Hjörleifur Guttormsson | 5. september 2006 |
Virkjun Fjarðarár og umhverfi Seyðisfjarðar Í Seyðisfirði eru hafnar framkvæmdir við virkjun Fjarðarár sem rennur til sjávar frá Heiðarvatni á Fjarðarheiði í um 600 metra falli og 25 gullfallegum fossum. Fjarðardalur er formfagur, girtur hamrasveigum sem mynda Efri- og Neðri-Staf, gróskumikill neðan til og hið efra skarta fjalla- og snjódældaplöntur ferðafólki til yndisauka. Þjóðvegurinn um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar þræðir dal og heiði og ferð um hann eru fyrstu kynni þess mikla fjölda sem kemur til landsins með bílferjunni Norröna. Endurbætur á veginum um Fjarðarheiði hafa staðið um áratugi en nú er komið á hann bundið slitlag og jarðvegssár óðum að gróa. Þá gerist það á árinu 2005 að tekin er án mats á umhverfisáhrifum ákvörðun um virkjun Fjarðarár sem breyta mun varanlega þessu einstæða umhverfi og setja mark sitt á þjóðleiðina með tilheyrandi jarðraski. Orkuna frá væntanlegri virkjun hefur framkvæmdaraðilinn þegar selt á annað landshorn, þ.e. til Hitaveitu Suðurnesja sem safnar nú til sín orku fyrir ráðgert álver í Helguvík. Seyðisfjarðarkaupstaður fær einhverja aura í kassann fyrir vatnsréttindi, en hér er verið að fórna ómetanlegum náttúrugæðum og umhverfi fyrir lítið. Ráðamenn Seyðisfjarðar eru hér með fulltingi stjórnvalda að gera í nytina sína rétt eins og ekki sé nóg að gert í þessum landshluta með Kárahnjúkavirkjun. Siglt undir fölsku flaggi Framkvæmdaraðilinn sem ber heitið Íslensk
orkuvirkjun ehf hefur leitast við að klæða áform
sín í þekkilegan
búning og telur sig lágmarka svo sem kostur er áhrif
virkjunarinnar á umhverfið. Það er eðlileg viðleitni
og vafalaust hefur það dregið úr árvekni
heimamanna og fleiri að setja sig inn í áhrif framkvæmdanna
sem kynntar voru sem “endurbætt virkjun”. Stjórnvöld
notuðu þá blekkingu til að setja kíkinn fyrir
blinda augað og ýta út af borðinu athugasemdum
og kærum þeirra sem gerðu kröfu um að virkjunin
færi í umhverfismat. Þessi ráðgerða
virkjun breytir í engu gömlu Fjarðaselsvirkjuninni frá 1913
sem hér er notuð sem skálkaskjól. Hún
lýsti upp Seyðisfjörð í árdaga og er
sögulegt minnismerki og fallegur safngripur sem enn nýtist
til rafmagnsframleiðslu. Einstakt fossaskrúð hneppt í fjötra Fossarnir í Fjarðará eru einstakir í sinni röð. Um 20 þeirra eru nafngreindir og hver þeirra hefur sína sérstöku ásýnd. Þeir ásamt einstöku safni gamalla húsa á Seyðisfirði mega auk mannfólksins teljast verðmætasta auðlind Seyðfirðinga. Þótt í skýrslu framkvæmdaraðila sé því haldið fram að virkjunin með sinni stóru miðlun skerði ekki rennsli árinnar umtalsvert vantar mikið á að viðhlítandi athuganir styðji þá staðhæfingu. Rennsli árinnar verður stýrt og mannvirkin með stöðvarhúsum og pípugörðum skammt frá þjóðvegi minna vegfarendur á þá staðreynd. Virkjunin rýrir óhjákvæmilega upplifun ferðamannsins og með framkvæmdinni er verið að fikta við eina helstu gersemi byggðarlagsins. Systkinin Ingólfur Steinsson og Kristín Steinsdóttir voru í hópi þeirra sem sendu kæru til umhverfisráðherra og sögðu þar m.a. : “Við undirrituð erum fædd og uppalin á Seyðisfirði. Okkur er ljóst hve mikið er í húfi og finnst óásættanlegt að ráðist verði í virkjanaframkvæmdir á þessu svæði án þess að fyrst fari fram ítarlegt mat á umhverfisáhrifum þeirra.” Á aðvaranir þeirra og annarra var ekki hlustað og nú eru graftólin byrjuð að skarka á Fjarðarheiði þannig að tæpast gefst ráðrúm til að láta reyna á lögmæti þessarar skammsýnu ákvörðunar fyrir dómstólum. Leyndarhjúpur yfir orkusölu Leynd hefur hvílt yfir
samningum Seyðisfjarðarkaupstaðar
við Íslenska orkuvirkjun, og jafnvel bæjarráðsmenn
urðu að láta sér nægja að renna augum
yfir plöggin á fundi án þess að fá þau í hendur í aðdraganda útgáfu
framkvæmdaleyfis. Undirritaður óskaði eftir því við bæjarráð Seyðisfjarðar
20. júlí sl. með vísan til upplýsingalaga
og laga um aðgang að upplýsingum um umhverfismál,
að fá eintök af umræddum samningum. Þeirri
beiðni var hafnað og því m.a. borið við að Íslensk
orkuvirkjun telji að í þeim liggi upplýsingar
sem varðað geti viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Þessa ákvörðun
kærði ég til úrskurðarnefndar um upplýsingamál
sem nú hefur erindi mitt til meðferðar. Það segir
meira en mörg orð að sveitarstjórnarmenn og almenningur
skuli ekki eiga óhindraðan aðgang að slíkum
gögnum sem varða mikilvæga umhverfishagsmuni. Hjörleifur Guttormsson |