Hjörleifur Guttormsson 11. desember 2006

Borgarastyrjöldin í Írak – hengingaról Bush

Bandaríkin og Bretar hafa gjörtapað stríði sínu í Írak. Sú staða hefur raunar blasað við allt þetta ár en er nú viðurkennd af flestum forystumönnum vestra öðrum en Bush forseta og hans dyggustu fylgismönnum. Það er kaldranalegt fyrir árásarríkin að fá nú þann dóm frá Kofi Annan aðalritara Sameinuðu þjóðanna að ástandið í Írak sé nú verra en nokkru sinni undir Saddam Hussein. Írak er hersetið land með um 150 þúsund hernámsliða sem engan veginn megna að koma í veg fyrir ógnaröldina sem æ fleiri fjölmiðlar tala nú um sem borgarastyrjöld. Tölum um fallna Íraka frá því innrásin hófst fyrir 3 ½ ári hefur  ekki borið saman en nýjustu ágiskanir eru að mannfallið nemi 655 þúsund manns, stór hluti þeirra óbreyttir borgarar. Innrásarliðið hefur misst um 3000 fallna.

Ráðgjafanefnd Bandaríkjaþings um Írak, kennd við formennina Baker/Hammilton, skilaði áliti sínu 6. desember sl.. Hún var skipuð fulltrúum beggja stóru flokkanna og náði samkomulagi um tillögur í 79 liðum. Annar formaðurinn, James Baker, var utanríkisráðherra í forsetatíð Georgs Bush eldri um 1990. Nefndin talar tæpitungulaust um grafalvarlega og versnandi stöðu mála í Írak sem kalli á stefnubreytingu. Við kynningu á áliti nefndarinnar lagði Baker áherslu á að þetta væri ekki matseðill handa ráðamönnum til að velja af einstök atriði heldur samþætt heild.
Helstu áhersluatriðin í áliti nefndarinnar eru:

  • Bandaríkin eigi að leita til grannríkja Íraks, ekki síst Sýrlands og Írans, til að stilla til friðar í landinu.
  • Fjölgað verði tímabundið í þeim liðsveitum Bandaríkjahers sem þjálfi íraskar hersveitir þannig að þær verði í stakk búnar að standa á eigin fótum fyrir lok næsta árs.
  • Gangi það eftir verði fækkað í bandarískum hersveitum í landinu á næstu 12–15 mánuðum.
  • Nýtt átak verði gert til að koma á friðarviðræðum milli Ísraela og Palestínumanna með stofnun tveggja sjálfstæðra ríkja fyrir augum og að landamæri Ísraels miðist við það sem var fyrir stríðið 1967.

Talað er um róttækar tillögur í þessu sambandi en styrkurinn í nefndarálitinu felst einkum í samdóma áliti nefndarmannanna tíu sem gerir Bush forseta erfiðara fyrir að hundsa þær. Eftir kosningaósigur Repúblikana í síðasta mánuði reyndi Bush að slá á gagnrýnina á stefnu sína með því að reka Donald Rumsfeld úr starfi hermálaráðherra og tilnefna í staðinn Robert Gates, fyrrum yfirmann CIA í embættið. Sá hefur nú hlotið staðfestingu þingsins, en fyrir hermálanefnd þess svaraði hann neitandi spurningu þess efnis hvort hann teldi að Bandaríkin myndu fara með sigur af hólmi í Írak. – Í skýrslunni er varað við hættunni á að átök kunni að breiðast út í Austurlöndum nær takist ekki innan árs að slökkva eldana í Írak.

Fyrstu viðbrögð þeirra Bush og Blair eftir að hafa fengið skýrsluna í hendur var að gera ýmsa fyrirvara við tillögur nefndarinnar. Hvað Bush varðar gildir það um lykilatriði eins og viðræður við Sýrland og Íran og Blair varar við hugmyndum um að fækka í hernámsliðinu. Ísraelsstjórn vísar jafnframt á bug að nokkurt samhengi sé á milli deilu hennar við Palestíumenn og ástandið í Írak. Það er þannig alls óvíst að tillögur Baker–nefndarinnar leiði til þeirrar stefnubreytingar sem kallað er eftir og allt eins gæti svo farið að Bush-stjórnin eigi eftir að sökkva enn dýpra í það kviksyndi sem hún sjálf framkallaði með tilstyrk sinna staðföstu bandamanna.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim