Hjörleifur Guttormsson 13. september 2006

Grænir og vinstrigrænir flokkar eru nýlundan

Svar af tilefni fyrirspurna frá Lesbók Morgunblaðsins.

Lesbók Morgunblaðsins beindi í síðustu viku til mín fyrirspurnum vegna umræðu þar að undanförnu um umhverfismál, m.a. hvort mér finnist að markaðslögmálin, frjálshyggja og "hægripólitík", geti samræmst náttúruverndarsjónarmiðum ef einhverjar en takmarkaðar reglugerðir séu settar um mengun eða hvort ríkisvaldið þurfi að beita sér beint til að koma í veg fyrir að skammsýn gróðarsjónarmið spilli náttúru framtíðarinnar. Svar mitt birtist í styttu formi með viðhorfum fleiri viðmælenda í Lesbók 9. september sl. undir fyrirsögninni Er hægt að vera hægri og grænn? Ég kýs að láta það koma fram hér óstytt á heimasíðunni. – HG

Stórveldi á feigðarspori

Umhverfismál hafa öðlast nýja vídd síðasta mannsaldurinn einkum frá því um 1970 eins og endurspeglast í umfjöllun um þau á vettvangi Sameinuðu þjóðanna allt frá Stokkhólmsráðstefnunni 1972 að telja. Fyrir þennan tíma fengust menn við klassíska náttúruvernd, verndun sjaldgæfra tegunda og náttúrufyrirbæra og friðlýsingu landsvæða. Enn er klassíska náttúruverndin verðugt viðfangsefni en skilur tæpast milli feigs og ófeigs. – Stóru málin sem nú blasa við varða sjálfa tilvist mannkyns vegna áhrifa af hratt vaxandi efnahagsstarfsemi og fjölgun íbúa jarðar sem hafa þrefaldast að höfðatölu á einni öld. Aðdragandi þess að menn vöknuðu upp við vondan draum var langur og rofinn af tveimur heimsstyrjöldum. Kalt stríð milli risavelda í nær hálfa öld beindi líka sjónum annað. Miðstýrt þjóðfélagskerfi Sovétríkjanna sálugu setti efnahagsvöxt og hervæðingu í forgang engu síður en í kapítalísku ríkjunum og afleiðingar fyrir umhverfið voru víða skelfilegar. Ekkert lýðræðislegt aðhald var þar leyft frá almenningi á sama tíma og frjáls umhverfissamtök efldust á Vesturlöndum. Kommúnistar í Kína virtust fyrst eftir valdatöku sína 1949 ætla að hafa uppi önnur viðmið en geysast að undanförnu fram á kapítalíska vísu með allt að 10% árlegan hagvöxt og gífurlegar umhverfisfórnir. Kapítalísk iðnríki, Rússland sem arftaki Sovétríkjanna og nú Kína og Indland eru þannig öll á sama báti á stórhættulegri siglingu gagnvart umhverfi jarðar. Þetta endurspeglast með skýrustum hætti í gróðurhúsamengun lofthjúpsins en undirliggjandi eru öll blæbrigði náttúruspjalla og eyðingar búsvæða og lífsskilyrða. Þá kemur að spurningunni hvort hugtökin hægri og vinstri hafi einhverja merkingu í ljósi núverandi aðstæðna á umhverfissviði eða hvort gerbreytt þjóðfélagssýn þurfi að koma til. Í leit að svari geng ég út frá því að almenningur eigi möguleika til áhrifa á stjórnkerfi ríkja og á alþjóðavettvangi hvort sem siglt er undir hægra eða vinstra flaggi eða nýjum umhverfisverndarfána.

Hægrimenn telja markaðsöflin leysa vandann

Kapítalísk viðmið gegnsýra nú efnahagsstarfsemi heimsbyggðarinnar undir veldissprota Alþjóða viðskiptastofnunarinnar. Fjölþjóðasamsteypur ráða mestu um efnahagsframvindu og hafa nú á mörgum sviðum meiri áhrif en þjóðríki og kjörnar fulltrúasamkomur. Samkeppni og gróði eru lykilhugtök og helstu mælikvarðar á stöðu fyrirtækja, ríkja og efnahagsblokka eru ör og mikil velta og sem hröðust efnahagsumsvif. Því meira, þeim mun betra! Vegna þessa gengur hraðar á auðlindir, lífrænar og ólífrænar, en nokkru sinni fyrr og orkunotkun, einkum með jarðefnaeldsneyti, vex að sama skapi frá ári til árs og með henni mengun hafs og lands og lofthjúpsins. Hægrimenn setja fæstir spurningarmerki við þessa siglingu, segja markaðsöflin munu leysa vandann og véfengja gjarnan niðurstöður rannsókna um orsakir umhverfisbreytinga, þar sem talin gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar af mannavöldum. Stór hluti hagfræðinga gefur þessari siglingu gæðastimpil og hægrisinnaðir pólitíkusar telja eftirsóknarverðast að stækka kökuna og fá meira til skiptanna, þótt svo að misskipting uppskerunnar fari hraðvaxandi. – Hérlendis eru margir talsmenn Sjálfstæðisflokksins á þessu róli, Illugi Gunnarsson þar dæmigerður fulltrúi. Í stórum dráttum er Sjálfstæðisflokkurinn, ef marka má störf fulltrúa hans á þingi og í ríkisstjórn, staddur á árinu 1970 þegar kemur að umhverfismálum og náttúruvernd. Ábendingar um eigin stefnu varða helst liðsinni við friðlýsingar landsvæða, góða umgengni og tæknilausnir þegar kemur að mengunarvörnum. Gott svo langt sem það nær en leysir ekki aðsteðjandi vanda.

Kratar haltrandi í umhverfismálum

Vinstrimenn sem svo kalla sig eru margskiptur hópur þegar kemur að umhverfismálum og hafa margir hverjir takmarkaða lærdóma dregið af umhverfiseyðingu og vaxandi mengun síðasta mannsaldurinn. Sósíaldemókrataflokkar í Evrópu láta flestir við það sitja að gagnrýna félagslega agnúa á efnahagskerfinu, atvinnuleysi og vaxandi launabil. Í umhverfismálum reyna þeir að sníða af vankanta án þess að setja spurningarmerki við gangverk efnahagsstarfseminnar, neyslukapphlaup og sólund. Kratarflokkar á Norðurlöndum að Samfylkingunni hér meðtalinni líta á gangverk Evrópusambandsins sem æskilegan ramma, en þar er á ferðinni hákapítalískt samkeppnisumhverfi með umhverfisvernd á þriðja farrými og takmarkað svigrúm fyrir almenning til áhrifa. Forysta verkalýðshreyfingar í Evrópu oft nátengd krataflokkunum hefur óvíða tekið á umhverfismálum af festu og látið sér nægja glímuna um að ná í sneið af hagvaxtarkökunni til sinna umbjóðenda.

Græn gagnrýni á efnahagskerfið

Nýlundan á stjórnmálasviðinu í Evrópu og víðar síðustu áratugi hefur birst í tilkomu og vaxandi fylgi grænna og vinstrigrænna stjórnmálaflokka sem óbeint njóta góðs af fjölskrúðugum almannasamtökum um umhverfismál. Mismunandi blæbrigði eru á stefnu þessara flokka en þeim er sameiginlegt að vara við afleiðingum ríkjandi efnahagsstefnu á umhverfið í bráð og lengd og vísa á sjálfbæra þróun sem rísi undir nafni sem mælikvarða. Stóraukin fræðsla um umhverfismál og stuðningur við alþjóðasáttmála á umhverfissviði er hluti af stefnumiðum þessara flokka. Andstaða við kjarnorku sem úrræði á orkusviði er þessum flokkum sameiginleg og þeir vara við misskiptingu, gagnrýnislausri vaxtarhyggju og neyslukapphlaupi. Á Norðurlöndum hafa flestir þessir flokkar verið gagnrýnir á Evrópusambandið og vilja styrkja hlut þjóðríkjanna til að hafa áhrif á þróun mála.

Gjörbreytt stefna forsenda lausnar

Aðvörunum fjölgar nú stöðugt frá hugsandi mönnum úr heimi stjórnmála og vísinda vegna umhverfiseyðingar af mannavöldum. Nægir þar að minna á nöfn manna eins og James Lovelock, Jared Diamond og Alan Gore. Þeim og fjölda annarra málsmetandi er ljóst að núverandi sigling leiðir í strand og hreinan voða fyrir mannkynið, ef ekki á okkar dögum þá á nýbyrjuðu árþúsundi. Aðeins ný hugsun, gjörbreytt gildismat og hnattræn endursköpun framleiðslu- og fjármálastarfsemi getur komið í veg fyrir það hrun siðmenningar og gífurlegar mannfórnir sem stefnir í að óbreyttu. Hægri stefna eins og hún hefur birst okkur um langt skeið magnar aðeins vandann en róttæk vinstri stefna á grænum grunni getur skipt sköpum.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim