Hjörleifur Guttormsson 10. júlí 2006

Við þjóðveginn

Lúpína að verða „þjóðarblóm”

Á árinu 2004 beitti landbúnaðarráðherra sér fyrir því að valið skyldi svonefnt „þjóðarblóm” og tóku Landvernd og Morgunblaðið að sér að efna til spurningakeppni um hvaða planta verðskuldi þetta heiti. Sjö tegundir voru í framboði og varð holtasóley hlutskörpust rétt á undan kattarauga sem kynnt var í keppninni sem „gleym-mér-ei”. Meðal skilyrða í forvali var að blómið væri „sýnilegt víða um land og einkennandi fyrir gróðurfar þess”. Úrslit voru kynnt með pomp og pragt að viðstöddum ráðherrum og forseta Íslands. Til að reka smiðshögg á þetta tiltæki flutti landbúnaðarráðherra á síðasta vetri f.h. ríkisstjórnarinnar sérstaka þingsályktun um málið þar sem segir m.a.: „Ríkisstjórnin hefur síðan fjallað um málið og til að staðfesta enn frekar að holtasóley sé þjóðarblóm Íslendinga er lagt til að Alþingi álykti þar um og því er þessi tillaga lögð fram.”
Nú skyldum við ætla að yfirlýst þjóðarblóm blasi við hverjum manni víða um land og víst er að það á frekar við um holtasóley en kattarauga. Hins vegar var frá keppninni útilokuð fyrirfram sú planta sem landbúnaðarráðuneytinu er kærust og orðin er mest áberandi allra blómplantna þegar ekið er um þjóðvegi hérlendis en það er alaskalúpína. Hún breiðist þessi árin út með ógnarhraða og mun í tíð núlifandi kynslóða ná að þekja drjúgan hluta landsins. Í samkeppni við þessa stórvöxnu og ágengu plöntu sem opinberar stofnanir eins og Landgræðslan og Skógrækt ríkisins innleiddu og sjá um að útbreiða sem víðast fer lítið fyrir holtasóley, að ekki sé minnst á kattarauga, blóðberg og lambagras sem í besta falli fá að tóra á útnárum.

Bændabýli sem skrangeymslur

En það er fleira en lúpína sem blasir við þá ekið er um þjóðvegi. Vanhirt bændabýli eru alltof algeng sjón, með brennisóleyjum innan um rótnagaða hrossahaga. Mest stinga þó í augu skranhaugar með ræflum af bifreiðum, landbúnaðartækjum og öðru járnavirki. Sums staðar er þessu ónytjarusli hreykt upp á ása og hóla í túnfæti þannig að ekki fer það fram hjá neinum en oft er á sömu bæjum annað eins safn að finna í hlaðvarpa. Eitt er að halda til haga tækjum og tólum sem kunna að nýtast en lágmark er að slík „söfn” séu ekki til stórra lýta. Fyrirheit um bætta umgengni virðast alltof víða vera orðin tóm og ekki þarf marga sóða til að spilla svipmóti heilla byggðarlaga. Við þetta bætast víða efnistökugrúsir sem sumar hverjar taka yfir marga hektara lands. Viðkomandi landeigendur hafa tekjur af efnissölu og lagaákvæði um frágang virðast mega sín lítils. – Andstæður við þá hryggðarmynd sem hér er upp dregin eru vissulega fjölmargar, bændabýli sem bera vott um hirðusemi og smekkvísi í staðsetningu og viðhaldi bygginga. Bæði smábýli og stórbýli eiga þar hlut að máli og einnig eyðibýli þar sem ekki hefur verið flúið af vettvangi án þess að loka á eftir sér.

Einkalendur þéttbýlisbúa

Ný stétt landeigenda er víða að taka við af bændum í sveitum landsins. Það þykir finna að geta státað af heilli jörð en vesælum sumarbústað sem umlukinn er nágrönnum líkt og í borg. Á slíkum stöðum er ekki sama hvern ber að garði og aðvífandi eru oft litnir hornauga. Til að halda óvelkomnum frá bæ er farið að setja upp skilti til að fæla fólk frá. Heimreiðar og götuslóðar eru merkt sem einkavegir og jafnvel reynt að loka heilum dölum fyrir ferðafólki, ég tala nú ekki um ef dalsáin hefur að geyma silung, hvað þá lax. Skiptir þá engu þótt viðkomandi vegslóðar hafi verið lagðir með stuðningi af opinberu fé. Gestrisnin rómaða sem mætti mönnum hvarvetna í sveitum landsins til skamms tíma er að hopa fyrir siðum nýríkra þéttbýlisbúa sem sumir hverjir hafa allt annan skilning á eignarrétti en bóndinn sem til skamms tíma nytjaði sína jörð.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim