Frá aðalfundi NAUST 2005 27. ágúst
2005
Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) héldu
aðalfund sinn í Egilsbúð Neskaupstað laugardaginn
27. ágúst 2005. Fundurinn var vel sóttur og voru
líflegar umræður um marga þætti umhverfismála
í fjórðungnum og stöðu þeirra meðal
þjóðarinnar.
Stjórn Náttúruverndarsamtaka Austurlands skipa nú:
Ulla Pedersen Skaftafelli formaður, Ólafía Gísladóttir
Höfn gjaldkeri, Sverrir Scheving Thorsteinsson Höfn ritari,
Björn G. Arnarson og Guðný Svavarsdóttir Höfn
meðstjórnendur.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktanir:
Um Fjarðarselsvirkjun
Aðalfundur NAUST 2005 vekur athygli á þeirri tilraun
sem ,,Íslensk orkuvirkjun“ hyggst gera með nýrri
þrepavirkjun Fjarðarár í Seyðisfirði.
Framkvæmdaraðilinn telur sig reyna að samþætta
nýtingu til raforkuframleiðslu við verndun árinnar
og fossaskrúðs hennar. Skipulagsstofnun hefur úrskurðað
að virkjunin þurfi ekki að fara í umhverfismat. Fundurinn
telur að skilyrðislaust eigi að gefa almenningi kost á
að kynna sér framkvæmdina og gera athugasemdir áður
en ákvarðanir eru teknar. Vakin er athygli á því
að Fjarðardalur og Fjarðarárfossar eru náttúrudjásn
og eins konar anddyri landsins fyrir mikinn fjölda ferðalanga,
eins og samgöngum er nú háttað, auk þess
sem þar eru minjar um einhverja elstu vegagerð landsins. Því
veltur á miklu að vel takist til með slíka virkjun
og um hana sé almenn samstaða.
Um friðlýsingu Gerpissvæðisins
Aðalfundur NAUST 2005 lýsir ánægju yfir að
vinna við friðlýsingu Gerpissvæðisins er komin
á rekspöl og hvetur til að málinu verði sem
fyrst komið í höfn í góðri samvinnu
við landeigendur og aðra rétthafa.
Um Vatnajökulsþjóðgarð
Aðalfundur NAUST 2005 fagnar þeim tillögum sem fyrir liggja
um Vatnajökulsþjóðgarð sem nái yfir stór
svæði umhverfis jökulinn, þar með talið allt
vatnasvið Jökulsár á Fjöllum. Slík
friðlýsing tæki m.a. til fjalla í Austur-Skaftafellssýslu,
Sæfellssvæðisins, Krepputungu og Kverkfjalla en lengi
hefur verið á dagskrá NAUST að tryggja verndun þessara
svæða.
Um friðlýsingu við Borgarfjörð
eystra
Aðalfundur NAUST hvetur til að unnið verði náttúruverndarskipulag
fyrir Borgarfjarðarhrepp og aðliggjandi fjalllendi í Hjaltastaðaþinghá,
að meðtöldum Dyrfjöllum og Stórurð. Á
grundvelli slíks skipulags verði teknar nánari ákvarðanir
um verndarflokkun samkvæmt náttúruverndarlögum
með aðild ríkis og hlutaðeigandi sveitarfélaga.
Um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi
Aðalfundur NAUST 2005 lýsir áhyggjum yfir þeirri
gífurlegu náttúrufarsröskun sem fylgir yfirstandandi
stóriðjuframkvæmdum í byggðum og óbyggðum
á Austurlandi. Hvetur fundurinn alla hlutaðeigandi til ítrustu
aðgæslu og að tryggja þær mótvægisaðgerðir
sem dregið geti sem frekast má verða úr neikvæðum
afleiðingum framkvæmdanna í bráð og lengd.
Jafnframt ber að afla með rannsóknum upplýsinga
um ríkjandi ástand einstakra náttúrufarsþátta
áður en áhrifa framkvæmdanna fer að gæta,
m.a. varðandi lífríki Lagarfljóts.
Um mat á umhverfisáhrifum álverksmiðju
Alcoa
Aðalfundur NAUST 2005 fagnar dómsniðurstöðu Hæstaréttar
frá 9. júní 2005 um að meta beri umhverfisáhrif
álversmiðju Alcoa á Reyðarfirði. Jákvæð
niðurstaða úr slíku mati er forsenda framkvæmda
við verksmiðjuna og leyfisveitinga fyrir þeim. Með því
matsferli sem nú stendur yfir gefst almenningi tækifæri
til að láta í ljós álit sitt á
framkvæmdinni og einstökum þáttum hennar. Fundurinn
leggur áherslu á að gætt sé ítrustu
varúðar við losum mengandi efna frá álverksmiðjunni,
m.a. með því að settur verði upp vothreinsibúnaður
ásamt sérstökum búnaði til hreinsunar á
PAH efnum til viðbótar við þurrhreinsun útblásturs
frá álverinu.
Um friðlýsingar
Aðalfundur NAUST 2005 varar eindregið við því
að hróflað sé við friðlýsingum landsvæða
eins og m.a. gerðist við Kringilsárrana. Skorar fundurinn
á stjórnvöld að láta það verða
einsdæmi.
Um endurskoðun stjórnarskrár og umhverfisrétt
Aðalfundur NAUST 2005 hvetur til að við yfirstandandi endurskoðun
á stjórnarskrá lýðveldisins verði
meginreglur umhverfisréttar teknar inn í stjórnarskrána
og tryggður fyllsti réttur almennings til áhrifa á
ákvarðanir í umhverfismálum.
Hjörleifur Guttormsson |