Hjörleifur Guttormsson 24. janúar 2005

Forstjóri Alcoa í erfiðu hlutverki

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 23. janúar sem viðbrögð við pistli Tómasar Más Sigurðssonar forstjóra Alcoa á Íslandi í sama blaði tveim dögum áður undir fyrirsögninni ,,Hagsmunir umhverfisins í fyrirrúmi.”

Nýbakaður forstjóri Alcoa á Reyðarfirði er ekki í öfundsverðu hlutverki. Álverið sem Alcoa hyggst byggja á Reyðarfirði hangir í lausu lofti. Með dómi Héraðsdóms eru forsendur fyrir rekstri álversins að óbreyttu brostnar en framhaldið háð niðurstöðu Hæstaréttar. Dómurinn er sameiginlegt skipbrot stjórnvalda og Alcoa og byggir m.a. á afar óhagstæðum samanburði fyrir Alcoa hvað mengun áhrærir. Það er því eðlilegt að forstjórinn reyni að berja í brestina í grein í Morgunblaðinu 21. janúar sl. undir fyrirsögninni ,,Hagsmunir umhverfisins í fyrirrúmi.” Dapurlegt er hins vegar að sjá hvernig þar er hallað réttu máli eins og hér verður að vikið.

  1. Í greininni viðurkennir forstjóri Alcoa meiri mengun af brennisteini í andrúmsloft en fyrir lá af hálfu Norsk Hydro fyrir stærra álver og rafskautaverksmiðju. Munurinn á heildina litið er raunar ferfaldur Alcoa í óhag og 26-faldur ef miðað er við hvert framleitt áltonn. Ástæðan er sú að Alcoa ætlar að spara sér vothreinsibúnað.
  2. Lausnin á brennisteins-menguninni á að felast í tveimur 78 m háum skorsteinum við verksmiðjunna og með því ,,... verður styrkur brennisteins í andrúmslofti umhverfis álverið hins vegar ekki meiri en samkvæmt fyrri áætlunum og umhverfisáhrifin því ekki meiri” segir forstjórinn. Háir verksmiðjuskorsteinar eru tákn 19. aldar aðferða til að reyna að losna við skaðlega mengun burt af verksmiðjulóð. Á svonefndu þynningarsvæði verksmiðjunnar er föst búseta þó bönnuð af heilsufarsástæðum og jarðir sem þar eru fyrir lagðar í eyði. En einum kílómetra inn af þynningarsvæðinu er þéttbýlið á Reyðarfirði og við ytri mörkin tekur við friðlýst útivistarsvæði í Hólmanesi. Þangað mun mengunin óhjákvæmilega berast. Veðurstofa Íslands hefur dregið upp mynd af erfiðum aðstæðum í Reyðarfirði, hringrás haf- og landgolu innfjarðar. Í niðurstöðum sínum haustið 2003 segir Veðurstofan: ,,Sama loftið gæti því borist tvisvar eða jafnvel þrisvar yfir álverið og Búðareyri á sama degi. Gæti það valdið aukinni skammtíma mengun á Búðareyri, þótt veruleg þynning verði á mengunarefnum á hinni löngu hringrás loftsins innan fjarðarsins ... Hættulegri varðandi skammtímamengun eru þó sennilega miklir hægviðriskaflar með breytilegri vindátt. Sama loftið gæti þá stöku sinnum borist margsinnis yfir álverið og svo yfir Búðareyri”. - Við svona aðstæður er þeim ætlað að búa næstu áratugina sem setjast að á Reyðarfirði.
  3. Lítum þá á flúor-mengunina. Um hana segir forstjórinn: ,,heildarútblástur flúors (loftkennt og ryk) verður sá sami ...”. - Loftborið flúor er það sem hefur skaðlegust áhrif á gróður og þar er samanburðurinn Alcoa stórum í óhag, þrátt fyrir minni verksmiðju, um 80 tonn á ári hjá Alcoa á móti 55 tonnum í mati Norsk Hydro. Miðað við framleitt áltonn hefði losun loftborins flúoríðs hjá Norsk Hydro numið 130 grömmum en yrði 245 grömm hjá Alcoa eða hátt í helmingi meiri. Þessi aukna flúor-mengun Alcoa leiddi til þess að eftir að athugasemdafresti vegna auglýsts starfsleyfis fyrirtækisins var lokið, fimm dögum áður en Umhverfisstofnun átti að taka afstöðu, settu lögmenn Alcoa fram kröfu um að fá að losa 50% meira af loftbornu flúoríði á vaxtartíma gróðurs en ráð var fyrir gert í mati á umhverfisáhrifum fyrir Norsk Hydro. Undan þessari kröfu létu stjórnvöld og færðu með því út áður ákveðin mengunarmörk. Lögmenn Alcoa lýstu þýðingu þessa fyrir fyrirtækið afar sterkum orðum í bréfi til Umhverfisstofnunar 7. mars 2003. Um þessa stórauknu flúormengun kýs Alcoa-forstjórinn að þegja, en vinnubrögðin eru á ábyrgð Umhverfisstofnunar og þáverandi umhverfisráðherra.
  4. ,,útblástur gróðurhúslofttegunda minni ...” segir forstjórinn. Það á ekki við um losun koldíoxíðs á framleitt tonn en þar áætlar Alcoa losunina hátt í 10% meiri en lá fyrir í mati Norsk Hydro.
  5. Forstjórinn víkur að ,,ítarlegri samanburðarskýrslu” sem Alcoa lagði fyrir Skipulagsstofnun í nóvember 2002 “... til að fá úr því skorið hvort gera þyrfti nýtt mat á umhverfisáhrifum ...” Sú skýrsla var annmörkum háð. Um losun brennisteinsdíosxíðs stendur þar stutt og laggott: “Ákveðið síðar”! Þegar Skipulagsstofnun varð við ósk Alcoa um að sleppa fyrirtækinu við mat á umhverfisáhrifum lágu ekki fyrir ,,niðurstöður loftdreifingarreikninga” en boðað að þeir kæmu fljótlega. Þær niðurstöður voru aldrei kynntar.
  6. ,,Við undirbúning að starfsemi álvers Alcoa Fjarðaráls hafa aðstandendur þess í einu og öllu farið eftir þeim leiðum sem lög um mat á umhverfisáhrifum segja til um og fylgt ákvörðunum stjórnvalda.” Fyrri staðhæfingin er röng að mati Héraðsdóms Reykjavíkur, sú síðari rétt en lögleysa eins og ljóst er af dómsniðurstöðu.

Óskandi er að forstjóri Alcoa horfist í augu við þau gögn sem fyrirtækið hefur sjálft lagt fram um mengun frá áformaðri verksmiðju sinni á Reyðarfirði í stað þess að fela sig undir fallegum en röngum fyrirsögnum. Slíkt er skammgóður vermir miðað við efni máls og breytist fyrr en varir í háðsmerki í ljósi staðreynda


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim