Hjörleifur Guttormsson 16. október 2006

Sprenging í umfjöllun um loftslagsbreytingar

Vesturlönd eru smám saman að vakna upp við vondan draum: Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru dauðans alvara. Ekkert þema hefur breiðst jafn ört út um síður blaða og tímarita og á öldum ljósvakans þetta árið, stutt af niðurstöðum rannsókna og mælingum um víða veröld. Hér á eftir er gripið niður í nokkrar greinar úr breskum blöðum síðustu vikurnar.

Ógnvænlegur kostnaður af loftslagsbreytingum
Umhverfissamtökin Friends of the Earth birtu nýverið niðurstöður úttektar sem breska blaðið Guardian segir frá 13. október sl. Er hún byggð á athugunum hagfræðinga við Tufts háskólann í Massachusetts sem könnuðu yfir 100 fræðigreinar um efnið. Niðurstaða þeirra er að ef ekki verði brugðist við loftslagsbreytingum strax með viðeigandi hætti muni það kosta heimsbúskapinn 20 triljónir bandaríkjadala á ári undir lok þessarar aldar. Aðgerðaleysi muni leiða til hækkunar meðalhita um 4°C árið 2100 og slíkt muni valda tjóni sem svarar til 8% af vergri þjóðarframleiðslu (GDP) á heimsvísu. Þannig leiði hækkun meðalhita umfram 2°C ekki aðeins til umhverfislegs og félagslegs ófarnaðar heldur efnahagslegs hruns.
Meira að segja olíufélögin eru byrjuð að viðurkenna vandann eftir að hafa lengi lagst á gagnstæða sveif. James Smidt forstjóri Shell í Bretlandi telur kostnaðinn af  hækkun sjávarborðs á næstu áratugum verða of háan og því þurfi að grípa til aðgerða þarlendis og alþjóðlega. Kostnaðargreining leiði í ljós að hagstæðara sé að taka á vandanum en láta reka á reiðanum. Telur starfshópur hjá Shell veruleg viðskiptatækifæri felast í gagnaðgerðum og nefnir markað upp á 30 miljarða punda í Bretlandi á næsta áratug.
(Byggt á Guardian, grein eftir Larry Elliott: Warming will cost trillions, says report, 13. október 2006)

Neikvætt umhverfisuppgjör
Velþekkt er sú staðhæfing byggð á athugunum að fimm Jarðir þyrfti til að standa undir eyðslu og lífsháttum á hvern jarðarbúa eins og þeim sem nú tíðkast í Bandaríkjunum. Breskir búskaparhættir yfirfærðir með sama hætti kalla á þrjár Jarðir og Ísland er sennilega á svipuðu róli. Uppgjör á heimsbúskapnum miðað við núverandi stöðu og misskiptingu leiðir í ljós sívaxandi arðrán á auðlindum jarðar. Stofnun í Bretlandi sem kallar sig New Economics Foundation og styðst við bandarískt háskólanet með nafninu Global Footprint Network hefur gert upp auðlindareikning jarðarbúa miðað við álag á ræktarland, skóga, fiskistofna, andrúmsloft og orkulindir. Stofnunin býr til einskonar dagatal til að endurspegla neikvæðan, ósjálfbæran reikning manna gagnvart móður Jörð. Niðurstaðan er sláandi. Árið 1987 var það fyrsta sem sýndi ósjálfbæra niðurstöðu með skuldadaga frá 19. desember að telja. Árið 1995 var vendipunkti náð 21. nóvember og á þessu ári fór mannkynið að lifa um efni fram og „éta útsæðið” 9. október.  Þetta svarar að mati Global Footprint Network til 23% ofnotkunar á auðlindum jarðar. Næst á eftir mengun lofthjúpsins kemur vistkerfi sjávar með sívaxandi ofveiði fiskistofna. Olíulindir nálgast vendipunkt með brennslu á 84 miljónum olíufata (barrels) hvern dag. Ferskvatnsskortur er þegar vandamál en fer hraðvaxandi og gæti bitnað á 7 miljörðum manna um miðja öldina.
(Endursagt eftir The Independent, grein Martin Hickmans: Earth´s ecological debt crisis: mankind´s ´borrowing´from nature hits new record, 9. október 2006)

Hafís á hröðu undanhaldi
Hafís að sumarlagi í norðurhöfum hefur stöðugt farið minnkandi frá því farið var að fylgjast með útbreiðslu hans úr gervihnöttum árið 1977. Frá árinu 2002 að telja hefur orðið greinileg hröðun á bráðnun íssins, að talið er vegna hlýnunar í kjölfar loftslagsbreytinga. Staðan eftir sumarið í ár sýnir næst minnstu útbreiðslu íssins á 29 ára tímabili og aðeins kuldatíð og stormar í ágústmánuðu komu í veg fyrir að bráðnunarmet síðasta árs yrði slegið. “Með þessu áframhaldi munum við ekki sjá neinn hafís að hausti í Norður-Íshafi frá árinu 2060 að telja” segir forstöðumaður US National Snow and Ice Data Centre í Colorado. Hafísinn verkar sem einangrandi þekja á hafflötinn, endurkastar sólargeislum og kemur í veg fyrir hitun á yfirborðslögum sjávar. Sérfræðingar óttast að minnkun ísþekjunnar geti leitt af sér keðjuverkun (positive feedback) og hraðari bráðnun en nú er. Þótt búast megi við sveiflum í ísþekju á næstu árum er ljóst að svo lengi sem magn gróðurhúsalofts heldur áfram að aukast í andrúmsloftinu mun hafísþekjan verða á undanhaldi.
(Byggt á The Independent, grein eftir Steve Connor: Global warming devastates sea ice in Arctic Circle, 4. október 2006)

Þriðjungur Jarðar eyðimörk í aldarlok
Loftslagsbreytingar og áframhaldandi hlýnun andrúmsloftsins mun leiða til skrælnunar gróðurlenda og útfærslu eyðimarka í áður óþekktum mæli. Athugun á vegum Hadley Centre for Climate Prediction and Research bendir til, haldi fram sem horfir, að stórfelldir þurrkar sem útiloki í reynd landbúnað muni ná til um þriðjungs af yfirborði Jarðar í aldarlok. Þetta mun ekki aðeins leiða til fæðuskorts og hungursneyðar hundruða miljóna heldur meiri þjóðflutninga en menn hafa áður orðið vitni að. Sem fyrr er búist við að þessi þróun muni koma harðast niður á löndum í Afríku. Nú ríkir alvarlegur þurrkur á 8% af þurrlendi jarðar en þetta hlutfall stefnir í 40% í aldarlok að mati sérfræðinga Hadley Centre. Niðurstöður þessara rannsókna verða kynntar í heild í næsta mánuði á samningafundum á vegum Loftslagssamningsins um hvað við skuli taka af Kyotoferlinu eftir 2012. Næsta skref í þessum rannsóknum Hadley Centre verður að reyna að átta sig betur á líklegum svæðisbundum áhrifum hlýnunar á úrkomu og landbúnað.
(Byggt á grein The Independent eftir Michael McCarty: The century of drought, 4. október 2006)

Óvissa um skógrækt og kolefnisbúskap
 Vaxandi gróska er nú víða erlendis í sölu “kolefnisbréfa” sem fjármagna eiga verkefni í skógrækt, endurnýjanlegri orku í stað kolefnabrennslu og á fleiri sviðum. Um tvennskonar markað er að ræða, viðurkenndan skráðan markað tengdan Kyótóferlinu (CER) og frjálsan markað (VER) sem ekki lýtur bindandi reglum. Bæði kerfin miða hvern hlut við eitt tonn af „spöruðu” kolefni  en verð CER-hluta er 2-3 sinnum hærra en á VER-bréfum og segja sérfróðir að þetta endurspegli mismunandi trúverðugleika um raunverulega niðurstöðu sem komi loftslaginu til góða. Fyrirtæki á frjálsa markaðnum segjast fylgja eigin reglum sem ekki lúta eftirliti. Ýmsir loftslagsfræðingar gagnrýna sölu kolefnisbréfa því að þau virki letjandi á fólk til að breyta eigin hegðunarmynstri, þetta séu því einskonar aflátsbréf. Þá eru uppi ýmsar efasemdir um einstök verkefni, m.a. í skógrækt, þau byggi ekki á tryggum ávinningi heldur óvissri forspá sem ómögulegt sé að vita hvort skili sér í reynd í kolefnissparnaði.. Ekkert verði t.d. fullyrt um líflengd skóga við breyttar loftslagsaðstæður. Sérfræðingur við Cambridge háskóla líkir plöntun trjáa í því skyni að draga úr loftslagsbreytingum við það að fólki sé sagt að drekka meira vatn til að draga úr hækkun sjávarborðs. Vísindalegur vafi um gildi kolefnisbréfa til skógræktar hefur leitt til þess að þau eru ekki viðurkennd í sölukerfi Evrópusambandsins á losunarheimildum.
(Byggt á grein úr Guardian eftir David Adam: Can planting trees really give you clear carbon concience? 7. október 2006)


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim