Hjörleifur Guttormsson 23. mars 2005

Endurskoðun stjórnarskrár og umhverfisréttur

Vinna að endurskoðun stjórnarskrár íslenska lýðveldisins er hafin. Stjórnmálaflokkarnir hafa orðið ásáttir um verkefnið þótt skoðanir kunni að vera eitthvað skiptar um á hvað beri að leggja mesta áherslu. Sjö manna nefnd hefur verið skipuð samkvæmt tilnefningum flokkanna til að hafa forystu um endurskoðunina, formaður hennar Jón Kristjánsson. Formenn þeirra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu taka allir sæti í nefndinni og sýnir það með öðru mat á þýðingu þeirrar vinnu sem framundan er. Sérstök sérfræðinganefnd undirbýr mál í hendur stjórnmálamannanna og færir í búning að vilja þeirra. Tilkynnt hefur verið að vinna nefndarinnar eigi að vera fyrir opnum tjöldum og þær heimildir sem nefndin mun styðjast við verði aðgengilegar almenningi. Þetta er gott upphaf og þess verður að vænta að almenningur notfæri sér það tækifæri til áhrifa sem í þessu felst. Stjórnarskrá er einskonar grundvallarsáttmáli þjóðríkisins og lögfesting hans sætir eðlilega tíðindum. Sem kunnugt er þarf Alþingi tvívegis að taka afstöðu til breytinga á stjórnarskrá og alþingiskosningar að fara fram á milli. Hér er því lagt upp í langa vegferð og skiptir þá úthaldið máli fyrir þá sem ætla sér hlut í niðurstöðu.

Umhverfisréttur ómissandi þáttur

Fjölmörg atriði koma til álita við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það málasvið sem hvergi kemur við sögu með beinum hætti í gildandi stjórnarskrá eru umhverfismál. Þar er um að ræða stærsta mál samtímans sem meira en nokkuð annað snertir heill og hamingju og raunar tilvist alls mannkyns horft til framtíðar. Á engu öðru sviði hefur orðið jafn ör þróun síðasta aldarþriðjung sem liðinn er frá því Stokkhálmsráðstefna Sameinuðu þjóðanna 1972 setti umhverfi mannsins á dagskrá alþjóðasamfélagsins. Tuttugu árum síðar fylgdi í kjölfarið Ríó-ráðsstefnan um umhverfi og þróun og tíu árum síðar ráðstefnan í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun. Ríó-yfirlýsingin lagði grunninn að réttarþróun á sviði umhverfismála og Ríó-sáttmálarnir um verndun loftslags og lífræðilegrar fjölbreytni hafa hlotið staðfestingu flestra þjóða, þar á meðal Íslendinga. Það er því eðlilegt að lykilhugtök á svið alþjóðlegs umhverfisréttar verði tekin upp í íslensku stjórnarskrána. Þarna er m.a. um að ræða sjálfbæra þróun, réttinn til heilnæms umhverfis og að náttúran njóti vafans ef líkur eru á skaðsemi (varúðarreglan). Dýpkun lýðræðishugtaksins með stjórnarskrárvörðum rétti almennings og almannasamtaka til áhrifa á ákvarðanir í umhverfismálum hlýtur einnig að verða á dagskrá svo og ákvæði um þjóðaratkvæði innan skilgreindra marka. Þetta síðartalda varðar að sjálfsögðu einnig önnur þýðingarmikil svið stjórnarskrárinnar.

Tækifæri til að bæta úr vanrækslu

Hart hefur verið tekist á hérlendis síðasta áratuginn um marga þætti er snúa að umhverfismálum. Ástæðan er vöntun á stefnumörkun og skýrri framtíðarsýn þeirra sem með völd hafa farið á þessu skeiði. Þetta hefur komið sárlega niður á brýnni lagasetningu um ýmsa þætti umhverfismála. Tvívegis á tíunda áratugnum var af hálfu umhverfisráðuneytisins gerð tilraun til að lögfesta meginreglur umhverfisréttar. Í fyrra skiptið á 117. löggjafarþingi (621. mál) og aftur á 122. löggjafarþingi 1997-98 (704. mál). Þótt þetta væru stjórnarfrumvörp var þeim ekki fylgt eftir. Sama sagan endurtók sig þegar staðfesta skyldi Árósarsamninginn svonefnda um rétt almennings og almannasamtaka til áhrifa í umhverfismálum. Tvívegis voru stjórnartillögur þar að lútandi dregnar til baka, að því er virðist af ótta ríkisstjórnar við að þær styrktu málstað náttúruverndar og gætu komið í veg fyrir tiltekin framkvæmdaáform. Slík málafylgja er sannarlega víti til að varast. Vilji menn treysta hér leikreglur með hliðstæðum hætti og gert hefur verið og unnið er að í grannlöndum okkar gefst gullið tækifæri við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þjóðin hefur þörf fyrir sammæli í stað afdrifaríkrar sundurþykkju þegar um er að ræða umhverfisvernd og ráðstöfun náttúruauðlinda.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim