Hjörleifur Guttormsson | 4. ágúst 2006 |
Samfylkingin, krónan og ESB-aðild ESB-aðild klædd í feluliti Eitt helsta stefnumál Samfylkingarinnar, aðild Íslands að Evrópusambandinu, hefur legið í láginni um skeið og virst vera hálfgert feimnismál hjá flokksforystunni. Nú virðist eiga verða breyting á með eins konar tangarsókn gegn íslensku krónunni og áróðri fyrir upptöku evru í staðinn. Þetta kom skýrt fram hjá formanni Samfylkingarinnar í viðtali við Ríkisútvarpið fimmtudaginn 3. ágúst sl. og þurfti viðmælandi hennar að minna á að forsenda slíkrar breytingar væri aðild að Evrópusambandinu. Að mati Ingibjargar Sólrúnar er íslenska krónan upphaf og endir flestra efnahagsvandamála hérlendis og upptaka evru lausnarorðið. Slík breyting myndi að hennar sögn tryggja hér stöðugleika, lækka vexti og matvælaverð svo um munar og losa okkur við margskonar amstur og áhættu sem því fylgir að halda uppi eigin gjaldmiðli. Í lok viðtalsins undirstrikaði Ingibjörg að mætti hún ráða yrði afnám krónunnar og upptaka evru aðalkosningamálið næsta vor. Á sömu strengi slær Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður í grein í Morgunblaðinu 4. ágúst þannig að ekki fer milli mála að nú á að reyna eftir krókaleiðum að kaupa almenning til fylgis við ESB-aðild og um leið Samfylkinguna sem talsmann aðildar. Sýnd veiði en ekki gefin Formaður Samfylkingarinnar fetar hér í spor Valgerðar fyrrum viðskiptaráðherra sem lagði sig fram um það á síðasta vetri að tala niður krónuna og boða upptöku evru. Endurómaði hún þar helsta áhugamál Halldórs Ásgrímssonar fráfarandi formanns Framsóknarflokksins. Valgerður brýndi mjög atvinnurekendur á að þeir þyrftu að skerpa röddina í þessu efni en formaður Samfylkingarinnar reynir hins vegar að höfða til launafólks og telur sig eflaust eiga stuðning vísan hjá kontóristum Alþýðusambandsins. Engan veginn er þó víst að verðlækkun á lífsnauðsynjum fylgi í kjölfar ESB-aðildar og upptöku evru.. Reynsla margra ESB-ríkja af gjaldmiðilsskiptum með upptöku evru var á allt annan veg. Í Þýskalandi stórhækkaði t.d. verðlag á flestum nauðsynjum í kjölfarið og hagur kaupahéðna blómstraði að sama skapi. Sá stöðugleiki sem Ingibjörg formaður telur að fylgja muni ESB-aðild ásamt upptöku evru hefur birst Þjóðverjum og fleiri þjóðum á evrusvæðinu sem stöðnun samfara miklu og þungbæru atvinnuleysi. Ósiðlegur málflutningur Tilburðir Samfylkingarinnar við að fá fólk til stuðnings við ESB-aðild með einhliða og ýktum málflutningi eru vægast sagt ósiðlegir. Spurningin um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu varðar alla þætti þjóðmála og það sæmir illa stjórnmálaflokki að ætla að koma sér undan að ræða þá í samhengi. Með ESB-aðild og upptöku evru væru Íslendingar að kasta fyrir róða stjórntækjum á mörgum sviðum, yfirráðum yfir fiskimiðunum að ógleymdu æðsta dómsvaldi sem færast myndi sjálfkrafa til Evrópudómstólsins. Því fer víðs fjarri að hagmunum okkar í bráð og lengd væri betur borgið með því að gerast peð í gangverki Evrópusambandsins og því stórríki sem reynt er að steypa það í. Það er jafnframt öfugmæli að telja hag launafólks betur borgið undir regluverki ESB en utan þess. Lýsandi dæmi um það er þjónustutilskipunin umdeilda sem evrópsk verkalýðshreyfing kvartaði sáran yfir og er afleiðinganna þó ekki enn ekki farið að gæta að ráði. Sá stóraukni launamunur sem orðið hefur í kjölfar innri markaðar ESB og birtist m.a. í ofurlaunum forstjóra og aðþrengdu velferðarkerfi er afleiðing af síharðandi samkeppni og valdatilfærslu frá þorra almennings í hendur þeirra sem ráða yfir fjármagni. Það er dapurlegt hlutskipti sem Samfylkingin hefur kosið sér með einhliða og einfeldningslegum áróðri fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hjörleifur Guttormsson |