Hjörleifur Guttormsson 25. febrúar 2005

Landsvirkjun: Viðbrögð stjórnarformanns og forstjóra

Á meðan stjórn Landsvirkjunar er að fara yfir ný gögn vísindamanna um jarðfræðilegar aðstæður við Kárahnjúkavirkjun hafa Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður og Friðrik Sófusson forstjóri tjáð sig um málið í fjölmiðlum og segja allt í stakasta lagi: “Hönnunarvinnu breytt eftir því sem þörf þykir meðan á framkvæmdum stendur” segir stjórnarformaður. “Menn laga hönnun stíflunnar til eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram” segir forstjórinn.

Grundvallarupplýsingar eru enn að berast um jarðfræðilegar aðstæður við Kárahnjúka en ábyrgðarmenn Landsvirkjunar láta sem þeim sé í lófa lagið að breyta hönnun mannvirkja sem þegar eru komin úr jörðu eftir hendinni. Það gleymist líka í frásögnum af málinu að um þrjár stíflur er að ræða, allar stórar á íslenskan mælikvarða. Hvort skyldi mega sín meira ef til kastanna kemur kraftar í iðrum jarðar á eldvirku svæði eða mannanna verk? - HG

Frásögn RÚV í fréttum 23. febrúar kl 18 og viðtal við stjórnarformann (fréttamaður Þórhallur Jósefsson):

Stjórn Landsvirkjunar kemur saman á næstunni og fer yfir nýjar álitsgerðir vísindamanna vegna aðstæðna í jörðu undir Kárahnjúkastíflu og Hálslóni. Í síðustu viku kom tugur jarðvísindamanna og verkfræðinga á fund stjórnar Landsvirkjunar sem mun hafa verið boðaður sérstaklega til að fjalla um þetta mál. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar segir sitt mat að ekki sé að búast við verulegum breytingum á framkvæmdinni vegna þessa.

Sumir þessara vísindamanna og sérfræðinga sem boðaðir voru á fund stjórnarinnar eru starfsmenn Landsvirkjunar en aðrir ekki. Skýrslur þeirra eru væntanlegar í næstu viku og því er á þessari stundu óljóst hvort endurskoða verður að einhverju og þá hve miklu leyti hönnun stíflumannvirkja við Kárahnjúka og Hálslóns. Þetta eru umfangsmestu og dýrustu framkvæmdir Íslandssögunnar og segja heimildir fréttastofu að því sé ekki að undra að menn taki alvarlega þegar frávik koma í ljós. Um er að ræða sprungur sem stafa frá sprungusveimi í Kverkfjöllum og reyndust vera nær lóninu og Kárahnjúkastíflu en áður hafði verið talið. Á stjórnarfundinum á föstudag var meðal annars greint frá því að gerð hefði verið áætlun um aðgerðir vegna þessa og að þær ættu að rúmast innan þess kostnaðarramma sem gerður hefði verið fyrir framkvæmdirnar. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður segir tilefni fundarins á föstudag hafa verið að fara yfir athuganir sem gerðar hafa verið á virkjunarsvæðinu síðan í haust.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar:

Við stíflugerð sem þessa þá er byggt þegar farið er af stað á þeim, þeirri bestu vitneskju sem menn hafa. Síðan meðan á framkvæmdinni stendur þá er haldið áfram rannsóknum og síðan er þá hönnunarvinnu breytt eftir því sem að þörf þykir meðan á framkvæmdum stendur. Og þarna var stjórnin að fara yfir þessa þætti með jarðvísindamönnum og jarðeðlisfræðingum, jarðskjálftafræðingum og við bíðum síðan eftir skýrslu sem við eigum von á í næstu viku um niðurstöður þeirra athuganna.

Og Jóhannes telur að málið sé ekki stórvægilegt og valdi ekki umtalsverðri röskun.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson:

Á þessum fundi að mínu mati kom ekkert fram sem að bendir til þess að þarna verði neinar verulegar breytingar á.

Frétt Morgunblaðsins 25. febrúar og viðtal við forstjóra Landsvirkjunar undir fyrirsögninni:

Meiri áhyggjur af tímaramma en sprungum

Þrátt fyrir að nýjar upplýsingar liggi fyrir um að sprungusveimur úr megineldstöðinni í Kverkfjöllum liggi nær Kárahnjúkavirkjun en áður var talið hafa forsvarsmenn Landsvirkjunar ekki af því áhyggjur og segja mannvirkjahönnunina lagaða jafnóðum að nýjustu upplýsingum.

Stjórn Landsvirkjunar fór á síðasta fundi sínum yfir stöðu mála við Kárahnjúkavirkjun og kynntu jarðvísindamenn og verkfræðingar stjórninni upplýsingar vegna jarðfræðilegra álitaþátta í undirstöðu Kárahnjúkavirkjunar og Hálslóns.

Friðrik Sófusson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í samtali við Morgunblaðið að eins og í öllum framkvæmdum Landsvirkjunar væri meðan á framkvæmdum stæði við Kárahnjúkavirkjun unnið úr nýjustu upplýsingum og verkið aðlagað þeim.

“Það hefur alltaf legið fyrir að það sé sprunga sem fer þarna í gegn og er ekkert nýtt,”

sagði Friðrik.

“Þessi tiltekni stjórnarfundur var haldinn að frumkvæði eins stjórnarmanns. Á fundinum var farið yfir málin sem eru í ákveðnum farvegi. Menn laga hönnun stíflunnar til eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram. Það er sífellt unnið að rannsóknum á staðnum og verður áfram. Ef nýjar upplýsingar koma fram, eins og t.d. þegar komið var niður á stíflubotninn, þarf auðvitað að breyta hönnun samkvæmt því. Stíflan er byggð með tilliti til þeirrar áraunar sem hún þarf að þola. Þessar rannsóknir eru gerðar í áföngum og við eigum von á skýrslu frá sérfræðingum, þar á meðal jarðskjálftafræðingum, á næstu vikum og tekið verður tillit til þeirra niðurstaðna. Svona hönnunarbreytingar voru teknar með í reikninginn þegar menn settu upp kostnaðaráætlun.”

Friðrik segir að Landsvirkjun þurfi þó að hafa auga með tímaramma virkjunarinnar þar sem ítalski verktakinn eigi eftir að vinna upp tafir og einhvern tíma geti tekið að treysta mannvirkið frekar vegna sprungunnar. Hann telur þó ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu nú þar sem gott tíðarfar hefur lagst á árar með verktakanum.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim