Hjörleifur Guttormsson 23. febrúar 2005

Bókaverslanir og framboð erlendra bóka
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 22. febrúar 2005

Mér brá í brún á dögunum þegar ég spurðist fyrir um skáldsögur á dönsku í Pennanum Eymundsson Kringlunni. Ætlaði að gauka einni slíkri að barnabarni til að örva áhuga á þessari þjóðtungu. Vingjarnlegur búðarþjónn upplýsti mig um að hvorki á því tungumáli né öðrum skandinavískum málum væru til rit í versluninni. Kannski á Laugavegi 18 og áreiðanlega niðri í Austurstræti 18.
Leið mín lá næst niður á Laugaveg, í musteri erlendra bóka, en þar tók lítið betra við. Danska? Nei sosum ekkert, reyndar Politikens Turen går til ... En niðri í kjallara mætti finna sænskar bækur. Og reyndar, þar voru 2-3 hillumetrar af sænskum bókum, en titlarnir flestir frá því fyrir aldamót, leifar frá tíð Önnu Einars sem dró að bækur tilnefndar til bókmenntaverðlauna. Þýskar bækur? Svo sem eitt hillufet sýnilegt, leifar frá níunda áratugnum og einn eða tveir titlar yngri. Framboð á frönska og spænsku var enn rýrara ef eitthvað var, fáeinir titlar gjöktu í hálftómum rekkunum. Búðarfólk sagði mér að eftirspurn væri lítil eftir öðru en ensku, en þó jafnvel daglega spurt eftir titlum á öðrum málum. En þetta væri stefnan að bjóða það sem selst.
Austurstræti 18. Ég sagði við kurteisa afgreiðslustúlku að hingað kæmi ég með talsverðar væntingar, ætlaði að verða mér úti um skáldsögu á dönsku, hér væri mér sagt að úr talsverðu væri að moða. Og svo kannski að líta á þýsku bækurnar. Vonbrigðin voru mikil, mér fannst fyrir okkur bæði. Fáein rit að vísu finnanleg á þessum tungumálum en flest kynningarbækur um Ísland. Bókmenntir? Nei því miður, ekki nema á ensku, og svo tímaritin niðri.
Ég var miður mín og það tók mig hálfan mánuð að safna kjarki og leita uppi síðasta hálmstráið, Bóksölu stúdenta. Þangað var gaman að koma, reiða á hlutum, flokkað eftir efni, en framboð á evrópskum fagurbókmenntum sáralítið, nema þá á ensku. Forstöðumaður sagði mér að mest væri pantað eftir óskum kennara háskólans, og við ræddum um fámenni og fákeppni og glæsilega útrás Baugs og félaga.

Tungumálanám og bóksala

Það skal játa að undirritaður er af öðru landshorni og kannski með úreltar hugmyndir um höfuðborgina. Sú var tíð að unnt var að velja sér þar bók og bók úr hillu á norrænum málum og tungum meginlandsins, láta fjölvíst búðarfólk kveikja hjá sér áhuga af því það hafði eitthvað í handraðanum. Ég bið ekki um Magnús Torfa, en kannski 5% af honum eða þá brotabrot af Snæbirni.
Tungumálakennsla er talsvert rædd í blöðunum um þessar mundir og margt rétt sem þar kemur fram, m.a. að byrja eigi fyrr að kenna erlend mál í grunnskóla. Ég er sama sinnis og Morgunblaðið að rangt var að gera ensku að fyrsta tungumáli í stað dönsku (sjá leiðara 11. febrúar sl.). Hættan sem því fylgdi var að dönskukennsla yrði hornreka í námsskrá og hugum barnanna. Hvorttveggja hefur gerst og nú babbla ungir Íslendingar ensku við Eyrarsund. Lítið styður Sjónvarpið við áhuga á öðrum tungumálum en ensku og þá er kannski til of mikils mælst að gera kröfur til bisnissmanna, þ.e. bóksalanna.


Framboð og eftirspurn

Bókabúðirnar eru fullar af enskum kiljum, af afar misjöfnum toga eins og gengur. Hvaða skilaboð felast í þessu til ungmenna, sem enn er þó reynt að láta læra einhver önnur tungumál? Halda menn að ekki séu tengsl á milli framboðs verslana og vörukaupa almennings; hvar liggur það fyrir að fólk vilji ekki líta við öðru erlendu lesefni en á enskri tungu? Hvað um spænsku, sem margir eru að læra, ungir sem aldnir? Ég tel ekki að Amazon.com komi í staðinn fyrir Laugaveg 18. Væri svo, hví skyldu menn þá yfirleitt vera að bjóða erlent efni til sölu? Bókaverslanir taka vissulega á móti pöntunum erlendra bóka, og reyna að gera sitt besta. Afgreiðslufresturinn er hins vegar mánuður og stundum lengri. Því er gott að hafa úr einhverju að velja á staðnum. Fjölbreytni er af hinu góða.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim