Hjörleifur Guttormsson 1.september 2006

Um matsskýrslu Alcoa og álit Skipulagsstofnunar

  1. Matsskýrsla Alcoa og álit Skipulagsstofnunar staðfestir að losun mengandi efna frá álveri Alcoa er langtum meiri en gert var ráð fyrir samkvæmt mati á stærra álveri Norsk Hydro. Varðandi losun brennisteinsdíoxíðs er þessi munur stórfelldur þar eð Alcoa er ekki gert að koma upp vothreinsibúnaði við verksmiðjuna.
  2. Í umsögn Veðurstofu Íslands um matsskýrsluna er bent á að verulegur ávinningur sé af vothreinsun með tilliti til brennisteins og í heild yrði umhverfið fyrir mun minna álagi með vothreinsun. Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að styrkur brennisteinsdíoxíðs utan þynningarsvæðis sé alltaf lægri sé vothreinsun notuð. Matið leiðir í ljós að við viss veðurfarsskilyrði getur skapast hætta á svælingu af völdum brennisteins í þéttbýlinu á Reyðarfirði. Skipulagsstofnun telur í niðurstöðum sínum að vothreinsun til viðbótar þurrhreinsun sé ótvírætt betri kostur til að draga úr styrk brennisteins í lofti enda þótt við vothreinsun sé gert ráð fyrir mun hærra brennisteinsinnihaldi í rafskautum (3% í stað 1,8%).
  3. Matsskýrslan leiðir í ljós að ekki er beitt bestu fáanlegri tækni í mengunarvörnum verksmiðjunnar, þ.e. samþættum mengunarvörnum með vothreinsun til viðbótar þurrhreinsun. Alcoa ber fyrir sig umframkostnaði við vothreinsun sem nemi 60-85 miljónum USD við uppsetningu og 5 miljóna USD rekstrarkostnaði á ári auk meiri orkunotkunar. Hér eru því fjárhagslegir þættir látnir vega meira en umhverfisgæði sem viðurkennt er að rýrni stórum með tilkomu verksmiðjunnar.
  4. Skýrsla Alcoa og álit Skipulagsstofnunar kemur fram við þær aðstæður að bygging álversins er á lokastigi og Skipulagsstofnun hafði áður undanþegið fyrirtækið mati. Byggingu verksmiðjunnar var haldið áfram í skjóli stjórnvalda eftir að Hæstiréttur úrskurðaði fyrir meira en ári að umhverfisáhrifin skyldu metin lögum samkvæmt. Matið sem átti að vera forsenda ákvörðunar um verksmiðjuna fer því fram eftir á. Álit Skipulagsstofnunar er því ekki óvilhallt og sú staðreynd blasir við að verksmiðjan hefur verið reist andstætt lögum og þvert á ákvæði alþjóðasamþykkta um umhverfismat sem forsendu ákvarðana.
  5. Matsskýrsla Alcoa og álit Skipulagsstofnunar svarar ekki mörgum óvissuatriðum, m.a. um áhrif verksmiðjunnar á byggða- og atvinnuþróun, áhættu af hugsanlegu straumrofi sem valda myndi mikilli losun mengunarefna í Reyðarfirði og hættu af mengunarslysum í sjó vegna flutninga að og frá álverinu.


Sjá ennfremur athugasemdir mínar við frummatsskýrslu Alcoa 8. júní 2006


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim