Hjörleifur Guttormsson | 12. nóvember 2006 |
Í för með náttúruverndarmanninum Eysteini Ávarp flutt á málþingi í Þjóðmenningarhúsi Eysteinn Jónsson var hluti af mínu æskuheimili, árlegur gestur heima og á samkomum í Atlavík og átrúnaðargoð flestra. Minnisstæð eru frá þeim árum löng kvöld við útvarpsumræður, þar sem beðið var með spenningi eftir Eysteini, sóknþungum málflutingi hans og sannfæringarkrafti. Ég skráði mig í liðsveit hans 12 ára gamall, harkaði af mér þegar hann sem ráðherra var í forystu fyrir inngöngunni í NATÓ undir kjörorðinu Aldrei her á friðartímum. Það loforð entist aðeins í tvö ár. Þá brast strengur og greri ekki um heilt lengi upp frá því. Árin liðu og áfram fylgdist ég með Eysteini álengdar og á framboðsfundum. Slíkir fundir á þröngum þingstöðum hreppanna voru ólíkt litríkari og mannlegri en sviðsettar umræður í sjóvarpi nú á dögum. Þar var heldur ekki jafn auðvelt að skrúfa fyrir eins og á viðtækinu þegar andstæðingar gerðust aðgangsharðir í málflutningi. Stjórnmálamaðurinn Eysteinn skyggði lengi á náttúruunnandann og útivistarmanninn. Í æsku ólst hann upp við töfrandi og fjölbreytta náttúru í heimabyggð sinni við Djúpavog. Sem strákur minnist ég hans úr skóginum heima rásandi á óvæntum slóðum þar sem stjórnmálamanna var ekki von. Ég hef hins vegar orð hans fyrir því að útivistin, náttúruskoðun og skíðaferðir, hafi fyrst orðið að föstum þætti í lífi hans sem undankoma frá erli stjórnmálanna, síma og gestanauð. Margir hafa leitað í lakara skjól. Gróin félagsleg viðhorf ásamt þekkingu og ást á náttúru landsins voru það nesti sem náttúruverndarmaðurinn Eysteinn lagði upp með þegar ögn hægðist um á pólitískum vettvangi. Um 1970 í sama mund og fyrsta náttúruverndarbylgjan reis hérlendis átti hann hlut að setningu nýrra laga um náttúruvernd sem miðuðu að því að virkja áhugafólk og félagasamtök í baráttu fyrir betra umhverfi. Hann tók að sér formennsku í nýju Náttúruverndarráði 1972, fyrstu árin jafnhliða því að vera forseti Sameinaðs þings. Til liðs við sig fékk hann sveit sjóaðra en einnig uppvaxandi baráttumanna sem kjörnir voru í ráðið á Náttúruverndarþingum, en þau voru þá haldin þriðja hvert ár. Um sex ára skeið fór Eysteinn fyrir þessum hópi með sína miklu reynslu, studdur tiltrú manna af hans fyrri störfum. Árangurinn sást víða, m.a. í stofnun þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum, uppbyggingu í þjóðgarðinum í Skaftafelli, friðlýsingu stórra svæða eins og Hornstranda og Lónsöræfa auk fólkvanga í Bláfjöllum og víðar. Þá voru sett lög um verndun Mývatns og Laxár og með þeim bundinn endi á harðar deilur með umhverfisvernd að leiðarljósi. Á hverju sumri ferðaðist Náttúruverndarráð þessi árin um byggðir og óbyggðir, kynnti sér aðstæður og átti fundi með heimafólki. Í þeim ferðum sannaðist það sem oft vill gleymast að náttúruvernd verður ekki einvörðungu reist á fræðilegum grunni, heldur eru viðfangsefni hennar engu síður félagslegs og um leið pólitísks eðlis. Á þessum árum færðist Eysteinn fleira í fang svo um munaði. Hann var formaður í Landgræðslu– og landnýtingarnefnd sem stóð að myndarlegum tillögum í tengslum við þjóðhátíðina 1974. Í Þingvallanefnd var hann þá einnig í forystu og beitti sér þar m.a. fyrir vistfræðirannsóknum á Þingvallavatni. Eysteinn skynjaði þannig kall nýrra tíma í umhverfis– og náttúruvernd og baráttan þyngdist óneitanlega þegar hans naut ekki lengur við. Eysteinn talaði oft um það fólk sem beitti sér fyrir náttúruvernd og landbótum sem fjölskyldu og gerði sér glögga grein fyrir því að á brattan var að sækja í glímunni við önnur og oft óvægin þjóðfélagsöfl. Síðustu árin hefur verið hart sótt að þessari fjölskyldu og því búi sem hún reynir að verja, náttúru landsins í byggðum og óbyggðum. Fólk sem vill rétta þann hlut mætti gjarnan kynna sér störf Eysteins Jónssonar síðasta áratuginn sem hann beitti sér á vettvangi íslenskra þjóðmála. Vonandi er svolítið að rofa til. Frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð og friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum er skref í rétta átt í kjölfar mikilla átaka. Þeim fjölgar, ekki síst í röðum yngra fólks, sem átta sig á að í óspilltu umhverfi eru fólgin eftirsóknarverðustu lífsgæðin. Svona eins og hingað til gengur þetta ekki lengur. Mengun lofthjúpsins af mannavöldum ógnar nú framtíð alls mannkyns. Megi minningin um náttúruverndarmanninn Eystein Jónsson auðvelda okkur að ná áttum – áður en það er um seinan. Hjörleifur Guttormsson |