Um frummatsskýrslu
Alcoa
Hafna vothreinsun. Enn aukin losun brennisteins. Breyting á starfsleyfi
Með hæstaréttardómi 7. júlí 2005
var ómerktur úrskurður Skipulagsstofnunar frá 20.
desember 2002 þess efnis að undanþiggja fyrirhugaða
322 þúsund tonna verksmiðju Alcoa á Reyðarfirði
mati á umhverfisáhrifum. Umhverfisráðherra staðfesti
niðurstöðu stofnunarinnar 15. apríl 2003. Þrátt
fyrir dóm Hæstaréttar heimiluðu stjórnvöld
Alcoa Fjarðaáli að halda áfram undirbúningi
og byggingu verksmiðjunnar sem nú er langt komin. Þó er
mat á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt grunnforsenda
fyrir slíkri framkvæmd og leyfisveitingum.
Alcoa hóf undirbúning að mati á umhverfisáhrifum í fyrrasumar
og skilaði matsáætlun sem gerði ráð fyrir
að fyrirtækið skilaði frummatsskýrslu í nóvember
2005. Þessi skýrsla Alcoa sem framkvæmdaraðila
er nú loks fram komin nær hálfu ári eftir áætlaðan
tíma og er því í reynd hálfgert sýndarplagg
eins og á málum hefur verið haldið af íslenskum
stjórnvöldum. Margt athyglisvert verður engu að síður
lesið út úr skýrslunni sem sýnir hvað í húfi
er og hvernig Alcoa hyggst halda á málum um rekstur álversins.
Mengunarþátturinn
- Alcoa gerir ráð fyrir þurrhreinsun en hafnar vothreinsun.
Vothreinsun hefði þó í öllum tilvikum
dregið meira en þurrhreinsun ein og sér úr
losun mengandi efna út í andrúmsloftið, hvort
sem miðað er við losun á hvert framleitt tonn eða
heildarlosun. Mestu munar í losun brennisteins sem er 15–falt
meiri með þurrhreinsun en með vothreinsun samkvæmt
samanburði Alcoa og 24–föld þá miðað er
við matsskýrslu Norsk Hydro frá árinu 2001
um mun stærri verksmiðju. (Sjá súlurit).
- Alcoa áætlar nú að heildarlosun brennisteinsdíoxíðs
með þurrhreinsun verði 4595 tonn á ári
sem er um 730 tonnum meira en fyrirtækið gerði ráð fyrir í nóvember
2002. Drög að nýju starfsleyfi fyrir verksmiðjuna
sem fylgja með skýrslunni gera ráð fyrir að Umhverfisstofnun
hækki losunarheimild samsvarandi úr 12 kg í 14
kg á hvert tonn.
- Samanburður á matsskýrslum á því álveri
sem Norsk Hydro hugðist reisa (420 þúsund tonna ársframleiðsla)
og álveri Alcoa (346 þúsund tonna ársframleiðsla)
sýnir meiri heildarlosun mengunarefna út í andrúmsloftið frá álveri
Alcoa en hjá Norsk Hydro nema í einu tilviki (rykbundið flúoríð), þrátt
fyrir 74 þúsund tonna minni ársframleiðslu
hjá Alcoa. Alcoa mun losa um 42% meira af loftbornu flúoríði
en álver Norsk Hydro hefði gert, 24–sinnum meira af
brennisteinssamböndum og 3,5–sinnum meira af svifryki.
- Augljóst virðist af skýrslunni að loftgæði
yrðu mun skárri í Reyðarfirði ef beitt væri
vothreinsun en ekki þurrhreinsun eingöngu eins og
Alcoa hefur ákveðið að gera. Hafa ber í huga
að vothreinsun er regla í mengunarvörnum álvera í Noregi. Án
vothreinsunar fara klukkustundargildi fyrir brennisteinsdíoxíð samkvæmt
reiknilíkani Alcoa 5-sinnum yfir hættumörk (350 µg/m3),
m.a. við fjarðarbotn í næsta nágrenni
við þéttbýlið, og tvívegis yfir
50 µg/m3 samfellt í sólarhring en aldrei sé beitt
vothreinsun. Óvíst er að módelútreikningar
um dreifingu útblásturs standist reynsluheim Reyðarfjarðar
og því ætti að kappkosta að draga sem mest úr
losun mengandi efna.
- Óútskýrt er hvers vegna hreinsun skautleifa
virðist einungis valda mengandi útblæstri þegar
notuð er vothreinsun, sbr. bls. 28–29 í frummatsskýrslu.
Um slíka losun var ekki að ræða í tilviki
Norsk Hydro, sbr. matsskýrslu vegna 420 þús. tonna álvers árið 2001.
- Meginrök Alcoa fyrir því að hafna vothreinsun
virðast vera hugsanleg aukning áhættu fyrir vistkerfið í allra
nánasta umhverfi álversins vegna flúoríðs.
Um það segir Alcoa í samantekt: “Áhætta
fyrir vistkerfi er lítillega hærri þegar vothreinsun
er notuð en þegar eingöngu er beitt þurrhreinsun. Því er
mælt með þeim kosti að eingöngu verði
beitt þurrhreinsun til að hreinsa útblástur
frá álverinu.” (s. ii) – Þetta skýrir
Alcoa út frá tæknilegum þáttum við vothreinsun
sem leiða myndi til meiri mengunar en ella í grennd álversins: “Hærri
gildi í tilfellinu þar sem vothreinsibúnaður
er til viðbótar þurrhreinsibúnaði stafa
af kælingu útblástursins í vothreinsivirkjunum.
Kaldari útblástur fellur frekar og fyrr til jarðar
en heitur útblástur sem rís upp og dreifist.” (s.
88) Ofangreindar staðhæfingar í útdrætti
skýrslunnar eru hinsvegar augljóslega ýktar ef
lesið er í frumgögn, sbr. tölulið 7.
- Athygli vekur að í svonefndri áhættugreiningu á heilsu
og vistkerfi sem Alcoa hefur látið gera með samanburði á þurrhreinsun
eingöngu og að viðbættri vothreinsun er gert ráð fyrir
rafskautum með 3% brennisteinsinnihaldi í tilviki vothreinsunar
en 1,8% brennisteinsinnihaldi eða lægra sem nemur 2/3 í þurrhreinsun
eingöngu. Um þetta segir m.a. í viðauka
8, s.1:
Með vothreinsibúnaði er engin losun á SO2 um
skorstein, þar sem það er fjarlægt í vothreinsivirkjunum
en hins vegar er lítilsháttar aukning á losun
SO2 um þakop. Losun á flúoríði, PM10
og PAH-efnum úr skorsteini myndi einnig dragast saman við notkun
vothreinsibúnaðar. Til þess að gera varfærið líkan
af útblæstri á flúoríði á vaxtartíma
gróðurs, var notaður flúoríðútblástur
að sumarlagi frá svipuðu álveri, Deschambault álverinu í Quebeck í Kanada.
(s. 1) ... Búist er við að notkun vothreinsibúnaðar
dragi úr skammtímagildum á SO2 í lofti
(1 tíma, 3 tíma og 24 tíma).
Þegar kemur að “vistfræðilegri áhættugreiningu” af
völdum flúoríðsmengunar er svipað uppi á teningnum, þ.e.
að meira virðist gert úr óhagstæðum áhrifum
vothreinsunar í grennd álversins en af þurrhreinsun
eingöngu. Í útdrætti viðauka 8 segir m.a.
(s. 4):
Vistfræðileg áhrif, ef einhver eru, [undirstrikun
HG] sé farið yfir menguarmörk eins og spáð er,
yrðu því líklega staðbundnar og smávægilegar
breytingar á gróðurkerfum þolnari tegundum eins
og lyngi og grasi í vil. ... Þegar tekið er tillit til
lífssögu og stofnvistfræðilegra þátta,
eru þessi skipti sem farið er yfir mengunarmörk ekki
líkleg til að hafa áhrif á stofnstærð,
með mögulegri undantekningu á fjölda hagamúsa
innan þynningarsvæðisins. ...” [undirstrikum HG]
Með afar óraunhæfum nálgunum reyna skýrsluhöfundar þannig
að leiða líkur að því að hugsanleg áhrif á hagamýs
og gróður af völdum flúoríðefna yrðu
hugsanlega heldur meiri í nánasta umhverfi álversins
ef notast yrði við vothreinsibúnað í stað þurrhreinsunar
eingöngu. Hinsvegar kemur skýrt fram í skýrslunni
að loftgæði í Reyðarfirði verða örugglega
mun betri sé notast við vothreinsun. Þessi hugsanlega
auking á hugsanlegum áhrifum á vistkerfi í nánasta
nágrenni álversins er talin réttlæta það að nota
einungis þurrhreinsibúnað þó skýrslan
sýni, með greinagóðum hætti, að án
vothreinsunar verði loftgæði mun verri í Reyðarfirði.
Samfélagsleg áhrif
Þótt ályktað sé í frummatsskýrslunni
að álverið muni hafa umtalsverð jákvæð áhrif á samfélag á Mið–Austurlandi
er tekið fram að margt sé í óvissu um heildaráhrifin,
bæði varðandi íbúaþróun, fjölda
og mönnun starfa og áhrif á aðra atvinnuvegi. Aðstæður
hafa breyst mikið frá því sem gert var ráð fyrir í greiningu
Nýsis 2002.
- Í samantekt segir m.a.. “Álverið mun í fyrstu
verða í sterkri samkeppnisstöðu um vinnuafl
gagnvart öðrum fyrirtækjum á svæðinu
og mun því hafa neikvæð áhrif á sjávarútveg
og byggingariðnað á svæðinu þar
sem menntun skipverja, vélsmiða og annarra líkra
starfsstétta hæfir vel þörfum álversins.” (Frummatsskýrsla,
s. ii)
- Lítið er fjallað um hvaðan vinnuafl eigi að koma í stað þeirra
sem færa sig um set til starfa í álverinu. Í umfjöllun
Hagfræðistofnunar HÍ um þjóðhagsleg áhrif
segir m.a.: “Þá getur landsframleiðsla aukist
til lengri tíma ef þau láglaunastörfin sem
eftir standa þegar starfsfólk færir sig yfir í álverið eru
mönnuð af einstaklingum sem voru ekki áður á íslenskum
vinnumarkaði, t.d. útlendingum.” (Viðauki
11, s. 4) Ekki er rætt um hvernig t.d. sveitarfélög
og skólar þurfi að bregðast við ef um verulega
fjölgun útlendinga yrði að ræða á stuttum
tíma eftir að álverið tekur til starfa.
- Í skýrslunni er gert ráð fyrir fjölgun íbúa á Mið-Austurlandi
um 2000 manns vegna álversins fram til ársins 2009. Í mati
Nýsis á samfélagslegum áhrifum álversins
segir: “Sé horft til Austurlands alls má gera
ráð fyrir að verkefnið leiði til samþjöppunar
byggðar í fjórðungnum, svo og innan Mið–Austurlands
.... Eitt af því sem athygli vekur er að þrátt
fyrir mikla uppbyggingu á Mið–Austurlandi síðustu
2–3 árin fækkaði íslenskum ríkisborgurum
búsettum á Austurlandi á árinu 2005”.
(s.91–92)
Langt ferli framundan.
Skipulagsstofnun hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um frummatsskýrsluna
eða auglýst hana. Eftir að það hefur gerst er öllum
heimilt að koma á framfæri skriflegum athugasemdum innan
sex vikna. Í framhaldi af því skal Alcoa sem framkvæmdaraðili
vinna endanlega matsskýrslu og senda hana síðan Skipulagsstofnun
sem gefur út sitt álit um skýrsluna. Kærufrestur
til umhverfisráðherra vegna álits Skipulagsstofnunar
er einn mánuður og skal ráðherra síðan
kveða upp úrskurð í kærumálum innan
tveggja mánaða.
Niðurstöðu í þessu
matsmáli á stjórnsýslustigi er því vart
að vænta fyrr en seint á árinu 2006.
Hjörleifur Guttormsson |