Íslenska álæðið og
loftslagsbreytingar
Heillum horfnir valdhafar
Stöðugt fjölgar þeim
sem mæla sterk aðvörunarorð um
aðsteðjandi loftslagsbreytingar vegna mengunar lofthjúps
jarðar. Undantekning eru íslenskir ráðamenn sem
hugsa um það eitt að kynda undir hagvöxt og mengun
frá Íslandi, skítt veri með afleiðingarnar.
Auk Fjarðaráls og Norðuráls eru nú í umræðunni
fjögur álver i viðbót, auðvitað af risastærð því að um
annað er ekki að ræða af hagkvæmni- og samkeppnisástæðum:
Straumsvík með nýtt álver Alcan sem hentar að kynna
sem “stækkun” við Ísal, Norðurland þar
sem þrír staðir eru látnir keppa um hnossið,
Helguvík við Reykjanesbæ og nú síðast
gaf sig fram Þorlákshöfn, því að auðvitað vilja “Sunnlendingar” fá sitt.
Fyrir hvert eitt tonn af áli losnar sem svarar 1,8 tonnum af gróðurhúsalofti
(CO2-ígildum) út í andrúmsloftið. Ísland
fékk í Kyótó heimild til að bæta
10% aukningu við grunninn frá árinu 1990 en flest önnur
aðildarrríki að Kyótóbókuninni tóku á sig
niðurskurð. Þetta nægði íslenskum stjórnvöldum
ekki, þannig að þau skilyrtu aðild sína við “íslenska ákvæðið” margumrædda,
sem felur að auki í sér heimild til að losa 1,6
milljónir tonna árlega frá stóriðju við lok
reikningstímabilsins árið 2012. Þessari heimild útdeila
nú íslensk stjórnvöld óskeypis til álhringanna
og gott betur, því að áformin sem kynnt hafa
verið að undanförnu ganga langt út fyrir samningsbundinn
ramma Íslands. Gangi álversáform stjórnvalda
eftir, mun sú stórfellda mengun sem af þeim hlytist
setja Ísland í algjöra sérstöðu miðað við losun
gróðurhúsalofts á íbúa. Mengun
og meiri mengun verður með því inntakið í boðskap Íslendinga
til heimsbyggðarinnar. Jafnframt er dagljóst að íslensk
stjórnvöld hyggjast í komandi samningaviðræðum
freista þess að sækja sér viðbót við “íslenska ákvæðið” á næsta
skuldbindingartímabili eftir 2012 og hafa þá á bak
við sig þrýstihópa frá stærstu álframleiðendum
heims sem auðvitað fagna því að geta áfram
sótt sér hingað ókeypis mengunarkvóta.
Skýrsla bresku veðurstofunnar
Nýverið kom út á vegum stjórnvalda í Bretlandi
skýrsla sem dregur saman helstu niðurstöður vísindamanna á ráðstefnu
bresku veðurstofunnar í febrúar á síðasta ári.
Tony Blair segir í formála skýrslunnar að nú sé “ljóst
að losun gróðurhúsalofts ... valdi ósjálfbærri
hlýnun andrúmslofts.” Breski umhverfisráðherrann,
Margaret Beckett, segir að efni skýrslunnar muni vekja mörgum
ugg. Það sem margt fólk átti sig ekki á sé að þróun
loftslagsmála geti farið algjörlega úr böndum þannig
að ekki verði aftur snúið. Í skýrslunni
segir að líkur séu orðnar litlar á að unnt
verði að halda losun gróðurhúsalofts neðan
við hættumörk. Horfur séu á að Grænlandsjökull
og aðrir jöklar bráðni en það geti á þessu árþúsundi
leitt til sjö metra hækkunar sjávarborðs frá núverandi
stöðu. Tveggja gráðu hækkun meðalhita,
sem Evrópusambandið hefur sett sem krítískt
hámark, getur leyst ofangreinda sjávarborðshækkun úr
læðingi, hvað þá hærri gildi. Líklegar
afleiðingar séu útrýming fjölda lífvera,
vaxandi fæðuskortur og hungursneyð í fátækum
ríkjum svo og vatnsþurrð víða um heim. Nú eru í hverri
einingu andrúmslofts um 380 ppm (milljónustu hlutar) af
CO2 en voru fyrir iðnbyltingu 275 ppm. Að áratug liðnum
er talið að þetta gildi fari yfir 400 ppm og þaðan
af meira. Gangi stefna íslenskra stjórnvalda eftir munu Íslendingar
leggja meira til þessarar aukningar en flestir aðrir miðað við höfðatölu.
James Lovelock og Gaia
James Lovelock er þekktur höfundur kenningar um Gaia, sérstakt
sjálfstýrikerfi jarðar sem geri umhverfi okkar lífvænlegt. Þessi
breski prófessor hefur lagt sig eftir rannsóknum á því hvernig
hinar ýmsu umhverfisbreytur Jarðar bregðist við álagi.
Hann var í hópi sérfróðra sem skiluðu
Margrétu Tatcher áliti um loftslagsbreytingar árið 1989 í aðdraganda
loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Fyrir fáeinum árum
lýsti hann þeirri umdeildu skoðun sinni að aðeins
kjarnorka sem orkugjafi gæti snúið þróuninni
við. Í nýútkominni bók sem ber titilinn
Hefnd jarðar (The Revenge of Gaia. Útgefandi Penguin.) kveður
við enn alvarlegri og svartsýnni tón en áður. “Við munum
gera okkar besta til að lifa af, en því miður tel ég
hvorki líkur á að Bandaríkin né vaxandi
hagkerfi Kína og Indlands bregðist við í tæka
tíð.” Í framhaldi af því dregur
Lovelock upp “leiðarvísi fyrir þá sem
lifa af hlýnun loftslags” Sérfræðihópurinn
um loftslagsbreytingar gerði í skýrslu sinni árið 2001
ráð fyrir allt að 5,8°C hækkun meðalhita á norðlægum
slóðum að óbreyttu um næstu aldamót
og sú forspá gæti átt eftir að hækka
samkvæmt væntanlegri skýrslu að ári. Lovelock
skorar því á menn að hugsa sinn gang.
Clinton: Lok siðmenningar
Á alþjóðaráðstefnu framámanna í efnahags-
og stjórnmálalífi í Davos í lok síðasta
mánaðar sagði Bill Clinton að loftslagsbreytingar væru
alvarlegasta vandamálið sem við væri að etja í heiminum. “Þær
eru það eina sem ég tel að geti bundið enda á framgang
siðmenningarinnar eins og við þekkjum hana, og gera margt af því sem
við höfum lagt okkur fram um algjörlega marklaust.” Meira
að segja svarti sauðurinn Bush virðist ekki alveg ósnortinn
af þeim horfum sem við blasa ef marka má ræðu hans á Bandaríkjaþingi
um síðustu mánaðamót. Hann leyfði sér þar
að minna landa sína á gengdarlausa notkun jarðefnaeldsneytis
sem ógni öryggi þjóðarinnar.
Þannig
eru ýmsir að vakna af værum blundi. Aðeins valdhafar á Íslandi
láta sem þeir séu einir í heiminum og eigi að hafa
leyfi til að menga meira og meira í sameiginlegan lofthjúp þegar
verkefnið ætti að vera að allir legðust á eitt
um niðurskurð sem nemi 70% af núverandi losun gróðurhúsalofts
fyrir miðja þessa öld.
Hjörleifur Guttormsson |