Hjörleifur Guttormsson 24. september 2005

Sameining sveitarfélaga á kostnað lýðræðis

Þann 8. október næstkomandi verður efnt til kosninga í 62 sveitarfélögum með því yfirlýsta markmiði að fækka sveitarfélögum um meira en helming, úr 95 í 42. Fullyrt er að ekki séu aðrir kostir vænlegri til að “efla sveitarstjórnarstigið” en megindriffjöður á bak við er ríkisvaldið með félagamálaráðherra í fararbroddi. Hann skipaði “sameiningarnefnd” sem fékk það vegarnesti að standa fyrir tillögugerð um umrædda fækkun sveitarfélaga. Valdboðið í þessu afdrifaríka máli kom þannig að ofan en ekki frá einstökum sveitarfélögum. Ríkið lagði bæði til fé og mannafla til að reka áróður fyrir þessari patentlausn á meintum vanda sveitarfélaga vítt og breitt um landið, en nú eftir á reynir ráðherrann að gera sem minnst úr sínum hlut og aðrir eru látnir taka við keyrinu.

Samræmd kollsteypa

Ekki er ástæða til að amast við breytingum á sveitarstjórnarstiginu ef eðlilega er að þeim staðið og þær endurspegla vilja fólks á viðkomandi svæðum. Sveitarstjórnarstigið stendur næst fólkinu í viðkomandi byggðum og mikilvægt er að það þróist í góðri sátt og þannig að íbúarnir séu þátttakendur í ákvörðunum. Þessu er ekki að heilsa í þeirri samræmdu kollsteypu sem nú er undirbúin. Kosningar eiga að vísu að skera úr, en skipulag þeirra er með þeim hætti að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins væri fullsæmd af fyrirkomulaginu. Falli atkvæði meirihluta manna í einu sveitarfélagi gegn sameiningu skulu þeir hinir sömu eiga kost á að endurskoða hug sinn að sex viknum liðnum! Öll sund til baka eru hins vegar tryggilega lokuð eins og Svarfdælingar hafa nýlega mátt reyna.

Hagræðing og hagkvæmni ráða för

Þessi sameiningarkollsteypa er fyrst og fremst rekin á fjárhagslegum forsendum og undir þeim formerkjum að viðkomandi sveitarfélög “væru nægilega burðug til að sinna lögbundnum verkefnum ÁN SAMVINNU VIÐ ÖNNUR SVEITARFÉLÖG” eins og segir í nýju dreifiriti Sameiningarnefndar á miðsvæði Austfjarða. Samvinna sveitarfélaga um skyld málefni er samkvæmt þessum boðskap óæskileg. Alþekkt er að hagkvæmnirök leiða þá sem á þau trúa út í að leita lausna í stöðugt stærri og stærri einingum. Í sveitarstjórnarmálum verður slíkt hins vegar á kostnað lýðræðis, þ.e. yfirsýnar fólks yfir þau málefni sem næst því standa og tengsla við þá fulltrúa sem það kýs til setu í sveitarstjórnum. Vaxandi skrifræði og ópersónulegt embættismannavald er þá skammt undan í stað lifandi samskipta í nærumhverfi.

Hallarbylting í sumarleyfum

Á Austurlandi sem annars staðar eru tryppin nú rekin hratt. Sjö ár eru frá því að stofnað var sveitarfélagið Fjarðabyggð með samruna Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Talsvert vantar á að festa hafi skapast í málefnum þess sveitarfélags og margir sjá enn eftir fyrra umhverfi. Vandinn tengist ekki síst því að um er að ræða þrjá þéttbýlisstaði sem ekki ná að mynda heildstætt samfélag nema með markvissu og þolinmóðu ræktunarstarfi. Nú á í einu vetfangi að bæta við þremur byggðarlögum, hverju með sinn byggðakjarna. Samstarfsnefnd og málefnahópar fulltrúa frá sveitarfélögum á þessu svæði höfðu aðeins þrjá sumarmánuði, júní til ágúst 2005, til að bera saman bækur sínar um tillögur að málefnaskrá sem nú skal kjósa um innan hálfs mánaðar. Bæklingur “sameiningarnefndarinnar” sem dreift hefur verið ber skýr merki þessa óðagots og er lítið annað en fyrirsagnir án innihalds. Ekki er þar fjölyrt um hvernig tryggja eigi lýðræðislega aðkomu íbúa byggðarlaganna að eigin málefnum.
Sem rök fyrir sameiningu má m.a. lesa í bæklingnum undir yfirskriftinni Velferð íbúa: “Þá auðveldar það störf á félagsþjónustusviði í stærri sveitarfélögum að nálægð starfsmanna og þeirra sem þurfa að nota þjónustuna er EKKI EINS MIKIL og í smærri sveitarfélögum.” (s. 5, leturbr. HG) Það er jafn gott að smælingjarnir séu ekki að trufla vitringana sem að úrlausnum vinna!
Við annan tón kveður þegar kemur að fjárfestum: “Nýtt sveitarfélag komi eins og frekast er kostur til móts við þær kröfur sem fjárfestar og fyrirtæki gera til aðstöðu og þjónustu á þess vegum.” (s. 11) Til að þetta gangi eftir er auðvitað handhægt að hafa höfuðstöðvar stjórnsýslu á Reyðarfirði, eins og boðað er í bæklingnum, þ.e. undir verksmiðjuvegg þess atvinnurekenda sem hvort eð er mun verða hæstráðandi í Fjarðabyggð.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim