Ósjálfbær hagvöxtur og loftslagsbreytingar
Greinin birtist í Lesbók Morgunblaðsins 30. september 2006
Ekkert málasvið er jafn áleitið og loftslagsbreytingar af mannavöldum sem nú gera vart við sig með æ áþreifanlegri hætti en eru samt smámunir í samanburði við það sem er í vændum haldi fram sem horfir. Í Lesbók 9. september sl. staðhæfði ég að núverandi sigling á alþjóðavísu leiði fyrr en varir í strand og hreinan voða fyrir mannkynið og aðeins ný hugsun, gjörbreytt gildismat og hnattræn endursköpun framleiðslu– og fjármálastarfsemi geti komið í veg fyrir hrun siðmenningar og gífurlegar mannfórnir. Hér á eftir verður staldrað við nokkur atriði sem renna stoðum undir þessi orð mín og að íslensk stjórnvöld séu á röngu spori í loftslagsmálum.
Viðbrögð í sögulegu ljósi
Um fjórir áratugir eru frá því að farið var að birta niðurstöður mælinga á koldíoxíði í andrúmsloftinu en þær hófust árið 1958 (sjá mynd 1).
Stokkhólmsráðstefna Sameinuðu þjóðanna 1972 hafði að yfirskrift „Umhverfi mannsins” og í ályktunum hennar var m.a. lögð áhersla á að safna öruggum upplýsingum um umhverfisáhrif af völdum mengunarefna frá orkuframleiðslu og orkunotkun, þar á meðal koldíoxíðs.1 Með þessu var grunnurinn lagður að víðtæku starfi Sameinuðu þjóðanna sem bar ríkulegan ávöxt á Ríóráðstefnunni 1992, m.a. með alþjóðasamningunum um loftslagsbreytingar og líffræðilega fjölbreytni. Í síðasta lagi frá þeim tíma áttu ábyrgir aðilar að geta gert sér grein fyrir hættunni af skaðlegum loftslagsbreytingum af mannavöldum og að grípa þyrfti til aðgerða. Kyótóbókunin 1997 var næsta skref en það tók heil 5 ár að fá hana staðfesta og þá stóðu enn utan við mestu mengunarvaldarnir eins og Bandaríkin og Ástralía. Fyrirfram var gengið út frá að þróunarríkin yrðu fyrst um sinn undanþegin lagalega bindandi takmörkunum.
Allan þennan tíma hefur af ýmsum verið alið á tortryggni og andstöðu við að taka loftslagsmálin föstum tökum. Fremst í flokki hafa verið olíuframleiðsluríki og auðhringar í olíuiðnaði sem greitt hafa stórar fúlgur í skipulegan andróður. Síðast í þessum mánuði sá talsmaður Bresku vísindaakademíunnar (Royal Society), Bob Ward, sig tilknúinn að afhjúpa falsanir bandaríska olíurisans Exxon Mobil og fjárstuðning hans við fjölmarga sem rangtúlka vísindalegar niðurstöður í loftslagsmálum. 2
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar bar kápuna á báðum öxlum í aðdraganda Kyótóbókunarinnar og gerði að skilyrði, þrátt fyrir heimild til 10% aukingar í losun þegar flest önnur iðnríki tóku á sig niðurskurð, að fá sérstaka undanþágu til losunar frá orkufrekum iðnaði. “Íslenska ákvæðið” margfræga er ásamt lágu orkuverði meginskýringin á áhuga erlendra fjárfesta á áliðnaði hérlendis. Forsætisráðherrann þáverandi ól á efasemdum um vísindalegan grundvöll loftslagsmálanna og fyrrum aðstoðarmaður hans er ekki sannfærður um að aukningin sé öðru fremur af mannavöldum.3 Það er ekki síður alvarlegt að íslenska ríkisstjórnin gaf til kynna við upphaf samningaviðræðna um næsta losunartímabil eftir 2012 að hún muni sækjast eftir frekari sérkjörum hvað losun varðar. Með því væri Ísland sem þjóðríki að skerast öðru sinni úr leik varðandi það skuldbindandi verkefni samkvæmt Lofslagssamningnum frá 1992 að draga stórlega úr mengun gróðurhúsalofts hérlendis til að hamla gegn loftslagsbreytingum.
Jöfnuður forsenda samstöðu
Baráttan við loftslagsbreytingar af völdum mengunar er langstærsta og vandasamasta viðfangsefni sem alþjóðasamfélagið hefur staðið frammi fyrir. Aðeins varðveisla heimsfriðar og hættan af kjarnorkuvá getur staðist samjöfnuð og kannski eru þessir þættir tengdari en ætla mætti við fyrstu sýn. Verkefnið er að koma mengun lofthjúpsins frá mannlegum athöfnum og framleiðslustarfsemi sem fyrst niður fyrir augljós hættumörk, sem ESB hefur sett við 2°C hækkun meðalhita á jörðini frá því sem var fyrir tíma iðnbyltingar. Á 20. öld nam mæld hækkun meðalhita í Evrópu 0,95°C, nokkru meira en 0,7°C hækkun á jörðinni í heild. Það auðveldar ekki glímuna að fjöldi jarðarbúa er talinn muni aukast um 50% á fyrri hluta þessarar aldar og verða 9 miljarðar skömmu eftir 2040. Meginhluti þessarar fjölgunar verður í þróunarlöndum þar sem þörfin fyrir bætt lífskjör er knýjandi. Vonlaust er að mínu viti að ná þeirri samstillingu sem til þarf meðal ríkja heims nema að leiðarljósi sé hafður jöfnuður milli þjóða í aðgangi að lofthjúpnum sem líta verður á sem sameign mannkyns.
Athyglisverð er sú hugmynd sem Global Commons Institute hóf kynningu á fyrir röskum áratug undir heitinu „Samdráttur og samleitni” (Contraction and Convergence). 4
Hún gengur út frá því sem forsendu að jafnað verði smám saman bilið í losunarheimildum ríkra þjóða og fátækra að teknu tilliti til fólksfjölda. (sjá mynd 2).
Tillaga GCI gerir ráð fyrir að heildarmagn gróðurhúsaloftttegunda frá kolefnaeldsneyti í andrúmslofti verði, eftir að tekist hefur að stöðva aukna losun, dregið saman um helming stig af stigi og verði komið niður í 450 ppm (parts per million) á rúmmálseiningu árið 2100. Nú er þessi tala að nálægt 380 ppm, um 100 ppm hærri en fyrir iðnbyltingu en mun hækka verulega á næstunni vegna aukinnar losunar, ekki síst í þróunarríkjum.
Ósjálfbær efnahagsvöxtur
Margar hugmyndir hafa komið fram á vettvangi Loftslagssamningsins og frá öðrum aðilum um það hvernig hamla megi gegn og draga úr losun gróðurhúsalofts, m.a. með nýjum og umhverfisvænum orkugjöfum, bindingu í gróðri, skattlagningu, sölu losunarheimilda, þróunaraðstoð í hreinni tækni og niðurdælingu á koldísoxíði. Slíkar hugmyndir eru góðra gjalda verðar en hætt er við að þær hrökkvi skammt á meðan ósjálfbær efnahagsvöxtur og skefjalaus neysluhyggja er driffjöður efnhagsstarfsemi á heimsvísu. Víða eru einnig á kreiki hugmyndir um að auka raforkuframleiðslu með kjarnorku sem er í senn áhættusamur og ósjálfbær orkugjafi, m.a. vegna geislavirks úrgangs. Af þeim sökum er nú sumsstaðar verið að loka kjarnorkuverum, m.a. í Svíþjóð og Þýskalandi.
Sívaxandi hluti hagvaxtar á Vesturlöndum, borinn uppi af jarðefnaeldsneyti, er ósjálfbær þar eð hann felur jafnframt í sér að varanlega er gengið á náttúruauðlindir og lífsgæði núverandi og komandi kynslóða. Verg þjóðarframleiðsla sem einhliða mælikvarði á hagvöxt segir ekkert til um hvort vextinum er náð á sjálfbæran hátt eða hvort og að hve miklu leyti um er að ræða ósjálfbæra og umhverfisskaðlega starfsemi.5 Þannig er kynt undir ranghugmyndum um að slíkur óskilgreindur hagvöxtur sé eftirsóknarvert markmið og einskonar allrameinabót. Með auknum hagvexti stækki „kakan” sem sé til skiptanna, láglaunamaðurinn geti huggað sig við að fá einhverja mola í sinn hlut, þótt meiriparturinn komi í hlut hátekjufólks og fjármagnseigenda. Vikulega birtast hrikalegar tölur um vaxandi ójöfnuð, ofurtekjur og svimandi gróða þeirra sem ekki vissu aura sinna tal fyrir. Á hinu leitinu kúrir miljarður manna í þróunarlöndum sem ekki á til hnífs og skeiðar.
Þessi öfugþróun á sér langa sögu en hnattvæðing viðskipta samhliða óhindruðu flæði fjármagns og nú í vaxandi mæli einnig vinnuafls bætir gráu ofan á svart. Með hnattvæðingunni er kynt undir ósjálfbærum efnahagsvexti og fjölþjóðafyrirtækjum og fjármagnseigendum gefið færi á að sniðganga mengunarvarnir og skattgreiðslur og þrýsta niður launum. Vald þessara afla fer stöðugt vaxandi á sama tíma og máttur þjóðríkja til að setja þeim skorður í almannaþágu og umhverfis hefur veikst. Við þessar aðstæður er erfitt að sjá hvernig komið verði böndum á sívaxandi mengun lofthjúpsins og aðra umhverfiseyðingu.
Ört vaxandi mengun frá samgöngum
Ört vaxandi losun gróðurhúsalofts frá samgöngum er bein afleiðing hnattvæðingar og samruna, sem áróðursmeistarar tengja við hugtakið „frelsi” eins og svonefnt fjórfrelsi Evrópusambandsins er lýsandi dæmi um. Nú glímir ESB við afleiðingar þessa frelsis þar sem losun gróðurhúsalofts frá flutningum og sístækkandi bílaflota gerir meira en éta upp ávinninga á öðrum sviðum. 6 Loftgæði í mörgum evrópskum borgum uppfylla ekki settar kröfur með alvarlegum afleiðingum fyrir heilsufar fólks en nú er talið að um 370 þúsund manns látist árlega í Evrópu vegna loftmengunar.7 Hér á landi er ekki ósvipað uppi á teningnum þar sem vegasamgöngur valda allt að þriðjungi af heildarlosun gróðurhúslofts. Vaxandi bílaeign landsmanna og þungaflutningar á vegum hafa meira en vegið upp eldsneytissparnað í nýrri árgerðum bíla. Þróunin á þessu sviði veldur hvarvetna áhyggjum þar eð bílum fjölgar enn ört, þar á meðal í nýiðnvæddum ríkjum.
Svo slæm sem er mengunin frá bílaflotanum þá er losun gróðurhúsalofts í flugsamgöngum enn meira í brennidepli þessa stundina. Vöxtur í farþegaflugi innan EES-svæðisins jókst um 96% á tímabilinu 1990–2002, m.a. með tilkomu lággjaldaflugfélaga. Flug leggur nú til 3,5% af heildarlosun í heiminum en því er spáð að hlutur þess vaxi í 5% um miðja öldina, meira en nokkur annar þáttur efnahagsstarfseminnar. Vegna útblásturs margra tegunda mengunarefna frá flugvélum eru heildaráhrifin á hlýnun andrúmslofts frá flugsamgöngum talin 2–4 sinnum meiri en sem svarar til losunar koldíoxíðs eingöngu. 8 Umreiknað á farþega er alþjóðaflug því afar óvistvænt og nemur losun CO2 t.d. 1,2 tonnum á mann á leiðinni London–New York en meðaltal heildarlosunar á mann að meðaltali á ári í ESB var um 11 tonn árið 2004. Flugsamgöngur milli landa eru ekki inni í losunarbókhaldi Kyótóbókunarinnar en mjög er knúið á um að á því verði breyting.9 Það getur síðan haft mikil áhrif á stöðu flugs í samgöngum milli landa og heimshluta, þar á meðal til og frá Íslandi.
Ísland á alröngu spori
Engin innistæða er fyrir sjálfumgleði eða andvaraleysi af Íslendinga hálfu þegar kemur að loftslagsmálum. Hvert land hefur vissulega sína sérstöðu og staða okkar er um margt jákvæð sem fámennrar og velmegandi eyþjóðar í stóru landi. Lífríkið bæði til lands og sjávar hefur hér sem annars staðar lagað sig að umhverfisaðstæðum sem lítið hafa breyst um árþúsundir. Það er því viðkvæmt fyrir miklum sveiflum og breyting á hafstraumum getur haft víðtækar afleiðingar fyrir þjóðarhag. Þótt óvissa ríki um áhrif hlýnunar, m.a.á bráðnun hafíss og jökla, þar á meðal Grænlandsjökuls, verðum við nú og framvegis að gera ráð fyrir slíkri þróun. Hugmyndir um miklar nýbyggingar á landfyllingum á höfuðborgarsvæðinu ríma illa við hækkun sjávarborðs um allt að 5 metra. Okkur ber að taka fullan og ábyrgan þátt í alþjóðlegum aðgerðum til að hamla gegn loftslagsbreytingum. Sérstaklega ber okkur að gjalda varhug við þeirri gullgrafarahugsun sem einkennt hefur fjárfestingar heima og erlendis síðasta áratuginn. Stóriðjuframkvæmdirnar umdeildu á Austurlandi og aðrar slíkar á teikniborðinu eru lýsandi dæmi um blinda hagvaxtarhyggju án tillits til náttúrufarlegra og félagslegra afleiðinga. Meira að segja orka jökulánna, hið margrómaða vatnsafl, dregur úr hæfni sjávar til að binda gróðurhúsaloft þegar framburðurinn berst ekki lengur óhindrað til hafs.10 Íslenskar orkulindir bjarga ekki heimi sem er á gegndarlausu sólundarspori. Það væri hrapaleg skammsýni að nýta þær frekar en orðið er til mengandi stóriðju og fórna í leiðinni öðrum náttúrugæðum sem gildi hafa fyrir okkur og heimsbyggðina.
Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúslofts hérlendis erum við nú komin rösklega 10% fram yfir losun viðmiðunarársins 1990 og þannig upp undir þak Íslands samkvæmt Kyótóbókuninni. Losun gróðurhúsalofts á mann nam hér 12 tonnum að jafnaði árið 2004 og hefur aukist síðan. Þetta er tonni meira en hliðstæð tala í Evrópusambandinu þetta sama ár. Gangi hugmyndir stjórnvalda um frekari álvæðingu eftir förum við létt með að slá Evrópumet í mengun með allt að 20 tonna árlega losun á mann eftir um áratug og værum þá komin fast á hæla Bandaríkjanna. Ég efast um að meirihluti Íslendinga vilji taka þátt í slíkri vegferð.
Hjörleifur Guttormsson
1 Hjörleifur Guttormsson. Vistkreppa eða náttúruvernd. Mál og menning 1974, s. 26–30 og 61–75..
3 Illugi Gunnarsson. Hægri grænt – náttúruvernd og náttúrunýting. Lesbók Morgunblaðsins 29. júlí 2006. Sami í Lesbók 9. september 2006, s. 5.
6 European Environmental Agency (EEA). EU greenhous gas emissions increase for second year in a row. Press release, Copenhagen 22 June 2006.
7 EEA. Transport growth – an environmental dilemma for Europe. Press release – Copenhagen 28 March 2006.
9 George Monbiot. On the flight path to global meltdown. Guardian Unlimited, 21. september 2006.
10 Sigurður R. Gíslason, Eric H. Oelkers og Árni Snorrason. Role of river–suspended material in the global carbon cycle. Geology. Tímarit Bandaríska jarðfræðafélagsins, Vol. 34, I 2006, s. 49–52.
Hjörleifur Guttormsson |