Hjörleifur Guttormsson 8. júní 2006

Kröfur og gagnrýni vegna frummatsskýrslu Alcoa

Stöðvun framkvæmda, vothreinsun og ábyrgð Alcoa á sjóflutningum

Undirritaður hefur sent fjölmargar athugasemdir til Skipulagsstofnunar vegna frummatsskýrslu Alcoa Fjarðaáls en frestur til að skila þeim rennur út nú 8. júní.
Ítarlegur rökstuðningur fylgir með og mörg gagnrýnisatriði koma fram til viðbótar í bréfinu til Skipulagsstofnunar sem er 18 blaðsíður og menn geta kynnt sér hér á heimasíðunni í heild (smellið hér).
Næsta skref í matsferlinu er að Skipulagsstofnun sendir framkomnar athugasemdir, eftir atvikum með leiðbeinandi áherslum af sinni hálfu, til Alcoa sem framkvæmdaraðila sem þarf að útbúa sína matsskýrslu. Skipulagsstofnun fær síðan matsskýrsluna í hendur og þarf að gefa út sitt álit á henni.

Yfirlit um helstu kröfur mínar og áhersluatriði:

  1. Þess er krafist að framkvæmdir við álver Alcoa Fjarðaáls verði stöðvaðar á meðan unnið er að mati á umhverfisáhrifum álversins.
  2. Alcoa Fjarðaál er átalið fyrir að tefja matsferlið um nær hálft ár og standa þannig ekki við staðfestar tímasetningar í matsáætlun en halda jafnframt á fullu áfram framkvæmdum við verksmiðjuna á Reyðarfirði.
  3. Frummatsskýrsla Alcoa Fjarðaáls ber með sér að framkvæmdaraðili er þar að setja fram rök fyrir ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar af hálfu fyrirtækisins, m.a. um ófullkomnar mengunarvarnir.
  4. Vegna náttúrufarslegra og félagslegra aðstæðna er Reyðarfjörður ekki staður þar sem setja á niður risastórt álver.
  5. Núll-kostur sem lög um umhverfismat gera ráð fyrir ætti að verða fyrir valinu. NORAL–verkefnið og álver Alcoa Fjarðaáls er grófasta og tvísýnasta samfélagstilraun sem stofnað hefur verið til hérlendis.
  6. Mikil losun mengandi efna frá verksmiðju Alcoa umfram það sem metið hafði verið hjá Norsk Hydro var ásamt annars konar aðferðum við hreinsun útblásturs meginforsenda þess að dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að meta bæri umhverfisáhrif álvers Alcoa lögum samkvæmt.
  7.  Krefjast verður samþættra mengunarvarna með vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun á grundvelli innlendra reglna og skuldbindinga um bestu fáanlega tækni eigi að koma til greina að leyfa starfrækslu álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
  8. Alcoa ítrekar í frummatsskýrslunni þá stefnu sína að leiða ekki iðnaðarvatn til sjávar og segist af þeim sökum eingöngu ætla að nota þurrhreinsun. Þegar haustið 2002 lá sams konar stefnuyfirlýsing fyrir af hálfu Alcoa og skýrir það “afþvíbara” afstöðu fyrirtækisins til vothreinsunar.
  9. Frummatsskýrsla Alcoa er hönnuð og matreidd með það fyrir augum að verjast kröfum um vothreinsun og gengið er afar langt í rangtúlkun á gögnum og niðurstöðum sem þó er að finna í viðaukum með skýrslunni.
  10. Útleggingar í skýrslunni á niðurstöðum svonefndrar “áhættugreiningar” fyrir heilsu manna og vistkerfi eru með hreinum ólíkindum.
  11. Kjarni málsins er að með vothreinsun til viðbótar þurrhreinsun yrðu loftgæði í Reyðarfirði skárri en ella og komið yrði í veg fyrir hættu á svælingu í þéttbýlinu á Reyðarfirði án þess að áhætta sé tekin um skaðlega mengun sjávar.
  12. Sett er fram krafa um að í matsskýrslu geri Alcoa nákvæma grein fyrir hvernig vothreinsibúnaður geti fallið að núverandi hönnun verksmiðjunnar og jafnframt verði útskýrt hvers vegna eigi að halda í háa skorsteininn ef vothreinsun yrði að veruleika.
  13. Krafist er að í matsskýrslu verði fjallað um umhverfisáhættu og ábyrgð Alcoa vegna  siglingar risastórra leiguskipa í þágu verksmiðjunnar til og frá Reyðarfirði og fram með Austfjörðum.
  14. Sjónmengun er þegar mikil af álverinu í Reyðarfirði en við hana á eftir að bætast tilfinnanleg sjónmengun af raflínum sem flytja verksmiðjunni orku en því var hafnað á sínum tíma að leggja raflínur í jörð og/eða sjó.
  15. Hvatt er til þess að í matsskýrslu geri Alcoa grein fyrir aðgerðum sínum til að bregðast við hugsanlegu straumrofi og til að mæta jarðfræðilegri áhættu sem steðjað getur að Kárahnjúkjavirkjun svo og annarri náttúruvá er truflað gæti orkuafhendingu til álversins.

Á eftir fylgir ítarlegur rökstuðningur og athugasemdir þar sem farið er yfir einstaka þætti frummatsskýrslunnar.

 

 


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim