Hjörleifur Guttormsson | 14. ágúst 2006 |
Áhættan af Kárahnjúkavirkjun á eldvirku svæði Mat vísindamanna fyrir ári
Þetta og fleira má lesa í skýrslu vinnuhóps vísindamanna frá í mars 2005, en formaður hópsins var Freysteinn Sigmundsson.Vinnuhópurinn lagði áherslu á frekari athuganir, m.a. vegna jarðskorpuhreyfinga á svæðinu við stíflurnar og lónið. Viðbrögð stjórnar Landsvirkjunar Af tilefni þessara jarðfræðiupplýsinga samþykkti
stjórn Landsvirkjunar 6. apríl 2005 að láta fara
fram endurskoðun á greiningu og áhættumati vegna
Kárahnjúkavirkjunar. “Skilgreina skal áhættuþætti,
svo sem hættu á eldgosum, jarðhræringum og gikkskjálftum
og meta möguleg áhrif þeirra og fargsins af lóni
og stíflum, m.a. lekt vegna opnunar sprungna í lónstæði
Hálslóns og/eða stíflurof eða stíflubroti
undir stíflum.” Í ályktun stjórnar Landsvirkjunar
þennan dag var jafnframt kveðið á um mat á
afleiðingum áhættunnar fyrir starfsemi fyrirtækisins
og viðskiptavina þess og að endurskoða skuli eldri viðbragðsáætlanir
og aðlaga þær nýrri áhættugreiningu. Bresturinn í Campos Novos stíflunni Landsvirkjun og verkfræðingar á hennar vegum hafa frá upphafi gert lítið úr áhættunni af misbrestum í mannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar. Í skýrslu VST í apríl 2001 “Mat á áhættu vegna mannvirkja” sagði m.a.:
Á síðustu áratugum hafa stíflurof orðið á nokkrum stöðum í heiminum við miðlunarlón og eru ætíð taldir válegir atburðir. Leki úr miðlunarlónum er einnig þekkt vandamál, m.a. dró verulega úr afköstum Sigölduvirkjunar eftir að hún var tekin í gagnið 1976. Nýjasta dæmi um alvarlega bresti í risastíflu gerðist fyrir aðeins hálfum öðrum mánuði (júní 2006) í Campos Novos stíflunni í Canoas-ánni í Brasilíu. Hún virðist vera af svipaðri gerð og Kárahnjúkastíflan, um 200 metra há grjótstífla með steyptri kápu. Framkvæmdum við stífluna var að heita má lokið og byrjað að safna vatni í væntanlegt miðlunarlón ofan hennar þegar leki varð í hjáveitugöngum (diversion tunnel). Eftir ýmsar tilraunir við að stöðva leka fór svo að við ekkert varð ráðið og lónið sem náð hafði 53 m hæð tæmdist og vatnið streymdi í annað miðlunarlón neðar við ána. Það lón var með lágri vatnsstöðu vegna þurrka og tók við flaumnum en ella er óttast að þúsundir manna hefðu farist neðar við ána. Loftmyndir teknar eftir atburðinn sýna stórar sprungur í steyptri kápu stíflunnar en eigandi virkjunarinnar, Enercan-samsteypan, reyndi að gera sem minnst úr atburðinum. Taka átti aflvélar virkjunarinnar í gagnið í áföngum innan árs, en óvissa er nú um framhaldið. Mótmælum umhverfisverndarsinna og samtaka fólks í nágrenninu var mætt með grófum lögregluaðgerðum að sögn fréttamiðla. Undarlega hljótt hefur verið um þennan atburð hérlendis og þó er hann eins og spegilmynd af því sem gæti gerst við Kárahnjúkavirkjun. Vísbendingum fjölgar um eldvirkni Í Brasilíu-atburðinum var ekki jarðhræringum um að kenna svo vitað sé. “Við þekkjum ekki raunverulega orsök lekans” er haft eftir yfirverkfræðingi byggingarsamsteypunnar Camargo Correa. “Við óttumst að það sé ekki aðeins um eina ástæðu að ræða heldur ef til vill samspil nokkurra þátta.” – Við Kárahnjúka bætist hins vegar við yfirvofandi eldvirkni og jarðskorpuhreyfingar sem gera íslenskar aðstæður óvenjulegar. Vísbendingar um jarðhita og virkar sprungur á Kárahnjúkasvæðinu hafa verið að hrannast upp eftir að skýrsla vísindamanna kom út á síðasta ári. Grafnar hafa verið rásir í yfirborðslög og komið í ljós kísilútfellingar sem ummerki um jarðhita á undanförnum 10 þúsund árum, þ.e. eftir lok síðasta jökulskeiðs. Einnig hljóta upplýsingar um jarðhita og vísbendingar um eldvirkni að hafa komið fram við jarðgangaboranir og baráttu við misgengin síðasta árið. Þessi mál skýrast væntanlega á næstunni eftir að vinnuhópurinn um nýtt áhættumat fyrir Kárahnjúkavirkjun skilar sínum niðurstöðum. Hins vegar hljóta síðan að verða kvaddir til óháðir aðilar til að leggja sitt mat á niðurstöðuna og hvers kyns áhættu sem tengist virkjuninni. Ábyrgð Alþingis við breyttar aðstæður Öll gögn um þetta afdrifaríka mál þurfa að verða opinber hið fyrsta þannig að lýðræðisleg umræða geti farið fram og unnt verði að taka pólitískar ákvarðanir um Kárahnjúkavirkjun áður en til greina komi að byrja að safna vatni í Hálslón. Stjórn Landsvirkjunar þarf að horfast í augu við vandann og áhættuna en Alþingi sem heimilaði virkjunina hlýtur að eiga síðasta orðið í ljósi nýjustu upplýsinga. Allt önnur mynd blasir nú við almenningi en þegar ákvarðanir um Kárahnjúkavirkjun voru teknar með pólitísku handafli stjórnarflokkanna og stuðningi Samfylkingarinnar veturinn 2001-2002. Þá var ekki hlustað á aðvaranir um jarðfræðilega áhættu sem nú hefur sýnt sig að voru fyllilega réttmætar. Fjárhagslegar skuldbindingar mega ekki ráða för í þessu dýrkeypta máli og jafnframt hljóta allar hugmyndir um frekari stórvirkjanir og stóriðju að koma til endurmats. Hjörleifur Guttormsson |