Hjörleifur Guttormsson 12. maí 2006

Viðbrögð Alcoa og svör við fyrirspurn Morgunblaðsins

Viðbrögð verkefnisstjóra Alcoa

Þann 3. maí 2006 beindi blaðamaður Morgunblaðsins til mín eftirfarandi fyrirspurn:

Hvaða viðbrögð gefur þú við eftirfarandi frétt Ríkisútvarpsins?
                                                                                             
 RÚV: "Alcoa vísar gagnrýni Hjörleifs Guttormssonar á frummatsskýrslu á umhverfisáhrifum álvers  við Reyðarfjörð á bug. Í hádegisfréttum Útvarps kom fram að Hjörleifur hefur gert athugasemdir við skýrsluna, einkum þá ákvörðun Alcoa að gera ráð fyrir þurrhreinsibúnaði en hafna vothreinsibúnaði, en það hefur að sögn Hjörleifs í för með sér fimmtánfalt meiri losun brennisteins út í andrúmsloftið en annars hefði verið.                                         
Gunnar Guðni Tómasson, verkefnisstjóri við gerð umhverfismatsins, segir að tveir kostir hafi verið skoðaðir gaumgæfilega, annars vegar að búa álverið eingöngu þurrhreinsibúnaði og hins vegar að koma upp vothreinsibúnaði að auki. Hann segir báða kosti hafa uppfyllt allar reglugerðir um losun mengandi efna, bæði settar af íslenskum stjórnvöldum og Evrópusambandinu. Hins vegar hafi niðurstaðan verið sú að vothreinsibúnaðurinn hefði í för með sér fleiri hliðarverkanir, til dæmis losum flúoríðs sem hefur áhrif á gróðurfar og auk þess losun á PAH  efnum sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki sjávar."                                           
                                                        
Svör send Morgunblaðinu
Daginn eftir, 4. maí, sendi ég Morgunblaðinu eftirfarandi viðbrögð:

1. Ákvörðun um þurrhreinsun fyrir löngu tekin. Mig undrar ekki að Alcoa reyni að verja ákvörðun sína um að hafna vothreinsibúnaði. Fyrirtækið hefur fyrir löngu tekið þá ákvörðun í trausti þess að stjórnvöld spili með eins og þau hafa gert til þessa, einnig eftir að hæstaréttardómurinn féll. Það voru íslensk stjórnvöld sem með úrskurði Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 slepptu Alcoa við að fara í mat á umhverfisáhrifum og umhverfisráðherra staðfesti þann úrskurð 15. apríl 2003. Þrátt fyrir hæstaréttardóm voru starfsleyfi og framkvæmdaleyfi ekki afturkölluð og Alcoa hélt framkvæmdum sínum áfram þrátt fyrir dóminn. Skorsteinninn hái sem búið er að reisa og sem sniðinn er að þurrhreinsun eingöngu er táknrænn fyrir þetta og önnur kerfi tengd mengunarvörnum eru í samræmi við það.

2. Sjónhverfingar Alcoa. Alcoa reynir að beina sjónum frá gífurlegum mun á losun brennisteinssambanda þegar borin er saman vothreinsun og þurrhreinsun. Þessi munur er 15-faldur samkvæmt útreikningum Alcoa og 24-faldur samkvæmt matsskýrslu Norsk Hydro frá vorinu 2001. Niðurstöður beggja fyrirtækja sýna að loftgæði með vothreinsun eru mun skárri í Reyðarfirði með vothreinsun sem viðbót við þurrhreinsun og það getur m.a. varðað heilsu fólks sem þar býr um langa framtíð..

3. Hliðarverkanir. Báðir kostirnir, þurrhreinsun og vothreinsun + þurrhreinsun, uppfylla allar reglugerðir segir talsmaður Alcoa. Hins vegar fjallar hann ekki um jákvæða kosti vothreinsunar sem viðbót við þurrhreinsun. Þess í stað reynir Alcoa nú að beina sjónum manna að meintum hliðarverkunum vothreinsunar og nefnir í því sambandi losun flúoríðs og áhrif hennar á gróðurfar og losun á PAH sem geti haft áhrif á lífríki sjávar.
Lítum á þennan málflutning:
a) Losun flúoríðs. Losun loftborins flúoríðs frá þurrhreinsun er samkvæmt frummatsskýrslu Alcoa 224,2 g á hvert framleitt tonn, en væri 175,9 g á tonn með vothreinsun, þ.e. hækkar um 42% ef vothreinsun er sleppt. Mat Norsk Hydro vorið 2001 vegna Reyðaráls (420 þús.t/ári) sýndi að með  vothreinsun losnuðu aðeins 130 g á tonn, og er munurinn 73% lakari hjá Alcoa með þurrhreinsun.

Svonefnd áhættugreining sem Alcoa lét nýverið framkvæma fyrir sig og aldrei hefur áður verið gerð vegna álvers hérlendis er sögð sýna eftirfarandi (frummatsskýrsla s.110):  

“Möguleg neikvæð áhrif útblásturs á vistkerfi eru aðeins á hlutfallslega litlu svæði nærri álverinu og þessi áhrif á plöntusamfélög verða líklega væg (svo sem líkleg breyting á tegundasamsetningu þolnari tegundum í hag). Það er mjög ólíklegt að áhrif verði á stofna þeirra fugla og spendýra sem verða fyrir mestri snertingu efna úr útblæstri, en þó eru líkurnar meiri ef notaður er vothreinsibúnaður.”

Fram kemur einnig í frummatsskýrslu Alcoa (s. 110):

“Áhætta fyrir plöntur vegna loftkennds flúoríðs var metin með því að bera saman reiknaðan styrk loftkennds flúríðs við eitrunarmörk. Eitrunarmörk fyrir gróður voru sett við 0,2µg/m3 fyrir viðkvæm plöntusamfélög eins og mosa og fléttur, en við 0,3µ/m3 fyrir furur (0,3µg/m3 eru mörkin sem notuð eru hér á landi, sjá töflu 2.2).”

Í matsskýrslu Norsk Hydro 2001 var einmitt gert ráð fyrir að jafnstyrktarlína fyrir loftborið flúoríð yrði dregin við 0,2 µg/m3.

“Tillaga þessi um stærð og legu þynningarsvæðisins er gerð að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins [nú Umhverfisstofnun – HG]. Tillaga þessi er í samræmi við drög að starfsleyfi fyrir Reyðarál [Norsk Hydro] (Viðauki B10).”

Þessi mörk (0,2µg/m3) auglýsti Hollustuvernd [nú Umhverfisstofnun] 17. desember 2002 í tillögu að starfsleyfi fyrir Alcoa. Á elleftu stundu (7. mars 2003) setti Alcoa hins vegar fram kröfu um að mörkin yrðu hækkuð um 50% upp í 0,3µg/m3 utan þynningarsvæðis verksmiðjunnar. Undan þeirri kröfu lét Umhverfisstofnun án þess nokkrum þeim sem athugasemdir höfðu gert væri gert viðvart og andstætt niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum.

Það skýtur skökku við að eftir að hafa knúið fram slíka hækkun á losunarmörkum fyrir loftborið flúoríð skuli fyrirtækið nú þykjast ætla að gerast verndari fyrir umhverfi verksmiðjunar til þess að komast hjá frambærilegri heildarlausn með samþættum mengunarvörnum.

b) Losun á PAH. Í niðurstöðum fyrirtækisins Exponent sem vann umrædda áhættugreiningu fyrir Alcoa segir m.a. (viðauki 9):

“Gögn vegna fyrirhugaðs álvers Reyðaráls og álvera í Noregi og Kanada voru notuð til að meta líklegt álag vegna þessara efna (CoPCs) [PAH-efni, B(a)P, flúoríð og brennisteinsdíoxíð - HG] frá Alcoa Fjarðaáli á fjörðinn og styrk þeirra í seti. ... Metinn styrkur PAH-efna og B(a)P í seti er borinn saman við alla fáanlega staðla og umhverfismörk fyrir sjávarset til að ákvarða hvort sá styrkur sem spáð er fyrir um fari yfir þau mörk þar sem búast megi við neikvæðum áhrifum. Niðurstöður þessa samanburðar gefa til kynna að búast megi við að styrkur PAH-efna og B(a)P sé lægri en öll nema allra varfærnustu mörk. Til viðbótar var gerð heimildaleit að umfjöllun um eitrun í vistkerfi og farið var yfir kannanir frá öðrum álverum, til að ákvarða hvort sá styrkur sem spáð er fyrir CoPC væri líklegur til að hafa neikvæð áhrif, byggt á rannsóknum á því sem gerst hefur við önnur álver. Niðurstöður þessa samanburðar gefa til kynna að hámarksstyrkur PAH-efna og flúoríðs við Fjarðaál, séu langt innan áhrifamarka og í sumum tilvikum mörgum stærðargráðum lægri ... Að lokum, vistfræðilega áhættumatið leiddi í ljós að það voru nánast engin líkindi á neikvæðum áhrifum á sjávarlíf í Reyðarfirði vegna mögulegrar losunar CoPC á frárennsli vothreinsibúnaðar.” [Leturbr. HG]

Vert er einnig að minna á að í skýrslu sinni um samanburð álvera Reyðaráls og Alcoa, sem Alcoa lagði fram í nóvember 2002, staðhæfði fyrirtækið að það myndi setja upp sérstaka hreinsun á streymi PAH-efna til sjávar. Slík sérstök hreinsun kemur nú hvorki fram í frummatsskýrslunni eða áhættugreiningunni.

Um mögulega vothreinsun sagði Skipulagsstofnun í úrskurði sínum 20. desember 2002 eftirfarandi:

“Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að til þess að draga úr útblæstri SO2 sé vothreinsun með sjó einn af þeim kostum sem eru til athugunar við álver Alcoa-Reyðaráls. Sá möguleiki sé því fyrir hendi að niðurstöður athugunar Alcoa verði þær að vothreinsun sé nauðsynleg við álverið. Ef slíkur búnaður verði fyrir valinu yrði jafnframt sett upp sérstök hreinsun á PAH-efnum úr frárennsli til þess að lágmarka streymi PAH-efna til sjávar. [Leturbr. HG] Slík hreinsun hafi ekki verið áætluð við álver Reyðaráls. Þrátt fyrir að vothreinsibúnaður yrði fyrir valinu við álver Alcoa-Reyðaráls yrði streymi PAH-efna til sjávar því minna en gert var ráð fyrir við álver Reyðaráls.”

Það er engu líkara en talsmaður Alcoa , verkefnisstjóri umhverfismatsins, hafi ekki lesið framlögð gögn fyrirtækisins. Í öllu falli ríma staðhæfingar hans afar illa saman við það sem í þeim stendur.

PS: Þegar þetta er sett inn á heimasíðu (12. maí) hafa ofangreind viðbrögð mín við fyrirspurn Morgunblaðsins ekki verið birt í blaðinu - HG


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim