Hjörleifur Guttormsson 14. nóvember 2006

Fjarðará: Skylt að afhenda virkjunarsamninga
Niðurstaða Úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Með bréfi til bæjarráðs Seyðisfjarðar 20. júlí 2006 óskaði undirritaður eftir að fá send eintök af samningum milli Seyðisfjarðarkaupstaðar og Íslenskrar orkuvirkjunar ehf. í tengslum við fyrirhugaðar virkjanir í Fjarðará. Þessari beiðni hafnaði bæjarráð Seyðisfjarðar þann 24. júlí sl. með vísan til 5. greinar upplýsingalaga nr. 50/1996 enda sé það samdóma álit samningsaðila.Þann 23. ágúst 2006 kærði Atli Gíslason hrl. fyrir mína hönd þessa synjun bæjarráðs til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Úrskurðarnefndin hefur síðan fjallað um málið og kallað eftir frekari gögnum frá málsaðilum. Í dag barst mér í hendur niðurstaða nefndinnar dags. 10. nóvember 2006 þess efnis að veita beri mér sem kæranda aðgang að umræddum samningum í heild sinni. Í forsendum Úrskurðarnefndarinnar kemur m.a. fram að upplýsingar af þeim toga sem fram koma í samningum aðila geti varðað fjárhags– eða viðskiptahagsmuni þeirra. Nefndin segir hins vegar að þegar tekið sé mið af þeim ríku almannahagsmunum sem eru tengdir því að almenningur eigi kost á að fá upplýsingar um ráðstöfun opinberra eigna sé ekki eðlilegt að þessar upplýsingar fari leynt.

Úrskurðarorðin eru svohljóðandi:

Seyðisfjarðarkaupstað er skylt að veita kæranda, Hjörleifi Guttormssyni, aðgang að samningi Íslenskrar orkuvirkjunar ehf. og Seyðisfjarðarkaupstaðar, dags. 3. október 2003, og viðaukasamningi Seyðisfjarðarkaupstaðar og Íslenskrar orkuvirkjunar Seyðisfirði ehf., frá 3. júlí 2006, í heild sinni.

Úrskurðurinn er ítarlega rökstuddur og afar fróðlegur með tilliti til túlkunar nefndarinnar, ekki síst á 5. gr. upplýsingalaga sem fjallar um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Segir Úrskurðarnefndin þar m.a.: „Með hliðsjón af markmiðum upplýsingalaga ber að skýra undantekningar frá meginreglunni um upplýsingarétt almennings þröngt.” Mál þetta sem varðar mikilvæga almannahagsmuni hlýtur sem önnur hliðstæð að hafa fordæmisgildi sbr. það sem segir á kynningarvef forsætisráðuneytisins:
„Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir og verður ekki skotið annað innan stjórnsýslunnar. Þeir hafa því jafnframt fordæmisgildi fyrir önnur stjórnvöld og stuðla þannig að auknu samræmi í framkvæmd upplýsingalaganna.”Málflytjandi minn Atli Gíslason hrl. á þakkir skyldar fyrir sinn góða hlut í niðurstöðu þessa máls.

Meðfylgjandi: Úrskurður frá 10. nóvember 2006 í málinu A–234/2006


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim