Hjörleifur Guttormsson 7. október 2006

Harmleikur utan sviðs í Þjóðleikhúsi

Með undrun og trega horfir maður á vinnubrögð Þjóðleikhúss og Umhverfisstofnunar í tengslum við löngu tímabært viðhald á ytra byrði leikhússins. Fyrst eftir að uppsláttur hófst vegna viðgerða á miðju sumri tóku menn að svipast um eftir silfurbergi og hrafntinnu til múrhúðunar, en hvort tveggja eru fágætar steindir. Morgunblaðið upplýsti 20. september sl. að ákveðið væri að nema silfurberg í Breiðdal hátt í fjalli innan hinnar fornu Breiðdalseldstöðvar og í dag 6. október er forsíðufrétt í sama blaðinu um að búið sé að skrapa saman með leyfi Umhverfisstofnunar 50 tonnum af hrafntinnu á friðlýstu svæði skammt frá fjölfarinni gönguleið á Hrafntinnuskeri. „Umhverfisstofnun telur best að byrja að tína á því svæði sem liggur næst skála FÍ á Hrafntinnuskeri og í átt að brún þess til norðurs.” Leyfisveitingin er út gefin 22. september sl. og fengurinn færður til byggða af Flugbjörgnarsveit sem verktaka í tveimur áföngum á 10 dögum.

Flest er með ólíkindum við þennan gjörning. Vörsluaðili Friðlands að Fjallabaki heimilar umrætt efnisnám um leið og hann bendir góðfúslega á „... að hrafntinna í hæsta gæðaflokki er fágæt bæði á landsvísu og heimsvísu og náttúruverndargildi hennar hátt af þeim sökum.” Hvorki Þjóðleikhús né Umhverfisstofnun gerðu opinberlega grein fyrir því hvað væri í bígerð og Umhverfisstofnun steinþagði um umrædda leyfisveitingu sem skoða má hér (Smellið). Því er borið við að Þjóðleikhúsið sé mikilvægur hluti af menningararfi þjóðar. Ekki verður um það deilt, en hvað um steindir fágætar á heimsvísu? Maður drúpir höfði af skömm yfir slíku framferði í skjóli myrkurs. Skyldi einhverjum detta í huga að flóðlýsa leikhús þjóðarinnar að verki loknu til að minna á þennan harmleik?


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim