Hjörleifur Guttormsson 2. nóvember 2006

Loftslagsmálin og Stern–skýrslan

Straumhvörf í loftslagsumræðu
Skýrsla Nicholas Stern fyrrverandi aðalhagfræðings Alþjóðabankans og nú yfirmanns hagdeildar bresku ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál sem birt var í fyrradag hefur vakið heimsathygli (www.sternreview.org.uk).  Ástæðan er að hér kveður málsmetandi hagfræðingur sér hljóðs og dregur upp dökka mynd af líklegum áhrifum loftslagsbreytinga á efnahag heimsbyggðarinnar. Stern hefur haft stóran hóp sér til aðstoðar við greiningu vandans og niðurstaðan er að ekki komi til greina annað en grípa til tafarlausra mótvægisaðgerða. “Tilraunir til að halda áfram á sömu braut eru dæmdar til að mistakast þar eð bráðnun jökla, hærra hitastig, mannskæðari illviðri, lengri þurrkatímabil, tíðari stórflóð og hækkandi yfirborð sjávar munu krefjast stóraukinna fórna í formi lífsgæða og manntjóns. ... Því hærri sem meðalhitinn er því meiri er hættan á umhverfisbreytingum og eyðileggingu sem ekki verður snúið við” segir í yfirlitsgrein eftir Stern sem birtist í Morgunblaðinu 31. október sl. - Kostnaðurinn við að aðhafast ekkert er talinn verða meiri en öll samanlögð útgjöld og tjón af heimsstyrjöldunum tveimur og af heimskreppunni á fjórða áratug aldarinnar sem leið. Þennan boðskap Stern hefur breska ríkisstjórnin nú gert að sínum og stjórnarandstaðan í Bretlandi leggur jafnvel enn ríkari áherslu á tafarlausar aðgerðir og árlegt uppgjör á losun gróðurhúslofts. – Menn ættu að bera þetta saman við þá hangandi hendi og þaðan af verra sem ráðið hefur ferðinni hjá íslenskum stjórnvöldum í loftslagsmálum til þessa.

Flókin vísindi hníga í eina átt
Lengi vel voru þeir fyrirferðarmiklir í umræðunni sem afneituðu loftslagsbreytingum af mannavöldum löngu eftir að samstaða náðist innan Sameinuðu þjóðanna 1992 um að bregðast við með alþjóðlegum Loftslagssamningi. Í ljós hefur komið að margir í þessum kór erlendis voru beint og óbeint á mála hjá olíuauðhringunum. Einnig hérlendis hefur afneitunin verið í gangi, Fiskifélag Ísland undir forystu Einars K. Guðfinnssonar gaf t.d. út rit Björns Lomborgs hins danska sem ekkert vill aðhafast gegn loftslagsvánni, að ógleymdum þeim Illuga Gunnarssyni og  Hannesi Hólmstein sem enn klifar. – Vissulega eru loftslagsbreytingar flókið fyrirbæri en rökin fyrir þætti gróðurhúslofts í hlýnun vega svo þungt að enginn getur lengur lokað augunum fyrir þeim. – Sama daginn og Stern-skýrslan birtist flutti Trausti Jónsson veðurfræðingur fróðlegt erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Þar fór hann yfir hinn fræðilega bakgrunn loftslagsmálanna á skýran og áhugaverðan hátt. Sem fræðimaður er Trausti varfærinn en niðurstaða hans var eindregin: Rökin fyrir því að losun gróðurhúsalofttegunda sé helsta orsök fyrir hækkun meðalhita að undanförnu vega þungt. Jafnframt benti hann á að ýmsar aðrar manngerðar umhverfisbreytingar leggjast á sömu sveif og full ástæða sé til að gaumgæfa þær samhliða.

Pólitískar aðgerðir úrslitaatriði
Líkt og Nicholas Stern benti Trausti veðurfræðingur á að mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum séu í eðli sínu pólitískar. Það er stjórnmálamanna að taka af skarið hvort og hvernig bregðast skuli við og sú breiða samstaða sem náðst hefur meðal vísindamanna á að auðvelda róðurinn. Fyrirsjáanlegt er að mengun lofthjúpsins með gróðurhúsalofti mun aukast stórlega á næstunni verði ekki að gert og um leið áhættan sem fylgir frekari töfum á mótaðgerðum. Það er því skylda stjórnmálamanna sem vilja láta taka mark á sér að veita svör hér og nú og fylkja almenningi og atvinnulífi á bak við raunhæfar aðgerðir. Í áðurnefndri grein segir Stern um þennan þátt m.a.: „Skýr skilaboð af hálfu stjórnvalda, bæði til skemmri og lengri tíma, munu hvetja einkageirann til aðgerða sem munu verða til þess að að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eftir því sem skilningur á eðli vandans vex mun almenningur í vaxandi mæli taka að krefjast þess að stjórnvöld bregðist við af festu. Samfélagumræðan er þannig afar mikilvægur liður í stefnu stjórnvalda.”

Tillaga VG um loftslagsráð
Eftir því er tekið að viku áður en kvisast tók um innihald Stern-skýrslunnar lagði þingflokkur Vinstri–grænna fram tillögu um að sett verði á fót fjölskipað Loftslagsráð (256. mál á 133. löggjafarþingi) til að stilla saman um aðgerðir af Íslands hálfu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ráðinu er einnig ætlað að meta þörf á rannsóknum og vera til ráðgjafar um viðbrögð á þeim sviðum sem mestu varða. Með tillögunni er bent á skynsamlega leið til að stuðla að þjóðarátaki um þetta brýna verkefni.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim