Hjörleifur Guttormsson 30. maí 2005

Sitt af hverju í sumarbyrjun

Vorið hefur verið annasamt hjá undirrituðum sem oft áður, ritstörf fyrirferðarmikil og heimasíðan goldið þess sem sjá má. Í lok apríl kom út Árbók Ferðafélags Íslands 2005 og er hún nú að berast félagsmönnum. Mér heyrist bókin fá þokkalegar viðtökur en hér látum við kynningu útgefandans tala sínu máli.

Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar

Á heimasíðu Ferðafélagsins lýsa Ólafur Örn Haraldsson forseti félagsins og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri þess árbókinni þannig:

Árbókin að þessu sinni nefnist Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar og hefur Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur í Neskaupstað ritað hana. Í bókinni eru birtar 350 litljósmyndir og hefur Hjörleifur tekið þær nær allar. Hið myndvæna landslag Austfjarða kemur glöggt fram í myndunum; einnig eru 12 mynda syrpur úr hverjum þéttbýlisstað svæðisins: Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað og Seyðisfirði. Þá eru 20 gamlar ljósmyndir svarthvítar af mannvirkjum og merkismönnum fyrri tíðar.
Guðmundur Ó. Ingvarsson landfræðingur teiknar staðfræðikort bókarinnar, 11 talsins: þrjú heilsíðukort af Reyðarfirði og nágrenni, tvö af Norðfirði og eyðibyggðum Barðsnes- og Gerpissvæðis, tvö af Mjóafirði og tvö af Seyðisfirði; einnig eru minni kort af Hólmanesi og Seley. Auk þessa eru 13 jarðfræðikort og skýringaruppdrættir sem Guðmundur hefur unnið eftir frumgögnum annarra, 5 þeirra stór en hin um hálf síða hvert. Í þessum kortum og teikningum felast geysi miklar upplýsingar sem ekki hafa verið almenningi aðgengilegar, svo sem um berggrunninn, rof hans og aðra landmótun, myndun geislasteina, jökulmyndun og jökulleifar, aðstæður í Fáskrúðsfjarðargöngum. Í landlýsingu sinni nefnir höfundur alla sveitabæi sem byggðir hafa verið á svæðinu og gerir grein fyrir því hvernig þéttbýli hefur myndast og segir helstu drætti atvinnusögunnar. Hann lýsir staðháttum, staðsetur öll helstu örnefni og segir þann hluta þjóðarsögunnar sem gerst hefur á þessum austasta hluta landsins. Inn í hið samfellda mál landlýsingarinnar skýtur höfundur fjölmörgum stuttum klausum um afmörkuð efni sögu, mannlífs og náttúrufræða .

Þeir sem eignast vilja bókina með fyrra fallinu gerðu rétt í að setja sig í samband við skrifstofu Ferðafélagsins, Mörkinni 6, Reykjavík, sími 568 2533.

Þungt högg gegn samruna ESB

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi þar sem 55% kjósenda höfnuðu tillögu að stjórnarskrá Evrópusambandsins eru stórtíðindi. Stjórnarskránni var ætlað að skapa ramma um 25 þjóða ríkjasamband og greiða götu frekari samruna í átt að ríkisheild. Fyrrverandi forseti Frakka, Giscard d’Estaing, hafði forystu um gerð stjórnarskrárinnar fyrir hönd ESB. Chirac núverandi forseti Frakklands ásamt flestum forystumönnum í viðskiptalífi og stjórnmálum báðum megin við miðjuna fóru hamförum fyrir kosningarnar til að þrýsta á samþykki franskra kjósenda. Samt varð niðurstaðan skírt NEI. Ástæðurnar eru margþættar. Almenningur í löndum Evrópusambandsins er farinn að skynja betur en áður að ESB er öðru fremur tæki stórfjármagns og fjölþjóðafyrirtækja til að ná sínum markmiðum. Hagur fjöldans er í öðru sæti og lýðræðið rekur lestina.
Eftir þessa niðurstöðu og hugsanlega enn verri útreið stjórnarskrártillögunnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í Hollandi eftir fáa daga er loku fyrir það skotið að þessu plaggi verði komið í höfn eftir formúlunni HÚN SKAL NÚ SAMT Í GEGN. Í kjölfarið munu fjölmörg sár ýfast upp og gera skrifræðisbákninu í Brussel erfitt fyrir.að halda utan um stækkað Evrópusamband og að minnka vægi þjóðríkja og þjóðþinga aðildarlanda eins og til stóð.
Hér á landi er niðurstaðan áfall fyrir þá stjórnmálaflokka, Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn, sem hvað fastast hafa knúið á um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Segja má að aðildarumsókn sé kjarninn í stefnu Samfylkingarinnar og í raun eini skýri burðarásinn í stefnu þess flokks. Samfylkingin lét flokksmenn sína í fyrra kjósa sérstaklega um stefnuna í þessu máli og gerði þetta þannig að kjölfestu flokksins. Nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, klauf á sínum tíma Kvennalistann vegna ákafa síns við að stuðla að inngöngu í Evrópusambandið. Svipuðu máli gegnir um formann Framsóknar sem reynt hefur leynt og ljóst í heilan áratug að fá flokk sinn til að skrifa upp á aðildarumsókn. Þessir aðilar ásamt iðnrekendum og skrifstofuliði ASÍ verða nú að stilla kompásana upp á nýtt og það verður ekki auðvelt eftir umpólun segulskauta í fyrirheitna landinu.

Kollafjarðarstefna Sjálfstæðismanna í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur fundið flotholt sem á að auðvelda honum að ná völdum í borginni í sveitarstjórnarkosningum að ári. Þetta eru skipulagshugmyndir um 30 þúsund manna byggð á uppfyllingum út í Kollafjörð og í Engey, Akurey og Viðey. Hugmyndir þessar taka sig ekki illa út á mynd í dagblöðunum en óvíst er að þær standist nánari skoðun. Ein spurning hlýtur að blasa við þeim sem hugsa um framtíðarbyggð í Reykjavík: HÆKKUN SJÁVARBORÐS. Hvernig fer það saman að ætla að búa til byggingarland með uppfyllingum í sjó fram og á útskerjum í ljósi þess að miklar líkur eru á stórfelldri hækkun sjávarborðs í tíð næstu kynslóða? Þetta er sú spurning sem tillögusmiðir í skipulagsmálum verða að svara fyrst af öllu. Ætli verði ekki við nóg að fást að verja fyrir sjávargangi þá byggð sem þegar er risin á lægstu svæðunum í Reykjavík? Inn í þessa umræðu þarf einnig að draga tryggingarfélög og fá við því skýr svör með hvaða skilmálum þau muni taka þátt í glímunni við Ægi í auknu veldi. Hér ætla menn væntanlega ekki að tjalda til einnar nætur því að borg verður að byggja með árþúsund í huga en ekki eitt kjörtímabil.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim