Hjörleifur Guttormsson 31. desember 2005

Upprifjun um áramót 2005-2006

Náttúruhamfarir og misjöfn viðbrögð

Um jólaleytið í fyrra æddi Tsunami-flóðbylgja af völdum jarðskjálfta með ógnarafli yfir strendur landa við Indlandshaf. Talið er að nærri 300 þúsund manns hafi farist. Viðbrögð stjórnvalda og almennings víða um heim voru skjót og öflug og mikið fé safnaðist til hjálparstarfs og endurreisnar. Síðsumars og í haust gekk einn fellibylur af öðrum yfir suðurströnd Bandaríkjanna og sjávarflóð færðu borgina New Orleans og nágrenni undir vatn. Bandaríkjastjórn brást seint og illa við og skipulag björgunarstarfa þarlendis reyndist meira og minna í molum. Tollur í mannslífum var talinn nema um eittþúsund og framtíð byggðar á svæðinu er í óvissu. Litlu síðar riðu yfir jarðskjálftar á Indlandsskaga með skelfilegum afleiðingum fyrir afskekktar byggðir og milljónir manna í fjallahéruðum Pakistan og Kasmír. Fjársöfnun til hjálparstarfa skilaði aðeins broti af því sem Sameinuðu þjóðirnar kölluðu eftir og líf fjölda fólks hangir á bláþræði vegna kulda og matarskorts. – Atburðir sem þessir gera ekki boð á undan sér en eru að hluta til fyrirsjáanlegir. Mikið vantar hins vegar á víða um heim, að tekið sé tillit til hættu af náttúruhamförum við skipulag byggðar og aðra mannvirkjagerð, Ísland ekki undanskilið. Ofanflóð, eldgos og jarðskjálftar hafa greitt sín högg hérlendis á síðustu áratugum og enn vantar mikið á að tekið sé nægilegt tillit til slíkra hamfara í skipulagi og mannvirkjagerð

Loftslagsbreytingar og norðurslóðir

Umræða um loftslagsbreytingar af mannavöldum var á árinu 2005 meiri og almennari en áður. Vísbendingar sem fram komu um mengun af notkun jarðefnaeldsneytis fyrir röskum aldarþriðjungi eru nú af flestum taldar staðreynd. Bandaríkjastjórn hefur verið í forustu þeirra sem barið hafa hausnum við steininn og fást ekki enn til að gerast aðilar að Kyótóbókuninni. Tregða nokkurra ríkja heims við að horfast í augu við afleiðingar af mengun lofthjúpsins kom berlega í ljós á ársþingi loftslagssamnings SÞ nýlega. Eftir mikið þjark náðist þó samkomulag ríkja heims um að ganga til viðræðna um hvað við skuli taka eftir árið 2012. Geigvænlegar afleiðingar geta hlotist af þeirri mengun sem þegar er orðin, að ekki sé talað um áframhaldandi aukningu hennar. Verkefni næstu áratuga er því að skera niður árlega losun gróðurhúsalofttegunda um allt að helming frá því sem nú er. Aldrei hefur mannkynið staðið frammi fyrir slíkri prófraun og óvissan um árangur er að sama skapi mikil.
Á norðurslóðum gætir nú hlýnunar í margfalt ríkari mæli en sunnar á hnettinum. Ís í norðurhöfum rýrnar ört, jöklar dragast saman, sífreri á túndrum hopar og við það losnar mikið af mýragasi (metan) úr læðingi. Magn ferskvatns eykst og það blandast sjávarstraumum og berst suður á bóginn. Getur það haft afdrifarík áhrif á sjávarstrauma og dregið úr krafti Golfstraumsins. Valda líkur á slíkri atburðarás auknum áhyggjum í Evrópu og af þeim sökum ákvað ESB á árinu að verja stórauknu fjármagni til rannsókna á samhengi loftslags, hlýnunar og sjávarstrauma á norðurslóðum. Ísland stendur uppi sem svartur sauður í loftslagsmálum eftir að hafa skilyrt aðild sína að Kyótóbókuninni við stórfelldan gjafakvóta til stóriðjuuppbyggingar. Áætlun um raunhæfar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúslofts hérlendis er áfram í skötulíki og framundan er stórfelld aukning á losun vegna stóriðjuuppbyggingar.

Álitshnekkir Bandaríkjanna

Á árinu 2005 biðu Bandaríkin og forysta þeirra meiri álitshnekki á alþjóðavettvangi en dæmi eru um frá lokum heimsstyrjaldar fyrir 60 árum. Meginástæðurnar eru herförin gegn Írak, neikvæð afstaða í loftslagsmálum, gróf mannréttindabrot og sjálfbirgingsháttur gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum. Dyggustu fylgiríki Bandaríkjanna hafa flest gefist upp við að halda uppi vörnum fyrir framferði þeirra og stefnu. Slíkt er erfitt, m.a. eftir að Powell fyrrum utanríkisráðherra hefur viðurkennt að hafa beitt fölsunum og lygum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að réttlæta innrásina í Írak. Samúð og stuðningur sem Bandaríkin nutu fyrst eftir árásirnar á New York og Washington í september 2001 hafa gufað upp á alþjóðavettvangi. Það er helst í ríkjum Austur-Evrópu sem áður lutu boðvaldi Sovétríkjanna að stjórnvöld sýna fylgispekt við Bush og stefnu hans.
En það er fleira en stefnan á alþjóðavettvangi sem veikt hefur tiltrú á Bandaríkjaforseta og þeim öflum sem hann reiðir sig mest á innanlands. Þar fara fremstir talsmenn olíuiðnaðar og hergagnaframleiðslu og kreddufastir kristnir trúarhópar. Þeir síðarnefndu hafa vakið athygli með baráttu gegn þróunarkenningu Darwins og tilraunum til að skylda skóla til að boða jafnhliða sköpunarsögu biblíunnar sem vísindalegan sannleik undir kjörorðinu “intelligent design” (meðvituð sköpun). Hefur forysta þessa öflugasta ríkis heims þannig gert sig seka um hliðstæða þröngsýni og ofstæki og hún sakar andstæðinga sína meðal múslima um að beita fyrir vagn sinn. Um þetta er m.a. fjallað ítarlega í áramótahefti tímaritsins Der Spiegel.

Verðlaunahafi án tæpitungu

Liðin eru 50 ár frá því Halldór Kiljan Laxness hlaut nóbelsverðlaun í bókmenntum. Margt hefur af því tilefni verið rifjað upp um þann stóratburð í Íslandssögunni og átökin sem leynt og ljóst tengdust verðlaunaveitingunni. Nóbelsverðlaun vekja nú sem fyrr athygli allra þeirra sem fylgjast með í heimi ritaðs máls. Í ár, 2005, hlaut verðlaunin Harold Pinter (f. 1930), fremsti leikritahöfundur Breta á síðari hluta 20. aldar og þekktur baráttumaður fyrir mannréttindum. Sænska akademían rökstuddi veitinguna með ummælum um Pinter “sem í leikritum sínum afhjúpar hengiflugið á bak við orðagjálfur hversdagsins og brýtur sér leið inn í læstar vistarverur kúgara.” Sjálfur gat Harold Pinter ekki veitt verðlaununum viðtöku sökum veikinda en sendi á afhendingardegi 7. desember frá sér “nóbelsræðu” sem vakið hefur mikla athygli víða erlendis. Eftir að hafa minnt á kúgun og undirokun í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu sem nú sé skjalfest og blasi við beinir hann sjónum að glæpsamlegu framferði Bandaríkjanna víða um heim á eftirstríðsárunum sem ekki hafi fengið hliðstæða athygli. Tekur hann m.a. dæmi af Mið-Ameríku og Níkaragúa sérstaklega þar sem hann sjálfur lagði inn orð til að reyna að stöðva yfirgang Bandaríkjastjórnar. Eftir að hafa rætt um þá sögu segir Pinter:

“En þessi “stefna” (policy) var engan veginn takmörkuð við Mið-Ameríku. Henni var fylgt um víða veröld. Hún átti sér engin takmörk. Og það var eins og hún hefði aldrei átt sér stað. Bandaríkin studdu og komu í mörgum tilvikum á laggirnar hægrisinnuðum hernaðareinræðisstjórnum víða um heim eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Ég vísa til Indónesíu, Grikklands, Úrúgvæ, Brasilíu, Parugvæ, Haíti, Tyrklands, Filippseyja, Gvatamala, El Salvador og auðvitað Chile. Hryllingurinn sem Bandaríkin tróðu upp á Chile 1973 verður aldrei af þeim þveginn og aldrei fyrirgefinn. – Hundruð þúsunda létu lífið í öllum þessum löndum. Gerðist það? Og verða dauðsföllin í öllum tilvikum rakin til utanríkisstefnu Bandaríkjanna? Svarið er já, þau áttu sér stað og þau má rekja til utanríkistefnu Bandaríkjanna. En þú munt ekki vita um það. Það gerðist ekki. Ekkert slíkt átti sér stað. Jafnvel á meðan það var að gerast var það ekki að gerast. Það skipti ekki máli. Enginn hafði áhuga á því. Glæpir Bandaríkjanna hafa verið kerfisbundnir, viðvarandi, grimmdarlegir, miskunnarlausir, en fáir hafa í raun rætt um þá. Bandaríkin mega eiga það. Þau hafa stundað kaldrifjað valdatafl á heimsvísu á sama tíma og þau hafa þóst vera að berjast fyrir góðum málstað. Það er snilldarleg,, jafnvel hnyttin og afar árangursrík dáleiðsla.”

Þetta eru aðeins brot úr penna verðlaunahafans en boðskapur hans á nóbelshátíð hefur ekki farið hátt í fjölmiðlum hérlendis.

Lýðræðisþróun í Suður-Ameríku

Afar athyglisverð umbreyting til hins betra hefur að undanförnu orðið í stjórnmálum margra ríkja í Suður-Ameríku, sumpart ekki ósvipað því sem gerst hefur á Spáni eftir fall Francos og nú síðast tilkomu vinstristjórnar þar í landi. Úrugvæ reið á vaðið 1985 með því að varpa af sér oki illræmdrar herforingjastjórnar árið 1985. Vinstrisinnar eru nú við völd á stjórnmálasviði í mörgum ríkjum Rómönsku Ameríku. Í Chile var einræðisstjórn Pinochets steypt af stóli árið 1990 og nú eru horfur á að sósíalisti og einstæð móðir, Michelle Bachellet, verði kjörin forseti landsins. Faðir hennar dó í fangelsi Pinochets og sjálf sætti hún pyndingum áður hún komst úr landi 1975. Í Venesúela hefur Hugo Chávez nú verið forseti í sjö ár þrátt fyrir geysiharða andstöðu hægrimanna sem leynt og ljóst hafa notið stuðnings Bandaríkjastjórnar. Vatnaskil urðu síðan í Brasilíu haustið 2002 þegar forseti verkamannaflokks landsins, Lula da Silva, var kosinn forseti eftir áratuga stjórn hægri manna. Forsetakosningar verða í Brasilíu á næsta ári og þá reynir á ný á valdahlutföllin í landinu. Mikil tíðindi urðu nýverið í Ekvador þegar indíáninn Evo Morales sem fer fyrir svonefndri “Hreyfingu í átt til sósíalismans” vann sigur í forsetakosningum í landinu. Fyrsta verk hans var að ákveða að lækka laun sín og verðandi ráðherra og þingmanna flokksins um 50%. Fyrsta utanlandsför hans er til Kúbu nú um áramótin. Allar eru þessar breytingar andstæðar Bandaríkjastjórn sem lengi gat deilt og drottnað í þessum bakgarði “Ameríku” en stendur þar nú frammi fyrir gjörbreyttri stjórnmálastöðu. Eftir er hins vegar að sjá hvernig lýðræðislega kjörnum stjórnmálamönnum tekst til í glímunni við fjölþjóðafyrirtæki og fjarstýrð markaðsöfl sem víðast hvar hafa undirtökin í efnahagslífi landanna.

Evrópusambandið í lamasessi

Evrópusambandið hefur að baki erfitt ár. Síðastliðið vor höfnuðu tvö kjarnaríki sambandsins, Frakkland og Holland, tillögu að stjórnarskrá sem á sínum tíma var lýst sem forsendu þess að unnt væri að taka inn ný aðildarríki, fyrst 10 talsins og síðan fleiri, að Tyrklandi meðtöldu. Aðild ríkjanna tíu, sem flest eru í austurhluta álfunnar, kallar á margvíslegar fjárhagslegar fórnir af hálfu þeirra sem fyrir eru og flækir til muna ákvarðanatöku innan sambandsins. Á síðartalda agnúanum átti m.a. að taka í krafti nýrrar stjórnarskrár. Nú hangir hvorutveggja yfir óleyst. Átakalínurnar í ESB urðu enn skarpari undir lok ársins þegar tillögum Breta sem þá voru í forystu um langtímafjárlög og endurskoðun á styrkjastefnunni í landbúnaði var hafnað og með naumindum tókst að berja saman málamiðlun. Í kveðjuræðu á sérstökum ESB-toppfundi í nóvember las Schröder sem fráfarandi kanslari Þýskalands yfir hausamótunum á gestgjafanum, flokksbróður sínum Tony Blair, vegna frjálshyggjutilhneiginga og fylgispektar hans við Bandaríkin. Þannig hafa kaldir vindar blásið um sali ESB á sama tíma og atvinnuleysi sverfur að í Þýzkalandi og víðar á meginlandinu. Ekki er að undra að á árinu hefur dregið úr fylgi við aðildarhugmyndir í Noregi og hér á landi flaggar Samfylkingin nú lítt þessu eina fastmótaða hugðarefni sínu.

Hagvöxtur á kostnað íslensks umhverfis

Hagvöxtur og gangverk efnahagslífs og atvinnusköpunar er hér sem víðar keyrður fram á kostnað náttúruauðlinda og umhverfis. Efnahagsstefna hægristjórnarinnar sem hér hefur verið við völd í hálfan annan áratug hefur í vaxandi mæli verið byggð á stóriðjustefnu, stórvirkjunum og risaálverum í krafti þeirra. Þessi skammsýna stefna er nú að hefna sín á mörgum sviðum íslensks efnahagslífs og skaðlegar afleiðingar á umhverfissviði eiga eftir að koma enn frekar í ljós á næstu árum. Síðustu sjö ár hefur stóriðjuuppbygging á Austurlandi verið algjört forgangsatriði stjórnvalda, borin uppi af Framsóknarflokknum með dyggri uppáskrift forystu Sjálfstæðisflokksins og flestra samtaka á vinnumarkaði. Fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, nú formaður Samfylkingarinnar, ber þess utan ábyrgð á að Reykjavíkurborg sem meðeigandi í Landsvirkjun skrifaði upp á ríkisábyrgð til Kárahnjúkavirkjunar. Ekkert lát virðist ætla að verða á þessari stóriðjusiglingu að óbreyttri stjórnarstefnu og valdahlutföllum. Nú beinist sóknin einnig í jarðvarma, án þess að nokkur framtíðarstefna um nýtingu og verndun auðlindar og umhverfis hafi verið mótuð. Svonefnd Rammaáætlun er hálfkarað verk á forræði iðnaðarráðuneytis og ekkert skilmerkilegt framhald í augsýn. Í ráðuneyti umhverfismála og stofnunum þess ríkir doði og þjónustulund við stefnu sem ekkert á skylt við hugmyndir um sjálfbæra þróun.

Vaxandi skilningur á umhverfismálum

Hér á landi sem víðar er vaxandi skilningur á umhverfismálum sem undirstöðuþáttar í velferð mannkyns til framtíðar litið. Í pistli á þessum vettvangi vakti undirritaður fyrir skömmu athygli á bókinni Collaps (Kollsteypa) eftir Jared Diamond. Hún seldist upp í bókaverslunum höfðustaðarins nú fyrir jólin. Það er góðs viti. Margir atburðir hér innanlands á árinu vitna um viðnám almannasamtaka og einstaklinga sem mikið leggja á sig til verndunar umhverfis og náttúru nær og fjær. Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd eru þar eðlilega mest áberandi en einnig hafa áhugafélög náttúruverndarfólks í landsfjórðungunum haldið uppi merki, hvert á sínu félagssvæði. Þrjátíu og fimm ár eru nú liðin frá því slík samtök voru stofnuð á Norðurlandi (SUNN) og Austurlandi (NAUST) og hafa starfað óslitið síðan. Svipað má segja um samtök á Vesturlandi og á árinu 2005 var á ný blásið lífi í náttúruverndarsamtök á Suðurlandi. Þar hefur auk þess áhugahópur um verndun Þjórsárvera haldið uppi merki undanfarið. Um það svæði stendur enn stríð við þá sem byggja vilja stíflu við Norðlingaöldu. Náttúruvaktin heita ung samtök á sama meiði og þau stóðu ásamt fleirum fyrir viðburði í Hallgrímskirkju 21.desember til að minna á málstaðinn. Kirkjan troðfylltist af fólki þessa kvöldstund í miðri jólakauptíðinni. Í réttarsölum gengu athyglisverðir dómar er varða umhverfismál. Hæstiréttur staðfesti í júní niðurstöðu héraðsdóms um að meta beri umhverfisáhrif álverksmiðju Fjarðaráls á Reyðarfirði. Stjórnvöld létu sem ekkert væri og haldið var áfram við framkvæmdina þrátt fyrir þessa niðurstöðu dómstóla. Ekki er víst að slíkt virðingarleysi fyrir íslensku umhverfi verði liðið til lengdar. Skamma stund verður hönd höggi fegin, stendur í fornum texta.

Ég óska landsmönnum öllum og náttúruverndarfólki sérstaklega gleðilegs árs.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim