Hjörleifur Guttormsson 14. febrúar 2006

Heimur íslam, Vesturlönd og trúardeilur 
 
Vesturlönd mega þessa dagana læra dýrkeypta lexíu. Hópar múslima í mörgum löndum studdir beint og óbeint af trúarleiðtogum og ráðamönnum standa fyrir háværum mótmælum vegna þess sem þeir telja niðurlægingu gagnvart Múhameð. Skrípamyndir Jótlandspóstsins af spámanninum eru það korn sem fyllti mælinn og varð til að leysa úr læðingi uppsafnaða reiði gagnvart langvarandi ofbeldi og niðurlægingu af hálfu Vesturlanda. Minnihlutahópar múslima í gettóum innflytjenda víða á meginlandi Evrópu láta einnig til sín taka, slegnir ótta yfir reiði og hefndaraðgerðum í sinn garð. Eins og verða vill þegar sýður yfir í kraumandi potti hrökkva menn við og það er eins og ólgan komi flestum á óvart. Þó hafa tilefnin blasað við lengi og verið meðal helstu deilumála á alþjóðavettvangi: Hernám Ísraels á löndum Palestínumanna í heilan mannsaldur, innrás Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra í Írak, pyntingar og ill meðferð á föngum af arabískum uppruna svo nokkur dæmi séu nefnd. Öll þessi atriði stangast á við alþjóðalög, alþjóðasamninga og samþykktir Sameinuðu þjóðanna, að ekki sé talað um afskipti nýlenduvelda fyrr á tíð af málefnum Mið-Austurlanda.

Tjáningafrelsi og önnur gildi
Í vörn sinni fyrir birtingu skrípamyndanna hafa Danir og aðrir vísað til tjáningafrelsis sem grundvallarréttinda sem ekki megi hrófla við. Ekki sé boðlegt að fjölmiðlar fari að stunda innri ritskoðun af ótta við boð og bönn úr fjarlægum heimshornum. Slíkt er gott og blessað svo langt sem það nær. Hitt hefur komið á daginn að gerð myndanna var af hálfu danska blaðsins hugsuð sem aðferð til að storka og skilaboðin eflaust stíluð á heimamarkað. Í Danmörku eins og víðar á sér stað tilfinningahlaðin umræða gagnvart innflytjendum og minnihlutahópum og Danski þjóðarflokkurinn nærist fyrst og fremst af tortryggni í þeirra garð. Í þeirri umræðu hallar mjög á íslam og aðra fjarlæga menningarheima. Hnattvæðing fjármálaheimsins hefur ekki skilað sér í miðlun þekkingar á menningu og siðum annarra á jafnréttisgrundvelli, heimsþorpið svonefnda er jafn vandfundinn staður og fyrir tíma sjónvarps og farsíma. Íslam er þannig ámóta fjarlægt fyrir þorra Íslendinga og hin hliðin á tunglinu. Það má þakka örfáum einstaklingum eins og Jóni Ormi Halldórssyni, Jóhönnu Kristjónsdóttur og Magnúsi Bernharðssyni að einhvað bitastætt hefur heyrst um íslam í íslenskum fjölmiðlum og að þeir sem telja sig múhameðstrúar séu ekki allir steyptir í sama mót. Þeir eldar sem nú brenna verða vart slökktir nema takast megi að auka þekkingu og gagnkvæman skilning á ólíkum hugarheimum.

Orð og athafnir
En það eru fleiri ólíkir mælikvarðar en á trú og tjáningafrelsi sem ber á milli í samskiptum íslamskra ríkja og forystumanna á Vesturlöndum þessi árin. Bush Bandaríkjaforseti hefur einsett sér að koma á lýðræði að vestrænni fyrirmynd í Arabalöndum og gera útræka boðbera “Hins illa”, nú síðast í Íran, með vopnavaldi ef ekki vill betur. Í frjálsum kosningum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna nýverið fengu Hamas-samtökin hreinan meirihluta en Bandaríkin og ESB hafa skilgreint Hamas sem hryðjuverkasamtök. Síðan er uppi fótur og fit og þess krafist að Hamas breyti stefnu sinni gagnvart Ísrael en ella verði skrúfað fyrir efnahagsstuðning. - Í deilunni við Írani út af kjarnorkuáætlun þeirra hefur Chirac Frakklandsforseti gengið svo langt að hóta beitingu kjarnavopna að fyrrabragði láti Íranir sér ekki segjast og dragi áform sín um auðgun úrans til baka. Áhyggjur út af frekari dreifingu kjarnavopna eru eðlilegar en það fer illa á því að þeir sem komist hafa yfir slík gereyðingarvopn hampi þeim í milliríkjadeilum í stað þess að beita sér fyrir samdrætti og eyðingu slíks vopnabúnaðar með samræmdu átaki.

Trúarofstæki í sókn
Margar vísbendingar eru um að trúarofstæki af ýmsu tagi sé í sókn á Vesturlöndum á kostnað vísindahyggju og umburðarlyndis. Skýrt dæmi um það er svokölluð vitshönnunarkenning (intelligent design theory) sem kristnir söfnuðir einkum í Bandaríkjunum gera kröfu um að kennd verði þar í ríkisskólum samhliða þróunarkenningu Darwins. Í hópi þeirra sem mælt hafa með slíkri fræðslu sem hugsuð er til höfuðs viðtekinni kenningu um náttúruval er enginn annar en Bush forseti. Nýverið hefur verið reynt að sniðganga úrskurð hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 1987 þess efnis að stjórnvöld í sambandsríkjunum geti ekki skyldað ríkisskóla til að kenna svonefnd “sköpunarvísindi” þar eð slíkt brjóti gegn aðskilnaði ríkis og kirkju. Að sömu niðurstöðu og hæstiréttur komst alríkisdómari í Pensylvaníu í desember sl. þegar hann úrskurðaði að ákvörðun skólanefndar þar í 20 þúsund manna bæ um að bæta vitshönnunarkenningunni við námsefni í raunvísindum bryti í bága við stjórnarskrána. En baráttan um sálirnar í hæstarétti Bandaríkjanna heldur áfram og Bush hefur með tilefningu dómara lagt sitt af mörkum til að tryggja íhaldssömum sjónarmiðum brautargengi.

Er afskiptaleysi útgönguleið?
Nær 80 ár eru liðin frá því Halldór Kiljan Laxness skrifaði eftirfarandi í ritgerð undir fyrirsögninni Trú vestur í Kaliforníu  og birti í Alþýðubókinni:
“Trú getur bæði verið ill og vitlaus hversu heilög sannfæring sem fylgir henni, og enginn góður maður hefur rétt til að bera virðingu fyrir slíku. Hitt er ráð að láta það afskiftalaust, eins og amma mín gerði. Það grípur mig í senn hæðni og vorkunn að mæta æstum trúartilfinníngum. Aftur á móti hef ég enga miskunn gagnvart þeim sem hafa innrætt fólki kenningar þær er liggja til grundvallar trúarofstæki, en það eru nær því undantekníngarlaust menn sem ýmist vissu betur eða áttu þess allan kost að vita betur.” – Freistandi væri að fylgja ráðum gömlu konunnar um afskiptaleysi, en hvort það stoðar í margslungnum þrætum sem nú geisa skal ósagt látið.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim