verkefnið er að dýpka skilning á því sem gera þarf til að koma mannkyninu á lífvænlegt spor, burt frá sjálfseyðingu, og til að byggja upp pólitískt viðnám sem víðast með upplýst almenningsálit að bakhjarli. Á stjórnmálasviðinu hérlendis er VG eina marktæka viðleitnin í þessa átt og áhrifa af málflutningi okkar og starfi er farið að gæta víða í samfélaginu.

Lífsgæði og lífshamingja eru afstæð hugtök og einstaklingsbundin. Ekkert efnahagskerfi veitir tryggingu fyrir slíku, síst af öllu kerfi sem magnar upp misrétti og misskiptingu á öllum sviðum og ógnar lífsskilyrðum á jörðinni.

Framundan er glíman við að ná lífvænlegu jafnvægi milli manns og náttúru, þess umhverfis sem við erum hluti af. Það gerist ekki án átaka og aðhalds þar sem endurmeta þarf öll gildi og setja nýjar viðmiðanir og takmörk. Með núverandi siglingu næra iðnríkin það krabbamein sem stöðugt stækkar og færist óðfluga yfir á þróunarríkin svokölluðu. Ef allir jarðarbúar byggju við lífshætti eins og nú tíðkast á Vesturlöndum þyrfti ekki færri en fimm plánetur eins og Jörðina til að standa undir þeim búskaparháttum. Það er ekki aðeins olían sem gengur til þurrðar á þessari öld, ferskvatn er þegar af skornum skammti víða og verður takmörkuð auðlind á æ stærri svæðum. Regnaskógasvæðin, lungu jarðar, minnka ár frá ári. Minna má líka á það vafasama afrek Íslendinga að eyða meirihluta votlendis á fáeinum áratugum. Afleiðing þess er m.a. að nú losna ár hvert úr læðingi miljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum, sem ella væru bundin í jarðvegi.

 

Umhverfisvandinn, Vesturlönd og þróunarríkin
Í losun gróðurhúsalofts vegna mannlegra umsvifa kristallast sá umhverfisvandi sem sameiginlegur er öllu mannkyni. Við Íslendingar erum þrátt fyrir vatnsafl og jarðvarma sem orkugjafa engir eftirbátar annarra Evrópuþjóða í mengun lofthjúpsins og stefnum með stöðugt meiri álframleiðslu óðfluga í hæstu hæðir miðað við höfðatölu. Með Kyótó-bókuninni er stigið fyrsta skref alþjóðasamfélagsins til að stöðva sig af, en raunverulegur niðurskurður er enn framtíðarmúsik. Bandaríkin standa utan við bókunina og þróunarríkin eru enn undanþegin takmörkunum og telja sig eðlilega hafa fullan rétt til aðgangs að andrúmsloftinu til jafns við þá sem fengið hafa forskot til uppbyggingar með iðnvæðingu.

Kína sem enn telst í hópi þróunarríkja státar þessi árin af nærri 10% árlegum hagvexti samhliða gífurlegri og sívaxandi mengun frá kolabrennslu og vaxandi olíunotkun. Framreikningar á slíkum hagvexti í Kína með sínar 1300 miljónir manna sýnir betur en mörg orð hvert stefnir ef þróunarríkin, þar á meðal Indland, feta sömu slóð og Vesturlönd. Með sama áframhaldi er talið að Kínverjar muni þurfa um 100 miljónir olíutunna (barrels) á dag eftir aldarfjórðung en það er meira magn en öll núverandi heimsframleiðsla. Hagvöxturinn í Kína og Indlandi sýnir okkur skýrar en mörg orð að núverandi efnahagskerfi heimsins byggt á jarðefnaeldsneyti, einkabílum og sólund efnislegra gæða leiðir rakleiðis í strand á örfáum áratugum. Þó gera þessar miljarðaþjóðir ekki annað en feta slóð sem Vesturlönd hafa þegar markað.

VG hluti af vaxandi umhverfishreyfingu
Það eru slíkar aðstæður og ógnir sem uppvaxandi kynslóðir munu þurfa að glíma við. VG er eina framsækna pólitíska aflið hérlendis sem þorir að horfast í augu við þessar framtíðarhorfur og vill taka á þeim af raunsæi. Við erum hluti af vaxandi umhverfishreyfingu um allan heim, studd af fjölda einstaklinga og félagasamtaka. VG gerir kröfu til þess að efnahagskerfi heimsins verði löguð að vistvænum markmiðum, ekki öfugt. Drögum úr álagi á umhverfið. Höldum kröfu um jöfnuð hátt á loft og rifum seglin í trylltu og sjálfseyðandi lífsgæðakapphlaupi. Stefnuyfirlýsing VG vísar veginn.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim