Hjörleifur Guttormsson 28. júní 2005

Alcoa undirbýr mat á umhverfisáhrifum

Frestur vegna draga að matsáætlun er veittur til 11. júlí

Seint og um síðir er Alcoa nú að ráðast í mat á umhverfisáhrifum vegna verksmiðju sinnar á Reyðarfirði. Fyrirtækið er með því að bregðast við dómi Hæstaréttar frá 9. júní sl. þar sem fyrri ákvarðnir um að undanþiggja verksmiðjuna mati voru dæmdar ólögmætar. Á þeim lögbrotum bera íslensk stjórnvöld höfuðábyrgð með umhverfisráðuneytið í broddi fylkingar. Nú bregst Alcoa réttilega við dómi Hæstaréttar en á sama tíma neita íslensk stjórnvöld að horfast í augu við eigin afglöp og afturkalla starfsleyfi og framkvæmdaleyfi sem veitt hafa verið og eiga sér enga lagastoð.

Í eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum (nr. 106/2000) segir í 16. gr.:

“Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og skal leyfisveitandi taka tillit til hans. ... ”

Hliðstæð ákvæði eru í breyttum lögum sem Alþingi afgreidd sl. vor og taka gildi 1. október næstkomandi. Þar segir:

“Óheimilt er að gefa út leyfi til framkvæmdar skv. 5. eða 6. gr. fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd skv. 6. gr. sé ekki matsskyld.”

Samkvæmt þessu eru engin gild leyfi fyrir hendi til áframhaldandi framkvæmda við álver Alcoa á Reyðarfirði.

Föstudaginn 24. júní sl. auglýsti Alcoa Fjarðarál fyrsta skref að matsferli fyrirtækisins sem er kynning á drögum að tillögu að matsáætlun fyrir álverið. Drögin eru kynnt á vefsíðunni http://www.alcoa is . Eru samtök og almenningur hvött til að koma ábendingum og athugasemdum á framfæri við þá sem vinna að matinu fyrir Alcoa fram til 11. júlí næstkomandi, m. a. á netfangið haukur@hönnun.is Í framhaldi af þessu mun Alcoa væntanlega leggja fyrir Skipulagsstofnun tillögu sína að matsáætlun og ber framkvæmdaraðila að kynna hana “umsagnaraðilum og almenningi”. Mikilvægt er hins vegar að þeir sem ætla að láta sig matsferlið varða komi með áherslur sínar og ábendingar við auglýst drög sem fyrst eða fyrir 11. júlí n.k.

Lagaramminn um mat á umhverfisáhrifum er að taka stakkaskiptum, þar eð breytt lög um mat taka gildi 1. október næstkomandi. Matsáætlanir sem fram eru settar fyrir þann tíma hljóta þó að fá meðhöndlun samkvæmt lögunum frá 2000 sem gilda fram á haust, en í ákvæði til bráðabirgða í breyttum lögum (17. gr.) segir: “Þegar matsskýrsla hefur verið send Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga þessara er heimilt að ljúka mati á umhverfisáhrifum samkvæmt þeirri málsmeðferð sem gildir samkvæmt eldri lögum”. Sama á síðan að gilda um leyfisveitingar.

Allt sem snertir framkvæmd við álverið getur að sjálfsögðu verið undir í því matsferli sem nú er hafið. Athyglin mun m. a. beinast að mengunarvörnum álversins, ekki síst kröfunni um að auk þurrhreinsibúnaðar verði komið upp vothreinsibúnaði til að draga úr losun mengandi efna í andrúmsloft. Öryggi hráefnisflutninga og afurða til og frá álverinu hljóta einnig að koma til skoðunar vegna mengunarhættu svo og ýmsir félagslegir þættir er lúta að starfsrækslu þess.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim