Hjörleifur Guttormsson 15. desember 2006

Samgöngur, raflestir og gróðurhúsaáhrif
Birtist áður sem grein í Morgunblaðinu 14. desember 2006

Samgöngumál eru mjög til umræðu þessar vikurnar og kemur ekki til af góðu. Menn knýja á um úrbætur til að greiða fyrir bílaumferð og gera hana öruggari, síðast með tugþúsundum undirskrifta fólks á Suðurlandi um tveggja akreina veg frá Selfossi til Reykjavíkur. Eftirspurnin eftir jarðgöngum er líka mikil og vaxandi, ekki aðeins út um dreifðar byggðir heldur einnig á höfuðborgarsvæðinu. Samgönguráðherra hefur undanfarið vafist tunga um tönn vegna krafna sem á honum dynja og lái honum hver sem vill. Sannleikurinn er sá að um allt land sjá menn þörf fyrir miklar úrbætur í vegamálum eins og Steingrímur J. Sigfússon minnti rækilega á í þingumræðu á dögunum og þá er líka jafngott að menn séu reiðubúnir að leggja til fjármagn í þessu skyni og slá af öðrum fjárfrekum kröfum í staðinn. Þrýstingur á úrbætur hefur m.a. magnast við stóraukna umferð þungaflutningabíla á vegunum í kjölfar ákvarðana stjórnvalda um að leggja niður strandflutninga. Jafnframt fer bifreiðaflotinn ört stækkandi með ári hverju og þeim fjölgar ört sem aka langar leiðir til og frá vinnustað. Óábyrg hegðun fjölda ökuþóra í umferðinni á líka stóran þátt í umferðaslysum þótt vissulega skipti vegakerfið og veðurfarslegar aðstæður oft sköpum þegar illa fer.

Mengunin frá umferðinni
Til að knýja sístækkandi bílaflota notum við jarðefnaeldsneyti og ekki eru horfur á að á því verði teljandi breyting næsta áratug og líklega lengur. Losun gróðurhúslofts frá vegasamgöngum nam 18% heildarútstreymis hérlendis árið 2004, litlu minna en frá fiskiskipaflotanum. Við þetta bætist margháttuð önnur mengun svo sem PAH– og NOx-efna auk gífurlegrar svifryksmengunar sem segir til sín í sívaxandi mæli á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni Íslendinga sem og annarra velmegandi þjóða verður á næstunni og fram eftir öldinni að skera rækilega niður losun gróðurhúsalofts. Stöðvun frekari stóriðju er nærtækt viðfangsefni í þessu sambandi en aðrir helstu mengunarvaldar verða að leggja sitt af mörkum, samgöngur á landi og í lofti ekki síður en aðrir. Til að draga úr losun gróðurhúsalofts mun þurfa að beita margvíslegum aðferðum, sem meðal annars munu þyngja útgjöld bifreiðaeigenda er fram líða stundir. Því til viðbótar eru horfur á að eldsneytisverð fari hækkandi á næstu árum og þarf ekki mikið að gerast á sviði heimsmála svo að til verðsprengingar komi.

Raflestir sem hluti af lausn?
Horft hefur verið til annars og betra eldsneytis í umhverfislegu tilliti svo sem vetnis eða metanóls. Sjálfsagt er að þróa slíka kosti og meta raunsætt sem framlag til úrbóta. En það eru fleiri möguleikar sem furðu lítið hafa verið í umræðu hérlendis til að nýta innlenda orku í samgöngum og á ég þar við raflestir eða járnbrautir af ýmsum gerðum. Mér er kunnugt um að slíkir kostir hafa á liðinni tíð verið reiknaðir út í hafsauga en niðurstaða sem fengin var fyrir áratug þarf ekki að verða hin sama nú eða eftir 10–15 ár. Ég tel því ástæðu til að farið verði vandlega yfir þetta dæmi í tengslum við þá umræðu sem nú stendur yfir og þær nýju aðstæður sem blasa við, m.a. þörfinni á að draga róttækt úr losun gróðurhúsalofts hérlendis sem lið í að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar.

Aðlaðandi samgöngumáti
 Íslendingar eru margir víðförulir og þekkja af eigin reynslu að ferðast með járnbrautum og sporvögnum erlendis. Sjálfur kann ég betur við þann ferðamáta en t.d. að sitja í langferðabílum eða við streitu undir stýri. Í lest gefst mönnum kostur á afslöppun og að horfa á landið líða hjá eða að sinna hugðarefnum við tölvu, bóklestur eða spjall við náungann. Lestarsamgöngur hérlendis hlytu í fyrstu að koma til skoðunar suðvestanlands vegna þéttbýlis og umferðarþunga. Ég sé fyrir mér spor fyrir raflestir í þrjár áttir út frá Reykjavík: Til Keflavíkurflugvallar, austur á Selfoss og upp á Akranes. Út frá aðalbrautarstöð sem næst höfuðborginni þyrftu jafnframt að koma góðar tengingar með almenningssamgöngum inn í borgina og til allra helstu þéttbýlisstaða í grennd, að ógleymdum reiðhjólum sem þyrftu að verða miklu algengari í framtíðinni með endurbótum fyrir hjólreiðafólk.

Tökum raflestir með í dæmið
Járnbrautir þurfa sitt pláss eins og akvegir. Því er brýnt ef menn á annað borð eru opnir fyrir þessum möguleika í samgöngumálum hérlendis á næstu áratugum að gera ráð fyrir þeim við skipulag og gerð mannvirkja. Það á bæði við um vegstæði, brýr og ekki síst jarðgöng eins og nú eru komin á dagskrá á Sundaleið og umræða hafin um ný göng undir Hvalfjörð. Hér er því ekki spáð að sól einkabílsins sé að ganga til viðar en kannski hillir undir takmörk hans og óþyrmilegan tilkostnað vegna bílaumferðar og mengunar á aðalþéttbýlissvæði landsins þar sem biðraðirnar lengjast ár frá ári.  Seint verður fundin lausn sem dugir fyrir sístækkandi bílaflota hvað sem reynt er með mislægum gatnamótum eða öðrum viðlíka kúnstum. Öllum er hollt að viðurkenna takmörk, einnig bílaeigendum, og taka þátt í að leita nýrra úrræða.
Meðal annarra orða, hvenær fer næsta lest?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim